Björn Baldursson
föstudagurinn 2. ágúst 2013
Í morgun var Hermóður ÍS 482 sjósettur. Hermóður var smíðaður af Fali Jakobssyni í Bolungarvík og sonum hans Jakobi og Sigmundi árið 1928. Með milligöngu Einars Guðfinnssonar keypti Hermann Hermannsson á Svalbarði í Ögurvík bátinn árið 1930. Hermann gerði hann út þaðan til ársins 1945 og eftir það frá Ísafirði til 1956. Það ár seldi hann bátinn Gunnari og Magnúsi Jóhannessonum á Skarði í Skötufirði. Undanfarin ár hefur Hermóður verið í eigu bræðranna frá Svalbarði í Ögurvík , og á síðastliðnu ári afhentu þeir bræður Byggðasafni Vestfjarða bátinn. Í vor var Hermóður saumaður upp af Magnúsi Alfreðssyni trésmið á Ísafirði.
Jón Sigurpálsson
mánudagurinn 15. júlí 2013
Nú líður að Saltfiskveislu Byggðasafns Vestfjarða þann 20. júlí. Veislan verður í Turnhúsinu eins og á síðasta ári. Rýmra er um gestina og allir sitja undir sama þaki og gæða sér á hinum ýmsu saltfiskréttum sem Magnús Hauksson og starfsfólk hans í Tjöruhúsinu matreiða.
Að venju hljóma ljúfir tónar undir borðhaldinu. Að þessu sinni er það Bacalaoband Valda Mósa sem spilar, bæði við borðhaldið og fyrir dansi á eftir. Bandið skipa Valdimar Olgeirsson á bassa, Kristinn Gauti Einarsson á trommur, Tómas Jónsson á píanó og Birgir Olgeirsson með gítar og söng. Veislan hefst klukkan sjö þegar húsið opnar og stendur yfir fram eftir kvöldi. Miðaverði er stillt í hóf og er aðeins kr. 6.500,.
„Við munum leika dægurlög og fleira skemmtilegt frá hinum ýmsu heimshornum. Ég hef bæði unnið á Byggðasafni Vestfjarða sem almennur starfsmaður og einnig sem gestur í salfiskveislum liðinna ára svo nú verð ég í mínu þriðja hlutverki þarna“, segir Valdimar Olgeirsson. Sami hljómsveitarkjarni hefur fylgt veislunni í tíu ár, það er hin fábæra Saltfisksveit Villa Valla sem fær frí að þessu sinni.
Saltfiskveislan hefur verið haldin frá 2002 og því er hún í ellefta skipti í ár. Árið 2002 voru liðin 150 ár frá því Ásgeirsverslun var stofnuð á Ísafirði en höfuðstöðvar hennar voru lengst af í Neðstakaupstað. Verslunin var á sínum tíma umsvifamesti útflytjandi saltfisks frá Íslandi og því við hæfi að heiðra minningu fyrirtækisins á þennan hátt.
Miðapantanir í síma, 4563299 eða 8963291
Jón Sigurpálsson
föstudagurinn 1. febrúar 2013
Safninu áskotnaðist fágæt vatnskanna úr postulíni frá ofanverðri 19. öld. Hún er með gyllingu og skreytt handlitaðri teikningu af Gramversluninni á Þingeyri.
Kannan er frá Carl Tielsch verksmiðjunni í Þýskalandi. Hún er um 25 cm á hæð og mesta þvermál um 17 cm. Á botni könnunnar er merki verksmiðjunnar, nokkuð dauft, en vel má greina örn og upphafsstafina C og T undir erninum. Líklegt er að kannan sé framleidd á tímabilinu 1870-1900. Kannan er algjörlega heil, hvergi sprungin, kvarnað úr henni eða gallar á glerungi. Lok fylgir og á handfangi er myndarlegt ljón. Kannan er skreytt með gylltu munstri og í borða undir handlitaðri húsateiknigunni stendur Dyrefjord öðru megin og Iceland hinu megin. Gyllingin hefur látið á sjá en er samt býsna greinileg.Fremst á könnunni er handlituð mynd af Gramversluninni á Þingeyri, Dýrafirði. Friðrik Wendel var verslunarstjóri á staðnum á árunum 1870-1900. Hann var þýskur og kann að hafa látið gera könnuna. Bróðir hans, Hermann Wendel, var ljósmyndari og var um tíma á Þingeyri. Ekki er ólíklegt að hann hafi tekið mynd af húsunum og ljósmyndin notuð sem fyrirmynd handa teiknaranum.