Fréttir og tilkynningar

Gleðilegt ár - árið 2023 hjá Byggðasafni Vestfjarða

fimmtudagurinn 18. janúar 2024

Byggðasafn Vestfjarða óskar öllum gleðilegs árs og velfarnaðar á því nýja. Það var í mörg horn að líta á liðnu ári og víða komið við. Líkt og áður þá voru tiltektir ofarlega á baugi. Herbert Snorrason vann hjá safninu hluta af ári og fullkláraði gerð innra skráningakerfis á safninu sem nýtist við heildarskráningu á safneign.  

Safnið fékk öndvegisstyrk úr aðalúthlutun safnasjóðs 2023 vegna endurskoðunar á grunnsýningu. Breytingar á grunnsýningu hafa verið í farvatninu í einhvern tíma og ýmsar tilfæringar því tengdu og margar hugmyndir færðar fram hvað hentar neðri hæð Turnhússins best þegar kemur að gestakomum og að safnið geti tekið á fjölbreyttum hópi safngesta. Slíkar ráðstafnir reynast nauðsynlegar til þess að geta bæði bætt aðgengi gesta og hanna rýmið fyrir þann fjölda sem kemur inn í húsið á sumrin. Saga svæðissins og einkenni byggðanna á Vestfjörðum fá pláss til þess að njóta sín betur í sögulegu flæði og fólki gefin kostur á að heyra um tíðaranda ákveðinna tímabila ef það hefur áhuga á að kynna sér sögu og svipi liðinna tíða betur.  

Til þess að kynna sér nýjungar og stefnur safna fór starfsfólk safnsins í vettvangsferð til Danmerkur sem hafði fengist styrkur fyrir og heimsóttu söfn í Kaupmannahöfn. Farið var í opinbera heimsókn til Frilandsmuseet og kynnt sér starfið þar undir leiðsögn. Farið var í safnið í Amalienborg, Rosenborgarkastala og þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn sem státar af fjölbreyttu og innihaldsmiklu sýningarrými og skartar nýrri sýningu sem fjallar um tíma víkinga og farir þeirra á ókunnar slóðir. Þar var forvitnilegt og fróðlegt að kynna sér þá tækni sem notuð er til að miðla frásögnum og textum og eitthvað sem gæti komið að góðum notum í Turnhúsinu til miðlunnar.  

Heimsóknum á safnið heldur áfram að fjölga í takt við komu fleiri skemmtiferðaskipa sem var söguleg hér á Ísafirði liðið ár. Gestakomur byrjuðu snemma í ár og opnunartímabilið lengdist í endann sömuleiðis. Það er afar ánægjulegt og með fámennum en góðum starfshópi gekk það vel að taka á móti næstum 150-200 manns nærri daglega en það má lítið útaf bregða bæði með starfsfólk og innviði safnsins. Það er von okkar  að áfangastaðurinn Neðstikaupstaður fái yfirhalningu á næstu árum svo að bæði svæðinu og  þeirri ríku sögu sem Ísafjörður og bæirnir hér í kring búa yfir sé sómi sýndur og prýði heim að sækja.  

Tölu sýna að hátt í 17.000 manns hafi komið inn í Turnhúsið yfir háannatímabil sumarsins að undanskildum nú árlegum heimsókn frá leikskóladeildinni Tanga, árgöngum Grunnskólans á Ísafirði, Flateyri og Suðureyri en þau heimsóttu safnið í fyrsta sinn. Jólasýningin og opnunartími yfir aðventu var á dagskrá og segja grófar talningar að í það minnsta 200 bollar af súkkulaði hafi verið drukknir. Starfsfólk safnsins vill þakka Örnu mjólkurvinnslu, Nettó og stafsmönnum í áhaldahúsi Ísafjarðarbæjar fyrir veittan stuðning vegna jólasýningar. Það er dýrmætt að geta leitað til fyrirtækja í bænum til að geta staðið fyrir og gefið eins vel í samfélagslega viðburði. Ásamt grunnskólunum kom hópur frá Menntaskólanum á Ísafirði í heimsókn sem og nemendur og erlent rannsóknarfólk á vegum Háskólaseturs Vestfjarða til þess að að fræðast um safnið og svæðið.  

Um mitt sumar byrjaði Magnús Alfreðsson smiður að vinna að því verki að lagfæra og styðja við grunninn á Turnhúsinu. Hann vann einnig að því að lagfæra Eljuna frá Nesi sem smíðuð var Í Grunnavík árið 1942 af bræðrunum Magnúsi og Sigurði Elíassonum. Eljan var síðan máluð í haust og er tilbúin til sjósetningar í ár. Úttekt var gerð á bátum í varðveislu safnsins og ástand hvers og eins metið eftir því. Nokkuð mikið þarf til af fjármagni til þess að fullunnt sé að sinna því viðhaldi og forvörslu sem bátarnir þurfa til hlýtar en eftir fremsta megni verða gerðar þær ráðstafnir sem þarf til þess að þeim sé sinnt sem fer eftir eins og áður er nefnt fjármagni og viðunandi aðstöðu en aðstöðuleysi og óvissa hefur mikil og slæm áhrif á vinnuna.    

Afhendingar til safnsins á árinu voru þó nokkrar og færum við því fólki bestu þakkir fyrir að hugsa til safnsins og bæta safneignina. Munum í varðveislu safnsins má gjarnan fjölga t.d þeim sem koma og snerta daglegt lífi fólks, alþýðumenningu einhversskonar og því sem einkennir vestfirskt búsetulíf fyrr á tímum. Í sumar fór fram merkileg afhending þegar líkanið af síðutogararnum Ceasar H-226 var afhent safninu til varðveislu. Ingi Bjössi sem smíðað hefur listavel líkön af sögulegum togurum hafði hug á því að líkanið yrði selt og fór það svo að Vilhjálmur Ólafsson kom því til leiðar að  átta fyrirtæki tóku sig til við að fjármagna kaupinn og úr varð að hann var afhentur safninu til sýningar um ókomna tíð. Ingi Bjössi hefur með smíði sinni á líkaninu ekki bara unnið að afbragðs handverki heldur líka haldið til haga sögunni sem fylgir strandi Ceasars og þeim náttúruspjöllum sem urðu þar af leiðandi.  

Í haust var safnið nýtt undir kvikmyndatökur á mynd Snævars Sölva Sölvasonar, Snævar er fyrrum sumar starfsmaður safnsins og hefur raunheimurinn í Neðstakaupstað spinnst utan um hugmyndaheim hans í söguþráð myndarinnar Ljósvíkingar. Safnið, umhverfið í Neðsta og Ísafjörður fá að njóta sýn í þessu verki sem verður ánægjulegt að sjá á hvítatjaldinu þegar nær dregur hausti vonandi. Það var annað kvikmyndaverkefni sem safnið kom að en það voru lánaðir munir til kvikmyndar sem tekin var upp á vormánuðum á Ísafirði í gömlu Netagerðinni þar átti að búa til heim sem líktist hinu hefðbundna verstöðvalífi  19. aldar.  

Að öðru þá kvaddi María Júlía Ísafjörð eftir langa legu í Ísafjarðarhöfn og bíða hennar nú endurbætur á Akureyri sem munu vonandi ganga vel. Farskóli safna og safnmanna var haldin í Hollandi í ár þar sem safnafólk heimsótti söfn í Amsterdam og frá Amsterdam ferðaðist safnafólk meðal annars til Utrecht, Den Haag, Rotterdam og Leiden svo eitthvað sé nefnt. Þar er safna flóran sannarlega rík, fjölbreytileg og mikið í lagt bæði fyrir starfsfólk og þá sem heimsækja söfnin. Það er ekki bara heimur upplifanna með tækjum og tólum fyrir gesti sem ber af heldur einnig aðstaða til þess að sinna safnastarfi og geta gert það með sóma. Í heimsóknunum bæði í Danmörku og Hollandi fengust margar og góðar hugmyndir og það má sannarlega bera von í brjósti og láta sig dreyma um bjarta safnaframtíð á Íslandi .Að lokum minnumst við öðlingsins og fyrrum forstöðumanns safnsins til margra ára Jóns Sigurpálssonar sem lést á árinu, blessuð sé minning hans sem er rík og sterk í anda hér í Neðsta.   

Vetrarlokun

mánudagurinn 25. september 2023

Neðsti 1885
Neðsti 1885
Þann 15. september síðastliðinn var síðasti formlegi opnunardagur safnsins á þessu ári. Opið var frá 1. september frá kl. 11-15 með einhverjum tilfærslum á tíma þegar skemmtiferðaskip hafa verið í höfn. Það er sannarlega búið að teygjast í báða enda tímabilið sem safnið hefur opið. Það er opnað fyrr en áður og lokað síðar og ásóknin meiri á þessum tímum. Þó að safnið hafi auglýst formlegum opnunartíma lokið að sinni verður tekið á móti hópum og gestakomum samkvæmt fyrirspurnum og þegar hægt er að verða við því. Í byrjun október fram í miðjan mánuðinn verður safnið lokað vegna kvikmyndatöku þar sem raskanir verða á uppsetningu sýninga í Turnhúsi.
 
Viðburðir og vetrarstarf verður auglýst þegar nær dregur 

Vélsmiðjan á Þingeyri

Jóna Símonía Bjarnadóttir

fimmtudagurinn 29. júní 2023

Því miður hefur ekki tekist að ráða starfsmann í Vélsmiðju GJS á Þingeyri þetta sumarið en við ætlum að reyna að hafa opið a.m.k. fimmtudaga og föstudaga kl. 10-14 og eitthvað um helgar, það verður auglýst nánar. Eins og er getum við ekki tekið við kortum á staðnum.

Vonandi rætist úr þannig að við getum haft opið miðvikudaga til sunnudaga það sem eftir lifir sumars. 

Upp