Fréttir og tilkynningar

Saltfiskveislan19. júlí kl. 19

Jón Sigurpálsson

föstudagurinn 27. júní 2014

Saltfiskveisla Byggðasafns Vestfjarða verður haldin 19. júlí að þessu sinni. Það var árið 2002 sem safnið efndi til fyrstu veislunnar og var það þá gert í tilefni af 150 ára afmæli Ásgeirsverslunar, en sú merka verslun hafði höfuðstöðvar sínar í Neðstakaupstað lengst af á meðan hún starfaði.

Saltfiskveislurnar hafa sem sagt verið verið fastur punktur í starsemi safnsins ár hvert í 12 ár og hefur notið mikilla vinsælda. Þar er fléttað saman dýrðlegum saltfiskréttum og hugljúfri tónlist. Um margra ára skeið var það hljómsveit undir stjórn Tómasar R. Einarssonar sem laðaði fram viðeigandi hryn með söngkonunni Jóhönnu V. Þórhallsdóttur og Villa Valla á nikku í framlínunni og var kölluð Saltfisksveit Villa Valla. Á síðasta ári var svo ákveðið að breyta til og fá fyrrum starfsmann safnsins, Valdimar Olgeirsson bassaleikara, til að setja saman hrynsveit í samkvæmið. Það gekk eftir með ljómandi góðum árangri og því ákveðið að halda sér við það fyrirkomulag. Auðvitað þarf hljómsveitin að bera viðeigandi nafn og var ákveðið að gefa henni nafnið Bacalaoband Valda Mósa í anda þýskra listamanna, sem léku lögin við vinnuna árum saman í ríkisútvarpinu, en það muna líklega ekki aðrir en þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur. Í hljómsveitinni eru Valdimar Olgeirsson, sem leikur á kontrabassa, Halldór Smárason á píanó og harmónikku, Kristinn Gauti Einarsson á slagverk og um sönginn sér Lilja Björk Runólfsdóttir.

Saltfiskréttirnir voru fyrstu árin úr eldhúsum ýmissa bæjarbúa, var því tímabili lokað með útgáfu bókarinnar Veislurnar í Neðsta – saltfiskuppskriftir matgæðinga eldhússins heima, sem ætti að vera staðalbúnaður í öllum eldhúsum að auki fylgdi CD diskurinn Veislurnar í Neðsta með Saltfisksveit Villa Valla. Um árabil hefur verðlaunaeldhús Tjöruhússins séð um eldamennskuna auk þess hafa safnverðir séð um hefðbundna soðningu til að halda uðði heiðri hennar. Fyrir eldhúsi Tjöruhússins fara hjónin Magnús Hauksson og Ragnheiður Halldórsdóttir en frá þeim hefur engin farið með gaulandi garnir svo vitað sé. Sem sagt missið ekki af saltfiskveislunni í Turnhúsinu 19. júlí kl. 19.

Pantanir: 456 - 3299 & 896 - 3291

Háskólaskipið Explorer

Björn Baldursson

mánudagurinn 9. júní 2014

Í dag er það háskólaskipið Explorer sem heimsækir okkur Ísfirðinga. Þetta skip hefur mikla sérstöðu meðal skemmtiferðaskipa vegna þess að það er í raun fljótandi háskóli. Á vorin fer skipið umhverfis heiminn með stúdenta og og á haustin siglir skipið umhverfis Atlantshafið. Skipið siglir undir áætlun sem nefnist Semester at Sea  http://www.semesteratsea.org/. Skipið hefur ganghraða uppá 27 sjómílur.

Í upphafi sumars

Jón Sigurpálsson

föstudagurinn 23. maí 2014

Vouyager, annað skip sumarsins, er við bryggju sundamegin hér á Ísafirði. Það eru um 580 farþegar um borð sem flesti koma frá stóra Bretlandi og Bandaríkjunum. Það eru 48 skip væntanleg í sumar með 50 þúsund farþega. Samkvæmt dagsskrá hafnaryfirvalda verðu júlímánuður viðburðaríkur með skip nánast upp á hvern dag.

 

Upp