Björn Baldursson
fimmtudagurinn 19. september 2013
Í gær efndi Byggðasafnið til siglingar um Pollinn á Ísafirði á þeim bátum safnsins sem sjófærir eru. Það voru Þeir Gestur frá Vigur, Jóhanna frá Dynjanda, Hermóður frá Ögurvík, Eljan frá Nesi og Gunnar Sigurðsson frá Ísafirði. Elsti báturinn er frá 1906 og sá yngsti frá 1974. Smalað var saman trillukörlum til að sigla fleyunum og sigldu bátarnir um Pollinn nokkra stund. Jóhannes Jónsson kvikmyndatökumaður var um borð og tók þessar myndir. Smellið á hlekkinn hér fyrir neðan og lítið á ...
http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/19092013/siglt-um-pollinn-a-isafirdi
Björn Baldursson
mánudagurinn 16. september 2013
Í morgun kom skemmtiferðaskipið FRAM til Ísafjarðar. Það er síðasta skip sumarsins og tók Ísafjörður á móti farþegunum með hryssingskulda og vindstrekkingi. Um 170 manns komu til okkar í dag á þessum síðasta formlega opnunardegi sumarsins. Alls hafa þá komið á safnið í sumar um 12000 manns og viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna.
Björn Baldursson
miðvikudagurinn 11. september 2013
Það var fallegur regnboginn sem blasti við undirrituðum í morgun, rigningarúði, sólskin á köflum og suðvestan sperringur. Hann myndaði fallega hvelfingu yfir Neðstakaupstað og samkvæmt þjóðsögunni á að vera falin gullkista við enda hans. Svo var sannarlega í þessu tilviki þar sem hann sveigðist fallega niður í Ísafjarðardjúpið.
Samkvæmt norrænni goðafræði þá er rauði liturinn í regnboganum eldur sem brennur á Ásbrú, brúnni sem goðin byggðu milli Miðgarðs og Ásgarðs og varnar eldurinn því að hrímþursar og bergþursar gangi upp brúna.