Alþjóðlegi safnadagurinn er á morgun, 18. maí og þema alþjóðlega safnadagsins 2021 er; Framtíð safna: Uppbygging og nýjar áherslur. Söfnum, fagfólki, starfsfólki safna og almenningi er boðið að nota þemað eða leiðarstefið sem ICOM hefur valið í ár til að móta nýjar stefnur og þróa hugmyndir sem geta nýst menningarstofnunum við þeim ýmsum áskorunum sem blasa við í jafnréttis-, efnahags- og umhverfismálum um þessar mundir. Markmiðið er að samfélagið allt njóti góðs af.
Í umfjöllun um daginn segir að: "Árið 2020 var óvenjulegt og reyndist mörgum erfitt. Heimsfaraldur af völdum COVID-19 hafði áhrif á flesta þætti lífs okkar. Sum vandamál sem ekki hefur tekist að leysa versnuðu þegar heimsfaraldurinn skall á og urðu til þess að efasemdaraddir um hvernig samfélög okkar eru uppbyggð tóku að heyrast víða og kröfur um jafnrétti fyrir allar manneskjur urðu háværari en áður. Söfn fóru ekki varhluta af ástandinu sem skapaðist í heimsfaraldrinum því loka þurfti fjölmörgum þeirra, tímabundið. Ástandið hafði slæm fjárhagsleg, samfélagsleg og sálræn áhrif á allan menningargeirann og ekki sér enn fyrir endann á því. En það hafa einnig verið jákvæð teikn á lofti því að þessi erfiða staða varð til þess að ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar sem líklega eru komnar til að vera. Nægir að nefna aukna áherslu á stafræna miðlun og nýstárlegar hugmyndir um menningarupplifun og miðlun þeirra.
Við sem samfélag stöndum á mikilvægum tímamótum. Í þessu árferði hafa skapast tækifæri fyrir söfn til að skoða betur aðferðir sínar við að ná athygli samfélagsins sem þau þjóna. Söfn eru því hvött til að skoða þá fjölbreyttu rafrænu möguleika sem í boði eru til að miðla, fræða og skemmta. Þannig geta söfn lagt lóð á vogarskálar réttlátrar og sjálfbærrar framtíðar. Við þurfum að fanga tækifærið og vera í forsvari fyrir nýsköpun í menningarstarfi sem gerir heiminn að betri stað, núna og eftir að heimsfaraldurinn heyrir sögunni til."