Jón Sigurpálsson
mánudagurinn 8. október 2018
Byggðasafn Vestfjarða býður til málþings í Edinborgarhúsinu
2. nóvember 2018
kl. 9:00 - 16:00
Slóð: https://jakinn.tv/2018/11/er-althydumenning-thjodararfur/
Titill málþingsins vísar til spurninga um, hvort þjóðvitundin sé hönnuð með það að markmiði að passa við hugmyndir erlendra ferðamanna um íslenska alþýðumenningu.
Byggðasafn Vestfjarða upplifir skeytingaleysi gagnvart atvinnutækjum sjávarútvegsins, sem er þó það afl sem lagði gruninn að því velferðarsamfélagi sem Ísland er í dag.
Svo virðist sem yfirvöld hafi bógstaflega tekið meðvitaða ákvörðun um að viðhalda ekki atvinnutækjum sjómanna með breytingu safnalaga og tilfærslu færslna í styrkjakerfinu. Endurgerð báta heyrir nú undir Fornleyfasjóð Minjastofnunar. Þannig eru fyrrum atvinnutæki hversdagsins, s.s. bátar af öllum gerðum nú í samkeppni við fornleifauppgreftri í allri sinni dýrð. Undir þessum kringumstæðum verður hin hversdagslega alþýðumenning alltaf hornreka. Með óbreyttri minjastefnu er söfnum gert ókleift að sinna hlutverki sínu innan ramma laganna.
Önnur minjasöfn hafa einnig fundið fyrir breytingum sem tilkoma vaxandi ferðaþjónusta hefur í för með sér, þar sem sýningar á vegum einkaaðila eru styrktar á sama tíma og sýningar minjasafna eru lagðar niður. Hér á ég að sjálfsögðu við sýningarými Byggðasafns Skagafjarðar, sem látið var víkja fyrir sýningu á vegum einkaaðila. Fréttabladid.is greinir frá þessu þann 10. mars 2018, svona „Ónefndir fjárfestar hyggjast setja á fót á Sauðárkróki sýndarveruleikasafn byggt á Sturlungu og Örlygsstaðabardaga. Mjög spennandi segir formaður byggðaráðs en fulltrúi minnihlutans gagnrýnir leyndarhjúp yfir kostnaði sveitarfélagsins.“ Eða með öðrum orðum, sýningu Byggðasafnsins er lokað, fjármunirnir settir til að styrkja einkaframtak sem byggir á óskhyggju ferðafrömuða um íslendinga og „sannan“ þjóðararf íslenskrar þjóðar.
Er menning almúgafólks púkaleg? Verða yfirvöld bæjar/sveitastjórna sem og ríkisstjórna að fá einkaaðila til að sýna gestum betri mynd af okkur sjálfum?
Málþing Byggðasafns Vestfjarða spyr því, er alþýðumenning þjóðararfur? Hver er leiðin fram á við?
09:00 - 10:00 Erik Småland Varðveisla á bátum í Noregi.
10:00 - 10:30 Ágúst Ó. Georgsson Varðveisla á eldri bátum á Íslandi.
10:30 - 10:45 Kaffi
10:45 - 11:15 Jón Sigurpálsson og Björn Erlingsson Björgunarskútan María Júlía, táknmynd skeytingaleysis.
11:15 - 11:45 Jón Jónsson Hvað er alþýðumenning? Er hún þjóðararfur?
12:00 - 13:00 Hádegishlé
13:00 - 13:30 Einar Kárason „Án skipa væru engir Íslendingar“.
13:30 - 14:00 Guðrún Jónsdóttir Samspil ferðamennsku og framsetningar á íslenskum menningararfi / alþýðumenningu.
14:00 - 14:30 Áki Karlsson Samtaka í þágu menningararfsins.
14:30 - 14:45 Kaffi
14:45 - 15:15 Sigurjón Baldur Hafsteinsson Hver er leiðin fram á við?
15:15 - 16:00 Samantekt, umræður og helstu niðurstöður.
17:30 - 19:00 Munir og mynd. Opnun sýningar í Turnhúsinu. Hönnuður: Jón Sigurpálsson.
19:00 - 00:00 Kvöldverður í Tjöruhúsinu.
Erik Småland er aðalsérfræðingur Þjóðminjasafns Noregs í haf- og strand- og iðnaðarminjum.
Ágúst Ó. Georgsson er sérfræðingur þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands.
Jón Sigurpálsson er myndlistarmaður og fyrrverandi forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða.
Björn Erlingsson er hafeðlisfræðingur og áhugamaður um haf- og strandminjar.
Jón Jónsson er þjóðfræðingur og verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum
Einar Kárason er rithöfundur.
Guðrún Jónsdóttir er forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar
Áki Guðni Karlsson er þjóðfræðingur og höfundur MA-ritgerðar um menningartengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum.
Sigurjón Baldur Hafsteinsson er prófessor í félags- og mannvísindadeild við Háskóla Íslands.
Fundarstjóri Helga Þórsdóttir er menningarfræðingur og starfandi forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða.
Jón Sigurpálsson
miðvikudagurinn 16. maí 2018
Á myndinni sjáum við Gunnar Sigurðsson ÍS 13 sigla út úr Skutulsfirði á leið sinni til Flateyjar á Breiðafirði. Gunnar hefur fengið hlutverk í sjónvarpsþáttaröð um Flateyjargátuna sem byggð er á samnefndri sögu Viktors Arnar Ingólfssonar frá árinu 2002. Í kynningu útgefanda segir um söguna: „Þegar lík finnst í útskeri á Breiðafirði 1. júní 1960 er óreyndur fulltrúi sýslumannsins á Patreksfirði sendur á vettvang til að kanna málið. Rannsóknin vindur upp á sig og teygir anga sína til Reykjavíkur og annarra landa. Miðpunktur sögunnar er þó í Flatey og bókin sem við eyna er kennd, Flateyjarbók, gegnir lykilhlutverki við lausn gátunnar. Þetta er margslungin og spennandi sakamálasaga...“ Gunnar fer með hlutverk póstbátsins í þáttunum.
Nánar um verkefnið má lesa: http://www.kvikmyndamidstod.is/i-framleidslu/leikid-sjonvarpsefni/flateyjargatan
Jón Sigurpálsson
miðvikudagurinn 25. apríl 2018
Efnt var til úthlutunarboðs safnaráðs fyrir árið 2018.
Tilefnið var aðalúthlutun safnasjóðs fyrir árið sem var tilkynnt í mars síðastliðinn. Safnaráð bauð til fagnaðar með safnmönnum og velunnurum 23. apríl í Listasafni Íslands. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp og styrkþegar fimm hæstu verkefnastyrkjanna kynntu verkefni sín. Meðal þessara safna var Byggðasafn Vestfjarða sem kynnti framhald á verkefninu - Ég var aldrei barn - sem hlaut tveggja milljón króna styrk. Önnur verkefni sem safnið hlaut styrk til að framkvæma voru 500 þúsund krónur fyrir - Frá hugmynd í hlut - fyrir smiðjuna á Þingeyri, 750 þúsund krónur fyrir - Félagstíðindi við Djúp -sem er útgáfa sem fylgir grunnsýningu safnsins og 1500 þúsund krónur fyrir sýninguna - Munir og mynd - en þar verða dregnir fram nokkrir munir til ýtarlegri kynningar. Auk þessa hlaut safnið 750 þúsund króna rekstrarstyrk. Samtals styrkir safnasjóður safnið um fimm og hálfa milljón á þessu ári og fyrir það erum við þakklát.