Safninu áskotnaðist fágæt vatnskanna úr postulíni frá ofanverðri 19. öld. Hún er með gyllingu og skreytt handlitaðri teikningu af Gramversluninni á Þingeyri.
Kannan er frá Carl Tielsch verksmiðjunni í Þýskalandi. Hún er um 25 cm á hæð og mesta þvermál um 17 cm. Á botni könnunnar er merki verksmiðjunnar, nokkuð dauft, en vel má greina örn og upphafsstafina C og T undir erninum. Líklegt er að kannan sé framleidd á tímabilinu 1870-1900. Kannan er algjörlega heil, hvergi sprungin, kvarnað úr henni eða gallar á glerungi. Lok fylgir og á handfangi er myndarlegt ljón. Kannan er skreytt með gylltu munstri og í borða undir handlitaðri húsateiknigunni stendur Dyrefjord öðru megin og Iceland hinu megin. Gyllingin hefur látið á sjá en er samt býsna greinileg.Fremst á könnunni er handlituð mynd af Gramversluninni á Þingeyri, Dýrafirði. Friðrik Wendel var verslunarstjóri á staðnum á árunum 1870-1900. Hann var þýskur og kann að hafa látið gera könnuna. Bróðir hans, Hermann Wendel, var ljósmyndari og var um tíma á Þingeyri. Ekki er ólíklegt að hann hafi tekið mynd af húsunum og ljósmyndin notuð sem fyrirmynd handa teiknaranum.