Fréttir og tilkynningar

Smiðjan á Þingeyri opnar í dag

þriðjudagurinn 2. júní 2020

Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri

 

Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar er elsta starfandi vélsmiðja landsins. Smiðjan sem er nánast í sinni upprunalegu mynd og ber nafn Guðmundar J. Sigurðssonar sem stofnaði smiðjuna til helminga með Br. Proppé.

Gramsverslun hætti starfsemi árið 1898 við fráfall Níels C. Gram. Við versluninni tók annað félag, Grams Handel, sem var dótturfélag í eigu P.Thorsteinsson á Bíldudal. Árið 1908 komst verslunin í eigu Milljónafélagsins sem varð svo gjaldþrota 1914 og loks árið 1913 í eigu Br. Proppé.

Grams Handel rak smiðju undir stjórn Bjarna Guðbrandar sem var lærifaðir Guðmundar J. Sigurðssonar sem smiðjan er kennd við í dag. Bjarni Guðbrandur stuðlaði  að utanför Guðmundar til Danmerkur og Noregs til frekara náms og er meðmælabréf dagssett 25.jan. 1906 því til staðfestingar. Eftir heimkomu Guðmundar árið 1908 vinnur hann hjá Grams Handel, á árunum fram til 1913. Grams Handel hefur líklega hafið fyrsta áfanga við smíði núverandi smiðjuhúss árið 1912 því full vinna hefst í nýrri smiðju í janúar 1913. Styrkur Grams Handel til náms Guðmundar var með því fororði að hann ynni hjá þeim í einhvern tíma eftir að hann lyki námi. Vélsmiðjan varð fljótt þekkt fyrir vandaða og góða þjónustu. Á stríðsárunum þegar erfitt var að útvega varahluti voru steyptir þar varahlutir af öllum stærðum og gerðum, í erlend sem innlend skip. Einnig var smiðjan skóli í málmiðnum og þar var eftirsóknarvert að læra sökum þess hve fjölbreyttur smiðjureksturinn var. Þar lærðu menn  logsuðu, rafsuðu, rennismíði, járnsmíði í eldsmiðju, málmsteypu og flest annað sem gert er í smiðju. Guðmundur J. Sigurðsson eignast smiðjuna að fullu árið 1927.

Smiðjan var í rekstri til ársins 1995 og er raunar enn unnið eftir atvikum við allskyns vélsmíðavinnu og málmsteypu.

Byggðasafn Vestfjarða fékk smiðjuna afhenta til varðveislu í byrjun árs 2014.

Smiðjan er opin virka daga kl. 13-17 frá 1.júní - 31. ágúst 202

Byggðasafn Vestfjarða og SARPUR

mánudagurinn 25. maí 2020

Byggðasafn Vestfjarða er eitt af aðildasöfnum SARPS sem er menningarsögulegt gagnasafn á netinu. Í Sarpi eru eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni. Byggðasafnið hefur lagt áherslu á að safna gripum sem tengjast atvinnu og byggðasögu norðanverðra Vestfjarða, gjarnan gripum sem tengjast sjávarútvegi og þá einnig gripum frá ýmsum tímabilum, allt til okkar tíma. Á safninu hefur verið unnið í áföngum eftir efni og aðstæðum að skrá aðföng inn á Sarp og má finna þá hluti hér Byggðasafn Vestfjarða/Sarpur en von er að öll aðföng og munir safnsins verði færðir inn á Sarp á næstu árum. 

Safnið hefur opnað eftir vetrarlokun.

mánudagurinn 18. maí 2020

1 af 4

Safnið opnar í dag 18. maí og verður opið til ágústloka. Opnunartíminn er frá 9-17. Sólin hjálpar til að vanda og vekur umhverfi og menn til lífsins eftir vetrardvalann. Hvergi betra að vera í sólinni en í Neðsta. 

Alþjóðlegi safnadagurinn er í dag. Meðfylgjandi er umfjöllun í Fréttablaðinu um íslensku safnaverðlaunin 2020 en þau eru veitt íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Þar er rætt við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð, Elsu Guðný Björgvinsdóttur, safnastjóra á Minjasafni Austurlands, Hilmar J. Malmquist forstöðumann Náttúrugripasafns Íslands, Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur safnstjóra Listasafns Reykjavíkur og Guðbrand Benediktsson safnsstjóri Borgarsögusafns og þar með Sjóminjasafns Reykjavíkur en þar er tilnefnd grunnsýning safnsins Fiskur og fólk- sjósókn í 150 ár.

Hér viljum við nota tækifærið í tilefni dagsins og minna á báta safnins, Bátarnir í Neðsta mikilvægi þeirra og varðveislugildi.  #safnadagurinn#MuseumDay#IMD2020#Museums4Equality

 

Upp