Fréttir og tilkynningar

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí og ný Facebook síða

föstudagurinn 15. maí 2020

Söfn eru jöfn 2020
Söfn eru jöfn 2020

Ný Facebook síða safnsins hefur litið dagsins ljós. Aðgangurinn að fyrri síðunni glataðist sem er amalegt í ljósi þeirra mynda og upplýsinga sem þar eru inni en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir á endurheimt reyndist það eina í stöðunni að stofna nýja síðu. Facebook síða Byggðasafns Vestfjarða

Alþjóðlegi safnadagurinn er þann 18. maí n.k. Að þessu sinni eru söfn hvött til þess að vera virk á samfélagsmiðlum, í hinum stafræna heimi og vekja þannig athygli á starfi safna samfélaginu til góðs. Markmiðið með alþjóðlega safnadeginum er að kynna og efla safnastarf í heiminum. Þemað í ár er “Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra 2020”

Byggðasafnið mun vera sýnilegt á nýrri Facebook síðu og miðla safnkosti sínum í tilefni dagsins. #safnadagurinn, #MuseumDay,  #IMD2020,  #Museums4Equality á Instagram, Twitter og Facebook.

Á heimasíðu FÍSOS stendur: 

Söfn um heim allan munu fagna Alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí 2020 og dagana í kring með því að nota stafrænar lausnir vegna Covid19. Þátttaka í Alþjóðlega safnadeginum fer vaxandi meðal safna um heim allan. Árið 2019 tóku yfir 37.000 söfn þátt í atburðinum í 158 löndum.

Ýtum undir fjölbreytni og þátttöku allra í menningarstofnunum samfélagsins

Höfuðatriði samfélagslegs gildis safna er möguleikinn á því að bjóða fólki af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn að upplifa einstaka hluti. Söfn eru í senn virtar stofnanir og breytingaafl og nú er rétti tíminn til  að þau sýni fram á mikilvægi sitt með því að taka þátt í pólitískum, samfélagslegum og menningarlegum veruleika nútíma samfélags með uppbyggilegum hætti.

Þær áskoranir sem þátttaka fjölbreytts hóps hefur í för með sér og þeir erfiðleikar sem fylgja því að fjalla um flókin samfélagsleg málefni í umhverfi þar sem klofningur eykst stöðugt eru ekki bundin við söfn og menningarstofnanir eingöngu en skipta þessar stofnanir þó miklu máli þar sem þær eru í hávegum hafðar í samfélaginu.

Sívaxandi væntingar um samfélagslegar breytingar hafa drifið áfram umræðuna um möguleika safna á að vera jákvætt samfélagsafl með því að halda sýningar, ráðstefnur, gjörninga og standa fyrir fræðsludagskrám og framtaksverkefnum. Hins vegar er mikið óunnið í þá átt að sigrast á meðvituðum og ómeðvituðum breytum sem geta skapað ójöfnuð innan safna, og á milli safna og gesta þeirra.

Slíkur ójöfnuður getur tekið til margra atriða; til dæmis þjóðernis, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, félagslegs bakgrunns, menntunarstigs, líkamlegrar getu, stjórnmálaskoðana og trúarbragða.

Undir yfirskriftinni „Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra“, leitast Alþjóðlegi safnadagurinn 2020 við að verða sameinandi afl sem í senn fagnar þeim ólíku sjónarmiðum sem finna má í samfélögum og starfsliði safna, og leitast við að koma auga á og sigrast á hvers konar slagsíðu í því sem sýnt er og þeim sögum sem þar eru sagðar.

Safnskipið Óðinn

þriðjudagurinn 12. maí 2020

Varðskipið Óðinn á pollinum við Ísafjörð
Varðskipið Óðinn á pollinum við Ísafjörð

Vélar safnskipsins Óðins voru ræstar í fyrsta sinn í 14 ár í gær þann 11.maí og var það stór dagur meðlima Hollvinasamtaka Óðins þegar skipið leysti landfestar og sigldi út Reykjavíkurhöfn. Undanfarin ár hefur skipið verið hluti af Sjóminjasafni Reykjavíkur. Nánar má sjá frá þessum viðburð á Facebook síðu Landhelgisgæslu Íslands. 

Áhrif Covid-19 á starfsemi safna

mánudagurinn 11. maí 2020

Áhrif Covid-19 gætir víðsvegar í íslensku samfélagi. Söfnin eru þar ekki undanskilinn. Nú þegar er ljóst að fjöldi skemmtiferðaskipa hefur afboðað komu sína í ár en það lá fyrir að metfjöldi skipa og þar með gesta kæmu til Ísafjarðar og nágrannabæja til að njóta afþreyingar og litast um. Hluti erlenda ferðamanna er stór partur þeirra sem sækja safnið og aðaltekjulind þess. Bæði maí og júní mánuðir og ekki lítur það vel út með júlí,verða hvorki svipur né sjón frá því sem hefur verið þegar svæðið fyllist af ferðamönnum af skipunum og varla þverfóta fyrir mannmergðinni í bænum. Neðsti verður þrátt fyrir heimsfaraldur á sínum stað. Von er á sumarstarfsfólki til starfa og mun safnið taka úr lás þann 18. maí n.k. og að öllu óbreyttu mun opnunartíminn verða 9-17 í sumar og er áætlað að opið sé fram til ágúst loka. 

Það er óskandi að tíðarfarið verði þokkalegt í sumar, svæðið verði áfangastaður fyrir ferðaglaða Íslendinga sem leggja leið sína vestur á firði þegar slaknar á takmörkunum vegna Covid-19 og að safnið standist þennan öldugang sem gengur yfir. 

Upp