Nešstikaupstašur

Þegar fyrstu einokunarkaupmennirnir komu á Skutulsfjarðareyri reistu þeir sér hús, líklega eitt timburhús og búðir úr torfi og grjóti. Elsta húsið sem enn stendur er þó nokkru yngra. Það er Krambúðin, sem byggð var 1757. Varla hefur þótt ástæða til að byggja vandlega yfir kaupmennina. Þeir höfðu sjaldnast vetursetu á Íslandi heldur komu að vori og fóru aftur utan til Danmerkur að hausti. Stundum mun þó hafa komið fyrir að kaupmaður sæti yfir veturinn en stjórnvöld voru lítt hrifin af því enda óttuðust þau að nærvera verslunarmanna á vetrum gæti glapið alþýðu til drykkjuskapar og eyðslu. Það var ekki heldur alltaf hollt fyrir kaupmennina sjálfa að sitja hér yfir vetrartímann. Að minnsta kosti einn sem það gerði, Adrian Jensen Munch, var myrtur í átökum við fjóra heimamenn. Hann mun hafa verið ófús til að selja þeim tóbak. Árið 1764 tók Almenna verslunarfélagið við Íslandsversluninni og ákvað fljótlega að hafa vetursetumenn á öllum Vestfjarðahöfnum og á Eyrarbakka. Þar hefur ugglaust ráðið mestu að félagið hóf að kenna Íslendingum að verka saltfisk, sem var orðinn eftirsótt söluvara víða um Evrópu. Vestfjarðakjálkinn þótti heppilegur til saltfiskverkunar enda skammt á fengsæl mið og veðurlag hentugt fyrir slíka vinnslu. Vitanlega varð að byggja yfir verslunarstjórann, faktorinn, ætti hann að sitja hér árið um kring. Árið 1765 var því ráðist í að byggja íbúðarhús sem enn er búið í og kallað er Faktorshúsið. Um aldamótin 1900 mun á annan tug húsa hafa staðið í Neðstakaupstað. Auk Krambúðarinnar og Faktorshússins standa tvö þeirra enn, Tjöruhúsið, byggt 1781, og Turnhúsið, byggt 1784. Bæði voru þau byggð sem pakkhús. 
Þegar verslunareinokun var aflétt árið 1787 tók félag danskra kaupmanna frá Altona við versluninni. Þeir entust aðeins í sex ár eða til 1793. Þeim kaupmönnum sem á eftir komu vegnaði betur og það er einkenni Neðstakaupstaðar að þar sátu kaupmenn yfirleitt lengi. Þegar verslun Altonamanna hætti tóku við félagarnir Jens Lassen Busch og Henrik Christian Paus. Verslun þeirra var rekin í 30 ár eða til 1824 þegar Matthías Wilhelm Sass stórkaupmaður keypti hana. Sass og afkomendur hans versluðu svo í Neðstakaupstað í 59 ár eða til 1883. Sú verslun vann það sér til frægðar að byggja fyrstu hafskipabryggju á Íslandi árið 1868. Árið 1883 var verslun Sass seld Ásgeiri G. Ásgeirssyni og á næstu árum varð Neðstikaupstaður vettvangur umfangsmesta verslunarfyrirtækis í einkaeigu á Íslandi. Ásgeirsverslun var rekin allt til ársins 1918 þegar Hinar sameinuðu verslanir tóku við. Nú brá hins vegar svo við að líftími hinnar nýju verslunar varð stuttur. Árið 1926 urðu Hinar sameinuðu íslensku verslanir gjaldþrota og þar með lauk verslun í Neðstakaupstað.

« 2018 »
« Janśar »
S M Ž M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      
Vefumsjón