Fréttir og tilkynningar

Síðasta skip hjá Byggðasafninu

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 4. september 2013

Caribbian Princess.
Caribbian Princess.
1 af 8

Í morgun kom til Ísafjarðar skemmtiferðaskipið Caribbian Princess, sem er 112.000 tonna skip og hefur það  3600 farþega innanborðs. Um 500 farþegar eru bókaðir í ferðir í Byggðasafnið og kom fyrsta rúta kl 7:30 í morgun, og að auki hefur verið nokkur lausatraffík. Eggert Nielsen og hópur krakka frá Súðavík syngur fyrir hópana og svo fá gestirnir líka að smakka harðfisk, hákarl og brennivín. Fólk kann misjafnlega vel að meta þær trakteringar en er þó óhrætt við að smakka.  Veðrið leikur við farþegana og lofa þeir Ísafjörð og fólkið þar í hástert.

Það haustar að

Björn Baldursson

laugardagurinn 31. ágúst 2013

Turnhúsið. Ljósm:Bj.B.
Turnhúsið. Ljósm:Bj.B.

Heldur var hryssingslegt í Neðstakaupstað í gær, haustlægðirnar farnar að láta á sér kræla, og við erum rækilega minnt á það að við búum á Íslandi. Traffíkin í Byggðasafninu er farin að dala eftir gott sumar (hvað varðar gestafjölda, ekki veður), fjöldi skemmtiferðaskipafarþega hefur aldrei verið meiri, og í næstu viku er von á stóru skipi og eru bókaðir um 500 farþegar af því í skoðunarferð á safnið.

Byggðasafnið er opið alla daga frá kl 9-18 og verður fram til 15 september. Um 11000 manns hafa heimsótt safnið það sem af er sumri.

Norsk harmonika

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 21. ágúst 2013

Ásgeir tekur við harmonikunni af Egil Öknes. Ljósm:Sigurður Harðarson
Ásgeir tekur við harmonikunni af Egil Öknes. Ljósm:Sigurður Harðarson
1 af 2

Um verslunarmannahelgina var haldin harmonikuhátíðin "Nú er lag" á Varmalandi í Borgarfirði. Það var Félag harmonikuunnenda í Reykjavík sem hafði veg og vanda af hátíðinni að þessu sinni og var fjölbreytt dagskrá í boði. Hátíðin stóð yfir frá föstudegi til sunnudags og var mikið um að vera, tónleikar, sýningar og dansleikir. Aðsóknin á hátíðina er alltaf að aukast ár frá ári. Meðal gesta á hátíðinni voru Egil Öknes frá Noregi, og fyrir hönd Brönnöysund Trekkspillklubb færði hann Harmonikusafni Ásgeirs S.Sigurðssonar gamla hnappaharmoniku með norsku gripi. Harmonikan er í góðu ásigkomulagi og vel spilhæf. Ásgeir S. Sigurðsson var á staðnum og veitti harmonikunni viðtöku.

 

 

Upp