Það var fallegur regnboginn sem blasti við undirrituðum í morgun, rigningarúði, sólskin á köflum og suðvestan sperringur. Hann myndaði fallega hvelfingu yfir Neðstakaupstað og samkvæmt þjóðsögunni á að vera falin gullkista við enda hans. Svo var sannarlega í þessu tilviki þar sem hann sveigðist fallega niður í Ísafjarðardjúpið.
Samkvæmt norrænni goðafræði þá er rauði liturinn í regnboganum eldur sem brennur á Ásbrú, brúnni sem goðin byggðu milli Miðgarðs og Ásgarðs og varnar eldurinn því að hrímþursar og bergþursar gangi upp brúna.