Fréttir og tilkynningar

Hvalreki

Björn Baldursson

mánudagurinn 1. febrúar 2016

Mynd úr rekabálki Jónsbókar.
Mynd úr rekabálki Jónsbókar.
1 af 4

Hér fyrr á tíð þótti hvalreki sérstakt happ og í ísaárum bjargaði hann oft heilu sveitunum frá bjargarskorti og hungursneyð, sem tvímælalaust hefði oft orðið. Má eiginlega segja að hvalrekarnir hafi verið lífsbjörg þjóðarinnar fyrr á öldum þegar sultur og seyra sóttu að.  

Oft spunnust miklar deilur um hvalrekann, og jafnvel gekk það svo langt stundum að stórfelld mannvíg urðu vegna hans fyrr á öldum, þegar menn greindi á um eignarhald rekans.

Mesti hvalreki sem vitað er um á Íslandi var á Syðri Ánastöðum í Húnavatnssýslu vorið 1882. Þá fylltust allar víkur og vogar  af hafís, og urðu þá innlyksa á stað sem Sandvík heitir, 32 hvalir sem allir voru síðan drepnir og skornir af bændum þar í sveitinni.

Ef hval rak þar á fjöru sem almenningur var, mátti hver hirða af honum sem hann vildi, en ef hvalinn rak að  landi þar sem bóndi hafði eignarhald á var honum skipt eftir ýmsum reglum. Þeim sem fyrstur kom að rekanum  bar skylda til þess að festa hvalinn tryggilega þannig að hann tæki ekki út aftur og láta aðra síðan vita um fundinn svo fljótt sem verða mátti, ella verða beittur þungum sektum.

Ef skutlaðan hval rak á land með merktum skutli í,  fékk sá er fann hvalinn hluta af skotmannshlutnum. Sem dæmi var skotmannshlutur Arnfirðinga  hnefaalin útfrá blástursholu og inn í bein, jafnstórt stykki útfrá gotu og svo sporðblaðkan sjálf.

Hvalspikið var brætt og notað sem ljósmeti, einnig var það stundum saltað . Oft var hvallýsi blandað í smjör til að drýgja smjörið.  Sporðurinn og bægslin voru soðin og brytjuð niður og sett í súr. Hvalkjötið var borðað nýtt og einnig saltað, reykt eða súrsað. Hvaltennur og hvalskíði voru mjög eftirsótt smíðaefni, sérstaklega tennur úr búrhvölum  og náhvölum, og úr þeim mátti smíða ýmsa fagra muni. Hvalbein voru einnig  oft notuð sem burðarviðir í byggingum, enda beinin sum hver gríðarstór. Hvalleður var mikið notað til skógerðar og þóttu hvalskórnir mjög endingargóðir, væru þeir vel hirtir. Sjóskór sjómanna  voru stundum hafðir úr hvalleðri.

Hvalbeinsduft í vatni eða víni var talið flýta fyrir fæðingu hjá konum í barnsburði, og mulin hvalkvörn var talin góð lækning við þvagteppu. Við doða í kúm þótti gott ráð að láta hvalkvörn liggja í vatni um tíma og láta svo doðakúna drekka seyðið af kvörninni.

Kirkjan átti mikil ítök víða um land, og átti t.d. Vatnsfjarðarkirkja 15 hvalrekaítök á Hornströndum.  Eru þess mörg dæmi að umtalsverðar tekjur hafi komið í hlut kirkjunnar við hvalreka, og staðið undir viðgerðum og viðhaldi á þeim.​

 

Frostaveturinn 1918

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 20. janúar 2016

Í Dokkunni 1918
Í Dokkunni 1918
1 af 2

Eins og öllum er kunnugt þá var veturinn 1917-1918 mörgum þungur í skauti sökum gríðarlegs kulda og hafíss sem lagðist að í byrjun árs 1918. Bátar voru frosnir inni mánuðum saman og þessar myndir sem teknar eru af ljósmyndaranum M.Simson, sýna vel hversu bjargarlaus mannskepnan er þegar náttúruöflin taka völdin. Önnur myndin er tekin í Dokkunni en hin er tekin af Pollinum þar sem vélbátafloti Ísfirðinga er frosinn inni og kemst hvorki lönd né strönd. Samkvæmt Eggert B. Lárussyni skipasmíðameistara eru bátarnir þessir talið frá vinstri:(Nafn,skráningarnúmer,stærð,smíðastaður,smíðaár og nafn skipstjóra ef þekkt er).
Freyja, ÍS 364, 34 brl, Svíþjóð 1913, Guðmundur í Tungu.
Frigg, ÍS 399, 27 brl, Danmörk 1916, Benedikt Jónsson.
Gylfi, ÍS 357, 26 brl, Frederikshavn 1913, Halldór Sigurðsson.
Sjöfn, ÍS 414, 31 brl, Frederikshavn 1917, Jón Barðason.
Kári, Ís 387, 28 brl, Noregur 1915, Magnús Vagnsson.
Kári, ÍS 417, 34 brl, Frederikssund 1917, (skipstjóri ókunnur)
Kveldúlfur, ÍS 397, 24 brl, Fredferikssund 1916, Guðmundur Magnússon.
Sóley, ÍS 389, 20 brl, Hardanger 1913, Guðmundur Júní.
Sverrir, ÍS 385, 26 brl, Noregur 1915, Stefán Bjarnason.
Bifröst, ÍS 386, 28 brl, Noregur 1915, (skipstjóri ókunnur)
Snarfari, ÍS 384, 27 brl, Noregur 1915, Guðjón í Bakkaseli.
Sæfari, ÍS 360, 27 brl, Frederikshavn 1913, (skipstjóri ókunnur).
Eggert Ólafsson, ÍS 408, 30 brl, England 1915, (skipstjóri ókunnur).
Ísleifur, ÍS 390, 30 brl, Reykjavík 1916, Guðmundur Þorlákur.
Harpa, RE 177, 29 brl, Noregur, Halldór Benediktsson.

Hrefnu Láki

Björn Baldursson

fimmtudagurinn 14. janúar 2016

Mynd: Timarit.is
Mynd: Timarit.is
1 af 3

Flestir Vestfirðingar sem komnir eru af léttasta skeiði kannast við að hafa heyrt talað um Hrefnu Láka, eða Þorlák Guðmundsson, f.7.desember 1877, d.17 nóvember 1950, sem bjó að Saurum í Álftafirði við Djúp. Þorlákur var brautryðjandi í hrefnuveiðum við Ísland og setti hann niður hrefnubyssu í bát sinn, Möggu, sem var 4 brl. trilla, sumarið 1913, en fyrstu hrefnuna skaut hann árið 1914. Stundaði hann svo hrefnuveiðar á Möggu í Ísafjarðardjúpi um áratuga skeið. Þorlákur var mikill veiðimaður og ekki var hann einungis góð hrefnuskytta heldur líka grenjaskytta mikil. Læt hér fylgja með tengil á grein á timarit.is um þennan mikla veiðimann. Athugið að fyrri greinin er í blaðinu í 1.tbl, 10 janúar 1943, bls.1 og svo er framhald í 2.tbl., 17 janúar 1943 á bls. 13. Afar fróðleg og skemmtileg grein.

 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3274930

Upp