Fréttir og tilkynningar

Af jólahérum

Jóna Símonía Bjarnadóttir

föstudagurinn 18. febrúar 2022

Í lok árs 2021 fengum við skemmtilega afhendingu á safnið. Védís Geirsdóttir kom færandi hendi með jólaskraut frá eiginmanni sínum Rögnvaldi Óskarssyni. Um er að ræða jólatrésskraut úr gleri, tveir jólahérar sem festir voru á greinar með klemmu. Þeir höfðu verið í eigu Svanlaugar Daníelsdóttur frá Miðfirði í Húnavatnssýslu. Hún var uppeldissystir Bjargar Rögnavaldsdóttur sem bjó á Ísafirði og á hér afkomendur. 

Hérarnir vöktu strax athygli okkar enda höfðum við ekki sé slíka áður og okkur lék forvitni á að vita uppruna þeirra. Við byrjuðum á að skoða bækur um þýskt jólatrésskraut en þó þar væru sannarlega jóla-hérar voru engir líkir þessum. Þá var það netið og þar fundum við uppruna héranna. Þeir voru framleiddir í Rússlandi á tíma Sovétríkjanna, að öllum líkindum milli 1950-1960. Það er áhugavert að skoða jólaskraut frá Sovétríkjunum en auk héra í ýmsum útgáfum er þar að finna geimfara, afa Frosta, kisur og ballerínur svo fátt eitt sé nefnt og svo auðvitað hinar hefðbundnu jólakúlur.  Ef til vill var flutt inn jólaskraut frá Sovétríkjunum í skiptum fyrir síld?

Nýárskveðja

þriðjudagurinn 4. janúar 2022

Gleðilegt ár og bestu nýársóskir. Það má segja að von um að árið 2021 yrði farsælt framkvæmdaár hafi ræst hjá Byggðasafni Vestfjarða. Gerðar voru töluverðar breytingar í geymslu safnsins en sú endurskipulagning og skráningarvinna stendur enn yfir. Með slíkri vinnu er ætlað að ná betri yfirsýn yfir safnkostinn, skrá, meta varðveislugildi og grisja, hlutir sem falla undir hefðbundið safnastarf. Safnið býr að góðum hópi fólks, vellunnurum sem leita til safnsins til þess að varðveita muni sem hafa verið lengi í þeirra fórum. Við þökkum þeim kærlega að hugsa til safnsins í þeim tilgangi. Það má benda á mikilvægi þess að hver einn sá hlutur sem hefur tengingu til vestfirskrar alþýðusögu hversu lítilll eða stór sem hann er, hefur gildi. Hlutir geta sagt sögur, gefa frásögninni dýpt og auka skilning á viðfangsefninu. Það er auðmagn í því að fræðast, fræðslan eflir andann og með öflugu safnastarfi er von um að söfn geti tekið margþættan þátt í daglegu lífi fólks hvort sem það kemur að dægradvöl, núvitund eða andlegri uppbyggingu. Söfn eru ekki bara geymsla. Þau eru sjónarhorn á fortíðina. Hvernig við viljum muna og hvað við viljum muna. Hvað færir okkur minningar og sögur? Hvernig skapast það samfélag sem við lifum í?

Byggðasafnið fékk úthlutað úr safnasjóði í aðalúthlutun ársins 2021 í tengslum við miðlun – sýningu og eflingu grunnstarfsemi. Í desember fór fram aukaúthlutun og þar sem safnið fékk styrki til stafrænna kynningarmála og fyrir símenntun og námskeið fyrir starfmenn safna.

Veiran hafði að sjálfsögðu áhrif á hefðbundið safnastarf sumarsins. Færri heimsóttu safnið sem rekja má m.a. til þess að komur skemmtiferðaskipa voru töluvert færri en verið hafði árin á undan. Tími gafst til endurbóta á sýningarsvæði Turnhússins með góðri vinnu sumarstarfsfólks. Nokkur rými fengu yfirhalningu, veggfóðrað og málað. Hversdagsleg alþýðumenning, heimilislífið varð áberandi á annarri hæðinni ásamt leikföngum liðinna stunda. Yngri gestum safnsins var fenginn staður þar sem hægt er að lita, lesa og leika í teppalögðu notalegu umhverfi. Á fyrstu hæðinni má finna sýninguna um Karítas með breyttu sniði þó, en saga hennar fléttast inn í sögu verkafólks og sjómanna og kvenna. Sjávarútvegi og breytingar á atvinnuháttum eru gerð skil en allt þetta býr til þá ímynd og sýn sem má sjá á heimilislífinu á efri hæðinni. Það voru kannski hlutir sem stöldurðu stutt við, þróuðust og breyttust en höfðu tilgang og auðvelduðu jafnvel lífið á heimilinu og juku afköst hvort sem komið var við í atvinnu eða heimilishaldi. Þriðja hæðin geymir bátalíkön og valdar harmonikur úr safni hjónanna Ásgeirs S. Sigurðssonar og Messíönu Marzelíusardóttur.

 Sumarið var annars ágætt. Gestakomur héldu áfram þó að safnið hafi lagst í vetrardvala í byrjun september. Opnað var fyrir forvitna gesti, og planaðir voru tveir tónleikar með haustinu þar sem Mugison hélt tónleika í Neðsta og Hljómórar sem báðir vöktu mikla lukku og gaf til kynna að Turnhúsið er spennandi vettvangur fyrir tónleikahald sem vonandi verður áframhald á. Jólasýningin var opnuð á annarri helgi aðventunnar og lögðu fjölmargir leið sína í Neðsta til þess að skoða sýninguna, hlusta á jólasveinafróðleik Elvars Loga og gæða sér á heimabökuðum smákökum og súkkulaði. Jólabúðin leit dagsins ljós með varning sem vakti um upp minningar margra gesta. Tangi, 5 ára deild leikskólans leit við með alla sína hópa, sem og 2.-3. og 4. sem og 6.-7. Bekkur Grunnskólans á Ísafirði ásamt skólahóp frá Flateyri. Hóparnir ýmist fengu sögustund og verkefni, spjall um jólahátíðina og öllu því sem henni fylgir. Þessum tíðindamikla desember mánuði lauk á tvennum tónleikum, Salóme Katrín og Katla Vigdís fluttu jólalög og Hljómórar litu aftur við með jóladagskrá sem finna má á efnisveitunni YouTube fyrir áhugasama. Það er jákvætt og uppörvandi að heyra ánægjuraddir íbúa varðandi jólaopnunina en til þess er leikurinn einmitt gerður. Bjóða bæjarbúum upp á lifandi stað á sögulegu svæði sem er óskandi að verði uppbygging á, en það er óskin hvað varðar komandi ár að uppbygging við svæðið haldi áfram svo að það verði að því menningarsvæði sem það stendur vel að og á skilið.

 

Nýárskveðjur með ósk um heillaríkt komandi ár

Starfsmenn Byggðasafns Vestfjarða

 

 

 

Jólaopnun í Turnhúsi

þriðjudagurinn 7. desember 2021

Það er opið hjá okkur á aðventunni.  - Jólasýning -  13-16

- Lítil jólabúð með skemmtilegan varning. Súkkulaði og jólagóðgæti - 

Tónleikar og fróðleikur inn á milli - Ekki missa af jólaandanum í Neðsta 

Upp