miðvikudagurinn 3. nóvember 2021
Nú í lok október kíkti til okkar Gunnar Torfason útgerðarmaður að skoða skipsbjölluna sem kom upp með rækjutrolli Klakks ÍS í byrjun september á síðasta ári.
Þessi fundur á sér merka sögu en skipsbjallan er úr gufuskipinu Erni GK og á meðal skipverja á Erni GK var langafi Gunnars, Jóhann Rósinkrans Símonarson. Síðast sást til Arnarins 9. ágúst 1936. Afi Gunnars var á öðrum síldarbát sem mætti Erninum í Skjálfanda. Þar mættust þeir feðgar og veifuðu hvor öðrum. Ekki er vitað með vissu hvað hvað olli því að báturinn sökk. Fjölskyldutengingin við þennan fund er merkileg því ekki var vitað hvar báturinn var niðurkominn í flóanum þar til bjallan kemur í net Klakks skips Gunnars.
Örninn var 100 smálestir brúttó að stærð, byggður í Noregi 1903 og fékk þar nafnið BATALDER
miðvikudagurinn 20. október 2021
Veturnætur - viðburðadagskrá hófst nú á mánudaginn og er Byggðasafnið með tvo viðburði í Turnhúsinu
Mugison spilar á fimmtudaginn og hefjast tónleikarnir kl 20:00 -
Tríóið Hljómórar sem eru þau Svanhildur Garðarsdóttir, Rúna Esradóttir og Jóngunnar Biering Margeirsson spila svo ljúfa tóna á föstudagskvöldinu - og hægt verður að fjárfesta í fiskisúpu frá Tjöruhúsinu (sjá nánar á mynd)
Til þess að skoða safnið verður húsið opnað kl 18:00
Tónleikarnir hefjast kl 19:30
Hægt er að skoða viðburðadagskránna hér
Eigið góðar vetrarnætur!
föstudagurinn 24. september 2021
Nú í maí var hafist handa við að breyta sýningarrýmum í Turnhúsinu. Á fyrstu hæð má finna sýninguna um Karítas Skarphéðinsdóttur. Sýningin var sett upp árið 2017 af Helgu Þórsdóttur en minni háttar breytingar hafa verið gerðar á sýningunni þar sem heimur verkafólks í landi, þeirra sem unnu í fiskvinnslu er miðlað ásamt því að sjá hvernig útgerðarsagan tekur breytingum til að mynda í þróun sjófara og veiðarfæra. Sviðið er sett á tímabilið 1890-1941, árin eru uppgangstími í þéttbýlismyndun á norðanverðum Vestfjörðum.
Á annarri hæðinni kennir ýmissa grasa. Lítið barnabæli hefur verið búið til þar sem hægt er að lita, leysa verkefni, kubba og hafa það notalegt með því að glugga í bækur. Verkstæðin tvö sem sýna frá atvinnulífinu í landi, heimili hefur verið sett upp með alþýðumunum sem hafa borist safninu í gegnum tíðina og margt þar sem ekki er fjarri í tíma en gefur góða sýn á hversu hratt hlutirnir hafa breyst á hálfri öld. Það er kosturinn við söfnin og sýningar er að þar er möguleiki á að stalda við og líta yfir líðandi stund, frysta nokkur augnablik og minnast þess sem liðið er.
Leikjum og munum barna er gefin vettvangur en unnið er að því að bæta við og óskað eftir munum tengt leikjum og fatnaði barna ef einhver er áhugasamur um að leggja safninu lið og afhenda muni má senda Byggðasafninu tölvupóst byggdasafn@isafjordur.is
Þriðja hæðin þar sem hægt er að kíkja á útsýnið í Turninum geymir nokkrar vel valdar harmonikur úr safni Ásgeir S Sigurðssonar og líkön af bátum sem tengjast vestfirska flotanum og eru í eigu safnsins og vel völdum munum sem tengjast sjó og veiðarfærasögu fjórðungsins.
Í vetur verður unnið að safnmerkingum og frásögnum og undirbúningur jólasýningar hefst um miðjan október og fyrirhugað er að hafa opið eitthvað yfir aðventuna þar sem hægt verður að eiga notalegar stundir í myrkrinu og telja niður daganna að hátíð ljóssins.
Safnið hefur lokað fyrir veturinn en opnað er fyrir hverjum og einum áhugasömum sem og hópum sem vilja kíkja við og dvelja á safninu.