Um verslunarmannahelgina var haldin harmonikuhátíðin "Nú er lag" á Varmalandi í Borgarfirði. Það var Félag harmonikuunnenda í Reykjavík sem hafði veg og vanda af hátíðinni að þessu sinni og var fjölbreytt dagskrá í boði. Hátíðin stóð yfir frá föstudegi til sunnudags og var mikið um að vera, tónleikar, sýningar og dansleikir. Aðsóknin á hátíðina er alltaf að aukast ár frá ári. Meðal gesta á hátíðinni voru Egil Öknes frá Noregi, og fyrir hönd Brönnöysund Trekkspillklubb færði hann Harmonikusafni Ásgeirs S.Sigurðssonar gamla hnappaharmoniku með norsku gripi. Harmonikan er í góðu ásigkomulagi og vel spilhæf. Ásgeir S. Sigurðsson var á staðnum og veitti harmonikunni viðtöku.