þriðjudagurinn 1. júní 2021
þriðjudagurinn 18. maí 2021
Eins og flest söfn í heiminum í dag þá stendur Byggðasafn Vestfjarða á tímamótum, er þá verið að benda á þá stöðu sem upp hefur komið í menningarsamfélaginu vegna COVID-19. Ekki fyrir svo löngu síðan tóku nýjar hendur við stjórn safnsins og hafa siglt starfseminni í gegnum þær áskoranir sem söfn hafa þurft að kljást við á þessum tímum. Eitt af því sem er einna helst áberandi og stór þáttur í rekstri safnsins eru komur og gestir skemmtiferðaskipa sem lögðu leið sína á safnið og virtu fyrir sér minjar og menjar líðandi stundar. Af þessu hafa orðið stórar breytingar og starfsemin á safninu breyst í takt við það. Ákveðið ráðrúm hefur gefist í það að endurskoða starfsemina og meta hvernig hægt er vinna frekar með sögu nærumhverfisins og að upplifunin hvort sem er af sögulegum fróðleik eða sjónrænu söguspili skilji eftir sig einhverja mynd til þeirra sem heimsækja safnið. Hluti af þessari vinnu hefur farið í það að endurskipuleggja safnarýmið í Turnhúsinu, fara í hugmyndavinnu varðandi safnfræðslu og vinna frekar að því að bjóða skólana velkomna utan hefðbundins starfstíma safnsins. Söfn á landsbyggðinni geta verið mikilvægur þáttur í að túlka og dýpka skilning á nærumhverfinu og þar af leiðandi gefa fræðslunni aukið vægi. Þessu þarf þó að stilla upp þannig að tilgangnum sé náð, vinnandi með rými, tæki og tól og í sumum tilvikum lifandi frásögn.
Byggðasafnið stendur einnig frammi fyrir því að fara í gagngerar endurskipulagningu og uppbyggingar vinnu á geymslurými sem hófst síðastliðið haust. Sú vinna mun taka tíma ásamt því að vinna áfram í skráningarmálum safnsins. Það eru fáar hendur um svo viðamikið verkefni og ávinningurinn samkvæmt því en draumurinn um nýtt húsnæði fyrir muni safnsins er enn á lofti og fleytir vinnunni fram. Skrifstofu og vinnurýmið í Jónshúsi eins og starfsmenn safnsins kalla það hefur einnig gengið í gegnum breytingar en fyrirhugað er að Upplýsingamiðstöðin verði með starfsemi sína á neðri hæð hússins í einhvern tíma. Það er skemmtileg viðbót við umhverfi safnsins og svo að ég noti orðið samlegðaráhrif sem er hið fínasta tískuorð en það er von að þeirra áhrifa muni gæta með komu Upplýsingamiðstöðvarinnar á svæðið í þeirri framtíðarhugmynd sem er uppi um safnið og umhverfi þess.
Þó að með heimsfaraldri líkt og COVID-19 fylgi þau áform að meirihluti fólks horfi í átt til framtíðar og kortleggi fram í tímann hefur faraldurinn jafnvel fengið fólk til þess að staldra við og greiða úr flækjum fortíðar hvort sem það hefur átt sér stað innan veggja heimilisins með tiltekt í geymslu, málningarvinnu og öðru sem setið hefur á hakanum eða í vinnunni þarf sem stundum þarf að leita á fornar slóðir til þess að takast á við ný tækifæri og nýja tíma. Það eru mörg og spennandi tækifæri í starfsemi Byggðasafns Vestfjarða og vonandi verður raunin sú að þessi tími gefi safninu meðbyr í þeirri siglingu sem það á í; festa sig betur í sessi sem áfangastaður í ferðamenningu Íslendinga og gefi sterkari innsýn í sögu samfélagsins sem hér var til þeirra sem hér búa og vilja njóta hennar.
Safnið mun opna þann 1.júní n.k og verður opið frá 10-17
mánudagurinn 17. maí 2021
Alþjóðlegi safnadagurinn er á morgun, 18. maí og þema alþjóðlega safnadagsins 2021 er; Framtíð safna: Uppbygging og nýjar áherslur. Söfnum, fagfólki, starfsfólki safna og almenningi er boðið að nota þemað eða leiðarstefið sem ICOM hefur valið í ár til að móta nýjar stefnur og þróa hugmyndir sem geta nýst menningarstofnunum við þeim ýmsum áskorunum sem blasa við í jafnréttis-, efnahags- og umhverfismálum um þessar mundir. Markmiðið er að samfélagið allt njóti góðs af.
Í umfjöllun um daginn segir að: "Árið 2020 var óvenjulegt og reyndist mörgum erfitt. Heimsfaraldur af völdum COVID-19 hafði áhrif á flesta þætti lífs okkar. Sum vandamál sem ekki hefur tekist að leysa versnuðu þegar heimsfaraldurinn skall á og urðu til þess að efasemdaraddir um hvernig samfélög okkar eru uppbyggð tóku að heyrast víða og kröfur um jafnrétti fyrir allar manneskjur urðu háværari en áður. Söfn fóru ekki varhluta af ástandinu sem skapaðist í heimsfaraldrinum því loka þurfti fjölmörgum þeirra, tímabundið. Ástandið hafði slæm fjárhagsleg, samfélagsleg og sálræn áhrif á allan menningargeirann og ekki sér enn fyrir endann á því. En það hafa einnig verið jákvæð teikn á lofti því að þessi erfiða staða varð til þess að ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar sem líklega eru komnar til að vera. Nægir að nefna aukna áherslu á stafræna miðlun og nýstárlegar hugmyndir um menningarupplifun og miðlun þeirra.
Við sem samfélag stöndum á mikilvægum tímamótum. Í þessu árferði hafa skapast tækifæri fyrir söfn til að skoða betur aðferðir sínar við að ná athygli samfélagsins sem þau þjóna. Söfn eru því hvött til að skoða þá fjölbreyttu rafrænu möguleika sem í boði eru til að miðla, fræða og skemmta. Þannig geta söfn lagt lóð á vogarskálar réttlátrar og sjálfbærrar framtíðar. Við þurfum að fanga tækifærið og vera í forsvari fyrir nýsköpun í menningarstarfi sem gerir heiminn að betri stað, núna og eftir að heimsfaraldurinn heyrir sögunni til."