Helga Ţórsdóttir Helga Ţórsdóttir | miđvikudagurinn 11. október 2017

Nýtt kynningarrit 15 bátar og einn slippur.

Byggðasafn Vestfjarða á 15 skráða báta. Af þeim eru 12 súðbyrðingar og allir forngripir nema
tveir. Nú er svo komið að sjö bátar af 15 eru varðveittir á sjó. Aðrir eru í ferli yfirhalningar og eru
þar mislangt komnir. Að auki fóstrar Byggðasafn Vestfjarða tvo merka súðbyrðinga í eigu
Þjóðminjasafns Íslands. Það eru Þór frá Keldu við Mjóafjörð í Djúpi, um hann er fátt vitað og
Ögra úr Ögurvíkinni, sexæringur, smíðaður um 1880-1890 af Kristjáni Kristjánssyni bónda og
skipasmið í Þúfum í Reykjafjarðarhreppi.
Það má segja að við stofnun safnsins árið 1942 og fyrsta skráða grip þess hafi tónninn verið
gefinn. Það er sexæringurinn Ölver, vestfirskur bátur með öllum fargögnum. Ölver hefur verið
þungamiðjan í áhrifaríkri sýningu verbúðarlífsins í Ósvör í Bolungarvík og var í aðalhlutverki í
heimildarmyndinni um Verstöðina Ísland sem Erlendur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður stýrði.
Ölver var smíðaður í Bolungarvík árið 1941 af Jóhanni Bjarnasyni, bátasmið og fyrrum
árabátaformanni þar í bæ. Báturinn er smíðaður að ósk Bárðar G. Tómassonar,
skipaverkfræðings.

 

Menningasjóður Vestfjarða veitti safninu 200.000 kr. styrk til verkefninsins og þökkum við þeim kærlega fyrir. 

 

http://nedsti.is/utgefid_efni/utgefid_efni/skra/36/

 

 

Helga Ţórsdóttir Helga Ţórsdóttir | fimmtudagurinn 2. febrúar 2017

Um Karítas Skarphéđinsdóttur

 

Um Karítas Skarphéðinsdóttur

 

Að mestu er stuðst við grein Karítasar Skarphéðinsdóttur Neff sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 2010. En einnig fengum við nokkrar staðreyndir og viðbætur frá Gunnari Frímannssyni.

 

Karítas Skarphéðinsdóttir fæddist í Æðey við Ísafjarðadjúp þann 20 janúar árið 1890. Hún var dóttir hjónanna Petrínu Ásgeirsdóttur frá Látrum í Mjóafirði og Skarphéðins Elíasarsonar frá Garðstöðum í Ögursveit. Petrína móðirin lést úr lungabólgu nokkrum mánuðum eftir fæðingu hennar. Faðir Karítasar er skráður manntalinu 1890 sem tómthúsmaður á Laugabóli sem lifði af fiskveiðum. Seinna var hann bóndi í Efstadal með örfáar ær. En miklu lengur fékkst hann við sjómennsku, var vinnumaður og verkamaður eftir að hann flutti í þéttbýlið.

 

Sammæðra systur Karitasar voru, Anna og Friðgerður f. 15. 4. 1888, Anna fór í fóstur upp í Laugaland í Skjaldfannardal. Foreldrarnir fengu ekki að hafa bæði börnin hjá sér og lífvænlegri eineggja tvíburinn var settur í fóstur, Friðgerður varð eftir hjá foreldrum sínum í Æðey. Friðgerði var komið í fóstur hjá afa sínum á Látrum í Mjóafirði eftir að Petrína móðir hennar féll frá. Þar var hún 1891 – 1896 en þá var henni komið í fóstur hjá hálfsystur föður hennar, Sigríði Markúsdóttur, í Botni í Mjóafirði. Þar ólst hún upp.

 

Karítas var þó eftir í Æðey þar sem gömul kona annaðist hana fyrstu 2 árin,  þá kvæntist faðir hennar á ný, Pálínu Árnadóttur 4 árum seinna. Saman eignuðust þau fimm börn, Fyrsta barn þeirra, fæddist í nóvember 1892, þá voru þau í húsmennsku í Hagakoti sem er/var yst/nyrst í Laugardal. Þau fluttust í Laugaból í Laugardal 1893 og voru þar til 1898 en fluttust svo Efstadal í þeim sama Laugardal. Þar voru þau 6 ár í miklu basli, m.a. vegna veikinda Pálínu  sem var líklega sinnisveik. Þegar fleiri börn bættust í hópinn 1898 og á árunum þar á eftir hefur lífið ekki orðið auðveldara þó svo að Skarphéðinn sækti Önnu dóttur sína 10 ára yfir í Laugaland til að hjálpa til við heimilishaldið.

 

Hálfsystkini Karítasar voru: Petrína Sigrún f. 1892 í Hagakoti, Sigmundur Viktor f.1898 líklegast á Laugabóli, Sigurjón Skarphéðinsson f. 1901 í Efstadal, Magnús Skarphéðinn f. 1903 í Efstadal og svo Bergþóra sem fæddist á Gunnarseyri í Skötufirði 1910.

 

Karítas ólst upp við svipaðan kost og alþýðufólk fyrri alda gerði hér á landi, þó að tuttugasta öldin væri að hefjast. Einangrunin hefur verið mikil, því augljóst hvernig heimilisfólk hefur varla haft það á færi sínu að fylgst með utanaðkomandi breytingum. Fáir áttu leið eða erindi upp í Efstadal, var því ekki gestkvæmt á heimilinu. Við þessar aðstæður lögðu allir hart að sér í lífsbaráttunni, börn sem fullorðnir, Karitas var mjög liðtæk til vinnu, þrátt fyrir ungan aldur og fíngerða vöxt. Barnafræðsla var því ekki forgangsmál og sagðist hún sjálf hafa fengið tilsögn við lestur, skrift, reikning og kristinfræðslu í einn til tvo mánuði í kring um fermingu hjá prestinum.

 

Þrátt fyrir litla formlega menntun var Karítas vel versuð í sálmum, þulum og skáldskap. Mun það vera húslestrunum að þakka, bæði inn á heimilinu sem og þeim bæjum sem hún dvaldist á sem vinnukona. Sérstaklega minntist Karítas bæjarins Laugarbóls með mikilli hlýju, en sagði hún frá því í viðtali sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við hana á Hrafnistu árið 1966. Þar minnist hún einnig á kynni sín af Símoni Dalaskáldi, sem var víst svolítið fyrir að kveða í kvenfólk, þessu til sönnunar fer Karítas með stutta vísu eftir Símon:

 

Sigríður hér hýr á kinn

hreina og fagra píkan

fer að búa um Símon sinn

og sig nú kannski líka.

 

Sú alþýðumenntun sem Karítas hlaut, dugði henni vel síðar meir til að mæta bæði atvinnurekundum og stjórnmálamönnum þess tíma.

Karítas var gefin Magnúsi Guðmundssyni aðeins sextán ára gömul, en Magnús byggði hús fyrir Skarphéðinn föður hennar að launum. Magnús var þrjátíu og sjö ára ekkjumaður sem átti 4 börn, hann þótti góður handverksmaður og vann ýmis störf fyrir eignafólk í sveitinni. Dag einn kom Magnús til hennar með hring og sagði: „Nú erum við trúlofuð, vina mín.“  

Karítas og Magnús gengu í hjónaband 18 nóvember árið 1907. Baslið byrjaði strax en þó Magnús væri góður handverksmaður þá átti hann engar veraldlegar eigur.

 

 

Þau eignuðust 10 börn og átta af þeim komust á legg, tvíburar dóu nokkurra daga gamlir. Börnin voru: 1. Svanberg, f. 9. jan. 1909; 2. Petrína Sigríður, f. 5. okt. 1910; 3. Þorsteinn:4. Aðalheiður f. 3. okt. 1915; 5.-6. Guðmundur og Anna f. 3. júlí 1917; 7. Halldóra f. 24. júní 1918; 8. Skarphéðinn f. 16. febr. 1921; 9. Einar f. 4. júlí 1924 og 10. Pálína f. 25. júní 1926.

 

Árið 1916 tóku þau sig upp og fluttust í Hnífsdal, þar fengu þau inni í verbúð og Magnús fór á sjóinn. Í þessum verbúðum bjó allskonar fólk bæði einhleypingar sem fjölskyldur. Má nærri geta að of hafi slegið í brýnu milli manna, sérlega þegar sjómennirnir drukku í landlegum. Karítas var alla tíð mikil bindindis kona og bragðaði ekki áfengi allt sitt líf. Svo illa var henni við áfengi að hún taldi það vera stærsta sjálfstæðismál íslendinga að losna við vín bölið. Af þessu fara sögur og skrifar Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur minningagrein í Þjóðviljann 21. Janúar 1973:

 

„ En hann sá hana fyrst á framboðsfundi í Bjarnastaðaskóla á Álftanesi 1946: „Á aftasta bekk við austurenda skólastofunnar sat kona ein. Hún rís á fætur og biður um orðið. Fundarstjórinn, sem auðsjáanlega bar ekki kennsl á konu þessa, bað hana að segja til nafns síns. Hún svaraði: „Ég heiti Karitas Skarphéðinsdóttir“.

 

Mér varð starsýnt á konuna. Hún var klædd í skart. Skúfur skotthúfunnar féll með þokka fram á aðra öxlina, fyrir ofan skúfinn var gullhólkur. Svört silkitreyja, upphluturinn féll þétt að grönnu mittinu, silfurmillurnar glitruðu í birtunni sem lagði inn um gluggana. Hún var tæplega meðalkona á hæð, miðað við vöxt íslenskra kvenna af hennar kynslóð, en mér virtist hún vera einhvers staðar milli fimmtugs og sextugs. Andlitið frítt, hárið mikið og vel snyrt í fléttum, hnarreist var hún og upplitsdjörf. Hún leit rétt í svip yfir kjósendahjörðina, síðan nokkuð fastar á okkur sakborningana á frambjóðendabekknum og mér sýndist ekki betur en það brygði fyrir léttri fyrirlitningu í augnaráðinu þegar hún horfði á okkur. Hún beitti listrænni þögn um stund eins og æfð leikkona. Síðan hóf hún mál sitt.

Það mál sem ég ætla að ræða hér á þessum stað er sjálfstæðismálið. En það sem ég tel mikilvægasta sjálfstæðismál íslensku þjóðarinnar er áfengismálið.

Og nú vil ég spyrja háttvirta frambjóðendur, viljið þið útrýma áfengisbölinu og flytja áfengið út úr landinu? Og ég heimta skýr svör við spurningu minni.

Það duldist engum að hér talaði enginn viðvaningur. Orðin spruttu óhikað af vörum hennar, setningarnar felldar í fast mót, tungutakið eins og þegar íslenskan er tærust, með ilm af innbornu blómgresi.“

 

Árið 1922 flutti fjölskyldan til Ísafjarðar, þá var svo komið að íbúar Ísafjarðar voru orðnir 2020. Bæjarstjórnin greip þá til þess ráðs að auglýsa í landsblöðum auglýsingu þar sem utanhéraðsmönnum var ráðið frá því að flytjast til bæjarins. Það kom þó ekki í veg fyrir að íbúum héldi áfram að fjölga og náði sú fjölgun eins konar hápunkti árið 1945 þegar íbúar urðu 2919, en fækkaði eilítið upp frá því. Þessi mikla íbúaaukning á stuttum tíma skapaði því gífurlega húsnæðiseklu.    

Þannig fluttu þau, fyrst í timburhús sem áður hafði verið sláturhús og var kallað „Hjallurinn“. Þar fæddust yngstu börnin tvö, Einar fæddur árið 1924 og Pálína fædd árið 1926. Húsnæðið samanstóð af einu herbergi með eldavél í bíslaginu. Í þessu herbergi bjó fjölskyldan sem nú taldi 10 manns. Magnús smíðaði breið rúm svo börnin gætu sofið hlið við hlið, með eitt til fóta. Karítas var þá hætt að sofa með Magnúsi, enda kom það betur út að hún væri með yngstu börnin hjá sér. Oft var hart í búi en það hjálpaði þegar elstu drengirnir fóru á sjóinn og börnin voru send í sveit á sumrin. Nokkrum árum síðar fluttu þau í litla sæmilega íbúð í kjallara við Sundstræti 29. Þarna var þá aldrei kalt því í stofunni var kolaofn.

 

Þrátt fyrir mikla fátækt var vel fylgst með stjórnmálum og öðrum málum, bæði frá Ísafirði og Reykjavík. Þau voru svo heppin að geta líka hlustað á útvarp þó ekkert ættu þau sjálf. Þar kom til góðmennska húseigandans sem leifði að leiddur væri hátalari frá hans útvarpi og niður í kjallarann. Því var talsverður menningabragur á heimilinu, enda voru þau bæði bókhneigðar manneskjur.

Karitas lagði mikið upp úr því að koma elstu drengjunum í framhaldsskóla, því þeir voru efnilegir og hlutu hrós kennara sinna. Æðsta takmark drengjanna var að fara í Stýrimannaskólann, en það var dýrt að kosta tvö börn í einu til náms. Karítas sótti um styrk hjá bænum fyrir annan soninn og fékk hann. Báðir fóru svo í skólann og tóku svokallað „pungapróf“. Þeir fengu háar einkunnir og Þorsteinn hélt áfram, fór til Reykjavíkur og tók meiraprófið sem veitti honum skipstjórnarréttindi á stærri fiskiskipum. Karítas og Magnús glöddust mikið yfir þessu. Það var svo sjaldgæft að svona miklir fátæklingar gætu komið börnum sínum til mennta. En hvað stúlkurnar varðaði, þá tíðkaðist ekki hjá fátæku fólki að sækjast eftir menntun fyrir þær. 

    

Árin (1922-1938) sem Karitas bjó á Ísafirði voru hennar þróttmestu ár, þá barðist hún hart i verkalýðsmálum, fylgdi fyrst róttækari armi Alþýðuflokksins, en gekk i Kommúnistaflokkinn þegar hann var stofnaður. Karitas sagði sjálf að þegar hún mætti á fund eða til átaka við atvinnurekendur og önnur afturhaldsöfl á Ísafirði, hafi hún jafnan skartað sínu besta. Sagt er að þessi vísa hafi verið ort um Karítas þegar hún var verkakona á Ísafirði:

 

Ein er gálan gjörn á þras

gulli og silki búin.

Kaffiskála Karitas

kommúnistafrúin.

 

Halldór Ólafsson lýsir aðstæðum og baráttumálum Karítasar vel í minningargrein:

 

„ Þau Karitas og Magnús höfðu þannig fyrir mikilli ómegð að sjá, og urðu af þeim sökum að vinna bæði utan heimilis, þegar einhverja vinnu var að fá, en það var oft að skornum skammti, sérstaklega á kreppuárunum fyrir og eftir 1930. Vann Magnús aðallega við smíðar, en Karitas stundaði þá verkakvennavinnu sem mest gaf i aðra hönd, en það var að vaska saltfisk. Auk þess var hún i síldarvinnu a Siglufirði á sumrin. Þetta voru hvort tveggja óþrifaleg og erfið störf, og aðeins fær duglegu og kappsömu fólki. Hér var um að ræða ákvæðisvinnu, sem var svo illa borguð, að aldrei mátti slaka á, ef ná átti örlítið meiri tekjum en venjulegum daglaunum verkakvenna. Aðbúnaður við þessa vinnu, sérstaklega fiskvöskun, var auk þess þannig, að ekki var mönnum bjóðandi, og nútímafólki mundi ekki trúa ef lýst væri i öllum atriðum. Vaskið byrjaði venjulega síðari hluta vetrar og stóð yfir allt vorið. Athafnasvæðið var sums staðar undir berum himni, en oftast i skjóli og tjaldað fyrir til að verjast verstu næðingunum. Annars staðar, einkum á stærri fiskverkunarstöðvum, var vaskað i húsi, sem oftast þurfti að vera opið i báða enda.svo vindur mæddi þar um. Í frosti þurfti oft að brjóta klaka af vöskunarkössunum áður en byrjað var að vaska upp úr þeim. í þessu ískalda vatni þurftu verkakonur svo að vaska fiskinn, og þurftu þá að hamast eins og kraftar frekast leyfðu til þess eins að halda á sér hita.

Þessa erfiðu vinnu stundaði Karitas flest árin sem hún átti heima á Ísafirði, og þurfti þar að auki að sinna störfum á fjölmennu heimili. Vinnudagurinn varð því oft langur og erfiður. Dagvinnu tíminn á þessum árum var 10 stundir. Frá þessu var þó vikið þegar mest þótti við liggja, og voru vöskunarkonur þá kallaðar til annarrar vinnu þegar raunverulegu dagsverki var lokið. Ég kynntist Karitas, manni hennar og börnum, um eða eftir 1930. Það ár var Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður, og voru þau Karitas og Magnús meðal stofnenda flokksdeildar á Ísafirði. Hún starfaði einnig mikið i verkalýðsfélaginu Baldri, en á þessum árum var mikið starf i því félagi og fundir tíðir og stundum hávaðasamir, því oft urðu þar harðar deilur, en hér er tæpast viðeigandi að rekja þá sögu.

 

Ég vil þó ekki láta hjá liða að geta tveggja hagsmunamála verkafólks, sem Karitas beitti sér sérstaklega fyrir. Annað var krafan um bættan aðbúnað við saltfiskvöskun, þar sem meðal annars var farið fram á, að vatninu sem vaskað var úr, væri haldið það heitu, að ekki þyrfti að byrja á því að brjóta klaka al vöskunarkössunum þegar vinna skyldi hefjast á morgnana.

Hitt málið var krafa um kaffistofu á vinnustóðum, en á þessum árum varð verkafólk að drekka kaffið sitt svo að segja hvar sem það var statt, og lengi vel var enginn ákveðinn kaffitími. Bæði þessi mál mættu mikilli mótspyrnu atvinnurekenda, verkafólks og forystumanna þess, þó að mörgum muni þykja það furðulegt. Mun þar einkum hafa um ráðið ótti við að missa atvinnu ef bornar voru fram ástæðulausar kröfur, en á þessum árum þótti krafan um bætta aðstöðu á vinnustað jaðra við guðlaust athæfi.

Ekki man ég hvort krafan um að hita vatnið i vöskunarkössunum náði fram að ganga, enda er sú atvinnugrein fyrir löngu lögð niður. Þó var i kjarasamningum 1944 sett það ákvæði, að fiskþvottavatnið skyldi hitað upp eins fljótt og atvinnurekendur sæju sér það fært. Það liðu líka mörg ár þar til krafan um kaffistofu á vinnustaði náði fram að ganga. Nú er það ekki talinn boðlegur vinnustaður ef ekki er þar kaffistofa með sæmilegum húsgögnum. Verkafólkið sem drekkur kaffið við svo þægilegar aðstæður sem nú, mætti gjarnan minnast þess, að harða og langa baráttu þurfti til aðkoma fram svo sjálfsögðum og nauðsynlegum þætti.

Þó að þessi tvö mál hafi sérstaklega verið nefnd hér beitti Karitas sér fyrir mörgum hagsmunamálum verkafólks. Af þessum sökum varð hún fyrir aðkasti afturhaldsafla og jafnvel alþýðufólks. Það þótti á þessum árum ekki hæfa af „vöskunarkerlingu" að standa uppi i hárinu á máttarvöldunum.“

 

Uppúr 1930 hófst erfitt tímabil hjá fjölskyldunni. Elsta dóttirin, Petrína veiktist af berklum, en aðeins ári síðar fékk Halldóra sömu veiki, sem dró hana til dauða á aðeins þremur vikum. Einnig fengu fjögur yngri börnin snert af berklum. Áföllin héldu áfram, því yngsta dóttirin, Pálína veiktist alvarlega af berklum 1940 og varð að liggja heima í eitt ár. Snemma árs 1941 kom sú fregn í útvarpinu að Péturseyjar væri saknað, Þorsteinn sonur Karítasar var skipstjóri á því skipi og systursonur, Hallgrímur Pétursson, stýrimaður. Við rannsókn kom í ljós að skothríð þjóðverja hafði grandað skipinu, þar fórst öll áhöfn sem taldi tíu sjómenn um borð.

Nú liggur þingsályktunar tillaga fyrir alþingi íslendinga, um að heiðra beri minningu þeirra sem létust að völdum stríðsátaka í seinni heimstyrjöldinni, þar segir:

„Fyrir liggja heimildir um þann fjölda Íslendinga sem lést á stríðsárunum þótt heildartalan ráðist nokkuð af því hvað er álitið flokkast undir fall af völdum stríðsátaka. Í sumum tilvikum skortir upplýsingar um ástæður þess að skip fórust. Þó liggja fyrir tilgátur sérfræðinga sem hafa rannsakað þessa sögu og skráð heimildir. Má þar nefna Þór Whitehead sem gaf út verkið Ísland í hers höndum árið 2002. Gunnar M. Magnúss tók saman verkið Virkið í norðri III sem var endurútgefið með breytingum og viðbótum árið 1984 af Helga Haukssyni. Þar er yfirlit yfir alla Íslendinga sem létust af stríðs völdum. Af þessum heimildum má álykta að í það minnsta 153 Íslendingar hafi látist vegna árása á skip sem þeir voru á eða árekstra skipanna við tundurdufl. Um er að ræða íslensk skip og erlend skip sem höfðu íslenska skipverja um borð. Þetta eru 0,13% af íbúafjölda hér á landi miðað við manntal í lok árs 1940 (121.474). Þessu til viðbótar fórust 58 á tveimur skipum, Sviða og Max Pemberton, sem líkur standa til að hafi tengst árekstrum við tundurdufl. Einnig er gert ráð fyrir þeim sem féllu á Íslandi á stríðsárunum fyrir hendi bandarískra hermanna. Heildarfjöldi Íslendinga sem féll af völdum stríðsátaka var því um 211 eða 0,17% af íbúafjölda landsins í lok árs 1940. Það er áhugavert að skoða þessar tölur í samanburði við hlutfallslegt mannfall annarra þjóða. Lauslegar tölur til samanburðar sýna að sem hlutfall af heildarfjölda íbúa er þetta sambærilegt mannfalli Dana og mun meira en mannfall Svía. Bandaríkin misstu um 0,2% af heildarfólksfjölda sínum í stríðinu, Kanada missti 0,4%, Bretland missti 0,7% og Frakkland 1,5%.“

 

Við hvert áfallið hertist Karítas og hellti sér í vinnu í stað þess að leggjast í sorg. Hún vann í sláturhúsinu, á reitnum, vaskaði fisk og vann síðar í rækjuverksmiðjunni. Á sumrin fór hún í síld til Siglufjarðar. Það var hún sem huggaði ástvini sína í sorg þeirra. Hún hvorki grét né barmaði sér þegar aðrir sáu til og hneyksluðust sumir á því hvernig hún bar sig. Þetta var hennar háttur til að komast yfir sorg og erfiðleika.

 

Alla tíð hafði setið í Karitas hvernig til þessa hjónabands var stofnað. Hún var aldrei spurð hvað hún vildi í þessum málum og var í henni beiskja sem að lokum leiddi til skilnaðar. Skapgerð þeirra var ákvaðalega ólík. Magnús var skapstór og alvörugefin þótt hann ætti til að taka þátt í söng og gleði, enda mikill söngmaður.Karítas var ákaflega létt í lund og söngelsk, enginn vafi er því að skapgerð hennar hjálpaði í mótlæti. Þá er ótalin sá eiginleiki hennar, kunna ekki að reiðast. Enginn sá hana nokkurn tíma rífast eða æsa sig. Þegar hún ákvað að skilja við Magnús 1936 fór hún hávaðalaust. Hún tók tvo yngstu börnin með sér, en hin voru farin að heiman. Þá leigði hún herbergi í fyrr nefndum Hjalli, en Magnús leigði herbergi í sömu götu. Þannig gátu börnin haft samband við hann. En auk þeirra skýringa, sem gefnar eru, hefur verið bent á að það hafi verið fjárhagslega hagkvæmt fyrir þau að vera skilin því að þannig hafi Magnús átt rétt á bótum frá hinu opinbera sem hann átti ekki ef hann var á framfæri konu sinnar. Skilnaðir voru ekki algengir á þessum tíma meðal barnafólks. Samkvæmt tölum frá Hagstofu voru skilnaðir 38 á öllu landinu árið 1936.

 

Tveimur árum eftir skilnaðinn missti Sigurjón Svanberg, hálfbróðir Karitasar sem bjó í Reykjavík, konu sína við barnsburð og bað Karitas að koma og aðstoða sig um stundarsakir. Þá flutti Karitas suður og var hjá honum um sumarið og flutti ekki Vestur aftur.

 

Karítas bjó víða í Reykjavík, Mosfellssveit, Hafnarfirði, á Vatnsleysuströnd og hún reyndi fyrir sér við búskap í Tröð á Álftanesi. Síðustu árin var hún á Hrafnistu í Reykjavík. Um tíma bjó Skarphéðinn faðir hennar hjá henni bæði í Tröð og á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd þar sem Skarphéðinn lést. Skarphéðinn hefur eflaust reynt að hjálpa til við búskapinn þó að hann væri orðinn giktveikur og hrumur síðustu árin. Hann hefur þá fengið einhvern ellistyrk en ekki er við því að búast að Karitas hafi fengið mikinn fjárhagslegan stuðning frá Sigurjóni hálfbróður sínum, þótt hann hafi á þessum tíma búið við allgóð efni, því að þau Karitas voru mjög á öndverðum meiði í pólitíkinni, hann hallur undir nasisma en hún kommúnisti.

Karítas lést á Hrafnistu árið 1972, lífstarf hennar skilaði árangri sem vert er að minnast, þráin eftir því að bæta og fegra samfélagið, þó ekki hafi henni alltaf verið þakkað fyrir.

 

 

Helga Ţórsdóttir Helga Ţórsdóttir | fimmtudagurinn 2. febrúar 2017

Ég var aldrei barn, ný grunnsýning hjá Byggđasafni Vestfjarđa.

Byggðasafn Vestfjarða hefur ákveðið að setja upp nýja grunnsýningu fyrir sumarið 2017. Að þessu sinni er ætlunin að skoða betur fiskverkunina í landi.

 

Sýningunni er ætlað að útskýra hvernig staðurinn, norðanverðir Vestfirðir, mótast og mótar manneskjur. Hvernig er, veðurfar, jarðfræðin, vistkerfið, að búa á Ísafirði, hvað gerir fólk, hvernig skapast verðmæti og verðmætamat heimamanna?

Við höfum ákveðið að fjalla um líf og störf Karítasar Skarphéðinsdóttur (1890 – 1972). Þannig má líta á hana sem leiðsögumann sýningarinnar. Karítas var áberandi kona sem markaði spor í samtímann, þar að leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi. Barnabarn hennar Karítas Skarphéðinsdóttir Neff skrifaði um nöfnu sína ritgerð sem birtist 1993 í ritinu Lífshættir íslenskra kvenna, Auður Styrkársdóttir ritstýrði. Einnig skrifaði Björgvin Bjarnason grein í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga árið 2015, sem heitir Baráttusaga kommúnista á Ísafirði 1930 – 1935 þar kemur fram hverjir tóku þátt í verkalýðsbaráttunni á þessum tíma.

 

Titill sýningarinnar, (Ég var aldrei barn) kemur frá Karítas sjálfri, en hún lét þessi orð falla í viðtalsröð sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við hana á árunum 1966 – 1969, viðtalið er varveitt inn á vef Ísmúsar.

 

Tímabilið sem um ræðir, stendur með einn fótinn í  hugmyndafræði bændasamfélags 19 aldar eins og leiðsögumaður sýningarinnar gerði. Á hinn bóginn er Ísafjörður á þessum árum suðupunktur, þar sem grannt er fylgst með og tekin var upp hugmyndafræði alþjóðlegra stefna. Þannig mótaðist  þéttbýlið, með átökum ólíkra gilda, með átökum á milli kynja, með átökum þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki.

 

Karítas er táknmynd staðar og  hugmyndafræðilegs samtíma, hún er líkami konu sem ekki var ætlað sjálfsyfirráð. Þannig var hún seld fyrir húsbyggingu aðeins 16 ára gömul, smábóndinn Skarphéðinn ekki svo aumur að hann gæti ekki selt stúlkuna fyrir húsaskjól.

 

Rosi Braidotti hefur fjallað um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi  í bók sinni Metamorphoses: Towards a Materialist Theory of Becoming. Þar segir hún, líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega (macro) samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi (micro). Þetta vald hefur tangarhald á líkamanum og kemur sér oft fyrir í gegnum tækni. Þetta er sá kraftur sem keyrir áfram heimshagkerfið á kostnað líkama borgaranna.

 

Líkaminn sem miðja hins hugmyndafræðilega-, kynferðislega- og efnahagslega valds, er viðfangsefni sem kemur inn á flest svið samfélagsins. Sú sýn sem nýrri grunnsýningu er ætlað að birta, tekur afstöðu sem framlag inn í umræðu, sem nú er mjög virk á flestum sviðum fræða og lista. Sýningin leiðir áhorfendur, en er líka ætlað að vekja umræðu/samtal hjá gestum í samhengi við menningalega uppruna eigin persónu.

 

Þannig langar okkur að draga gesti alla leið inn að gafli, í þeim tilgangi að gefa persónulega upplifun á uppbyggingu staðarins.

Við hjá Byggðasafni Vestfjarða teljum það mikilvægt að svara kalli tímanns, með því að setja upp nýja sýningu. Þannig viljum við fjalla um og hleypa að fleiri röddum úr byggðarlaginu en hingað til hafa hljómað innan veggja safnsins. 

 

Okkur þætti vænt um að heyra frá þeim sem hafa vitneskju um lífshlaup Karítasar Skarphéðinsdóttur. 

Helga Ţórsdóttir Helga Ţórsdóttir | miđvikudagurinn 1. febrúar 2017

Minningarorđ um Björn Baldursson

Vetrarsólstöður liðu og jólin gengu i garð. Nýtt ár með hækkandi sól er komið, á einhvern hátt öfugsnúið því það er með þíðviðri. Blikinn heldur sér hljóður við strandlengjuna og kollan er einhversstaðar á hafi úti þar til hún hittir sinn lífsförunaut. Það eru kaflaskil.

Ef það var eitthvað sem mér var ókunnugt í gangverki náttúrunnar leitaði ég til Björns eða Bödda eins og hann kynnti sig. Auk eðlisgreindar hafði hann mikla og sterka náttúrugreind. Hann las í hegðan fugla og horfði til himins og sagðist þess vegna eiga von á amrandaslætti þegar liði á daginn. Böddi var í senn nútímamaður og stoltur fulltrúi horfinna kynslóða. Hann átti líka rætur til mikilla mankosta, fólki sem vandaði til verka og var sinni sveit til sóma og forustu. Böddi var um skeið bóndi í félagsbúi við sitt fólk í krúnudjásni Djúpsins, eyjunni Vigur, sem var grunnur að menntun sem hvaða háskólasamfélag heimsins gæti verið stolt af.

Böddi kom til starfa hjá Byggðasafni Vestfjarða árið 2004. Þessi litli vinnustaður var í nokkrum vexti og fáar hendur unnu verkin. Það var gantast með það að safnmaður, a.m.k. sá sem vill þrífast á litlu safni, getur ekki verið grámyglulegur grúskari sem grúfir sig yfir fræðin í friði fyrir öllu og öllum. Hann þarf að kunna skil á öllu litrófi vinnumarkaðarins, allt frá sagnfræðigrúski, margskonar hönnunar, rekstrarkúnstar og skemmtanabransans. Allt þetta kom Böddi með úr Vigur í mali sínum og að auki var hann smiður á tré og járn, með undirstöðuatriði í vélfræði, svo hafði hann pungapróf og kunni pelastikk svo eitthvað sé nefnt - en síðast en ekki síst, náttúrugreind.

Eitt er að vera hrekkjóttur og annað að vera stríðinn. Hvortveggja fór saman í Bödda og þá í jákvæðustu merkingu þess. Hann meiddi aldrei nokkurn mann. Það var húmor, yfirvegaður og vandlega undirbúinn, sem réð ferðinni þegar sá gállinn var á honum. Fórnarlömbin komu aldrei sárir undan sendingunum, kannski örlítið skömmustulegir og niðurlægðir vegna þess að hafa ekki séð í gegnum hið flókna net hrekksins. Böddi var hvers manns hugljúfi og skemmtilegur maður.

Björn Baldursson frá Vigur var einstakur samstarfsmaður. Frá fyrstu stundu vorum við samstíga og jafningjar í vinnunni og vorum fljótir að finna okkar hlutverk sem bætti hvort annað. Hann var kvikur og lausnamiðaður á móti hægfara sveimhuga með vott af verkkvíða. Hann gekk, eða öllu heldur fór á spretti í öll störf og var ótrúlega fljótur að tileinka sér nýjar nálganir. Eðlislæg smekkvísi og víðfeðm kunnátta kom hann með úr eyjunni. Á einhvern hátt lék allt í höndunum á honum. Við rökræddum og deildum saman mörgum áhersluatriðum á sviði minjavörslunnar, má þar nefna vörslu bátaarfsins og strandminja almennt. Það bar aldrei skugga á okkar samstarf og það yljar manni að rifja upp fjölmörg skemmtileg atvik sem við upplifðum saman.

Kæra Ninna, Balli og Snjólaug – vinir og vandamenn. Með ósegjanlegum harmi og söknuði kveðjum við Margrét og fjölskyldur okkar kæran vin og samstarfsmann sem svo ungur fellur frá. Á litlum vinnustað erum við líkt og fjölskylda, sorgin umlykur og eina haldreipið er minning og virðing fyrir þeim verkum sem Björn Baldursson frá Vigur vann og innleiddi í okkar störf. Við áttum góð ár og eftirminnileg, fyrir þau erum við þakklát.

Jón Sigurpálsson

Jón Sigurpálsson Jón Sigurpálsson | ţriđjudagurinn 12. júlí 2016

Ávextir hafsins

Byggðasafn Vestfjarða efnir til veislu föstudaginn 15. júlí í Turnhúsinu í Neðstakaupstað. Að þessu sinni nefnist veislan Ávextir hafsins. Veislan verður með öðru sniði en hinar hefðbundnu saltfiskveislur safnsins og er tilefnið ærið svo ekki sé meira sagt. Það eru 230 ár frá því Eyri við Skutulsfjörð fékk kaupstaðarréttindi samkvæmt konunglegri tilskipun, svo því sé haldið til haga. Það eru

200 ár frá því að Eyri missir kaupstaðarréttinn í hráskinnsleik stjórnmálanna sem hrifsaði hann og flutti yfir til Grundarfjarða. Við það taldist Ísafjörður þeirra úthöfn sem íbúunum sárnaði og bjuggu við í hálfa öld, eða til ársins 1866 að Ísafjörður hlaut aftur kaupstaðaréttindi og að auki með eigin forráðum og bæjarstjórn. Upp á það er haldið ásamt því að 20 ár eru frá sameiningu sex sveitarfélaga og Ísafjarðarbær varð til.

Í rúm 15 ár hafa veislur safnsins verið með svipuðu sniði og eru orðnar að nokkurskonar ársfagnaði safnsins. Það þótti tilhlýðilegt að breyta til og hafa veisluna með öðru sniði af tilefni þessa margbrotna afmælisárs. Eitt er þó það sem einkennt hefur veislurnar, ljúffengur matur og tónlistarflutningur einvala tónlistarmanna. Oftast hefur það verið í höndum saltfisksveitar Villa Valla, en auk Vilbergs Vilbergssonar er söngkonan Jóhanna V. Þórhallsdóttir, Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari, gítarleikarinn Páll Torfi Önundarson og Matthías M.D. Hemstock á slagverk. Þessi frábæra sveit mun ylja okkur með flutningi sínum að þessu sinni.

Kallaður var á vettvang Vestfirðingarnir Ingi Þórarinn Friðriksson yfirmatreiðslumaður og félagar hans Benedikt Fannar Gylfason og Hermann Ingi Kristinsson. Saman galdra þeir fram veislumat úr hráefni sem fæst hér við bæjardyrnar og setja í þann búning sem veislugestir allajafnan fá ekki. Má þar nefna m.a. tapas með saltfiski, saltfisk-carpacci ásamt heimalöguðu pestó og kartöflu-aioli, lunda úr Vigur með bláberjum og ætiþislakremi, kúlaðann steinbít með smjöri og sölvum, reykt þorskalifur á ristuðu brauði ásamt tómatsultu, grillaða hrefna með sætri sojasósu og kerfli, hrefnusmáborgara og ristuðu smælki, vel kryddaðar rækjur með kerfli, lambarifjur með saltbökuðum rófum, svartfuglsegg að hætti Inga og og í lokin skyr og rabarbara.

Þessi dýrðlega veisla hefst kl. 19:00 með fordrykk föstudaginn 15. júlí innanum safnmunina í Turnhúsinu.

Björn Baldursson Björn Baldursson | miđvikudagurinn 23. mars 2016

Líkön Hálfdáns Bjarnasonar

Skonnortan
Skonnortan
1 af 4

Í Byggðasafninu eru haglega gerð líkön af kútter og skonnortu. Þessi líkön eru gerð af Hálfdáni Bjarnasyni smið á Ísafirði f.17. ágúst 1885, d.17. desember 1965, og voru þau smíðuð sérstaklega fyrir Byggðasafnið. Fyrirmynd skonnortunnar er Haffrúin, sem gerð var út frá Flateyri, og fyrirmynd kúttersins er kútterinn Haganes, en Hálfdán var á honum um skeið. Hálfdán smíðaði síðar einnig líkön fyrir Þjóðminjasafnið en þau voru töluvert stærri.

 

Í Vesturlandi, þann 24 desember 1964 birtist eftirfarandi viðtal við Hálfdán.

 

Vesturland 24.12.1964.

Viðtal við Hálfdán Bjarnason smið.

 

-Hann er kominn til að skoða skúturnar, segir sonarsonurinn, þegar gamall kvikur maður lýkur upp dyrunum á húsi við Seljalandsveg á Ísafirði á dimmu vetrarkvöldi. Innan stundar erum við komnir upp á Engjaveg á verkstæði gamla mannsins, Hálfdáns Bjarnasonar smiðs, og við augum blasa líkön af tveimur skútum, forkunnar fallegir gripir og listavel smíðaðir. Bæði eru skipin undir fullum seglum og möstrin ber við loft. -Þessi stærri er skonnorta, 2,38 m. á lengd og er tvímöstruð með fullum seglabúnaði, rá og reiða, segir gamli maðurinn. -Ég hygg að þetta muni vera danskt lag, en fyrirmyndin er skonnortan Haffrúin frá Flateyri, sem mun hafa verið 35 tonn. Þessi gerð af skonnortum var algeng hér á Vestfjörðum um og eftir aldamótin og ég man eftir Lovísu héðan frá Ísafirði og Fortunu frá Þingeyri. Á þessum skonnortum voru 15-16 menn á skaki. -Skonnortan er tvímöstruð og stórseglið er á aftara mastri og það segl hefur gaffaltopp. Svo er á hinu mastrinu skonnortssegl, og segl er á stagi á milli mastra, það heitir millumstagssegl. Svo eru fjögur forsegl. Næst mastrinu er fokka, miðseglið er stagsegl, þá klýfur og fremsta seglið heitir jagari. Hálfdán smiður bendir á alla þessa hluti á líkaninu, sem er alveg nákvæm eftirlíking af gömlu skonnortunni, og hann nefnir nöfn, sem heyra fortíðinni til og láta framandlega í eyrum okkar, sem yngri erum. Hann bendir á eitt og annað á skipinu: vanta, veglínur, jómfrúr, bommu, gaffal, kló, pikk, riftalínu, skaut, krufuspil, stuðtalíu og enn fleiri nöfn, sem ekki verða upp talin hér. - Þetta er nákvæmt líkan, en þó allt tekið upp úr huganum. Allir hlutir á þessu líkani, stórir og smáir, eru eins og á gömlu skonnortunum. Í lest eru saltkassar í báðum hliðum og 16 kojur eru í lúkar. Allur skrokkurinn er úr eik og pikkspón og lúkar er innréttaður úr eik og káeta úr mahóní, en hún er aðeins fyrir tvo menn. -Já, þetta er allt smíðað eftir minni og ég er alveg öruggur um að þetta hafi allt verið svona, já, þetta var svona hjá okkur hér fyrir vestan. - Kútterinn hérna er 2,20 m. á lengd og það eru akkúrat 60 ár síðan ég var á kútternum, sem þetta módel er af, en hann hét Haganes. Hálfdán Bjarnason smiður er 79 ára að aldri og ber aldurinn vel. Að vísu er heyrnin nokkuð tekin að bila, en sjónin er góð og höndin styrk. Á meðan Árni er að taka myndirnar, getur gamli maðurinn ekki verið iðjulaus, hann grípur eikarspýtu og hnífinn og tálgar og tálgar.  -Ég fór til Reykjavíkur árið 1906 til að læra smíðar og ég hefi verið húsasmiður, mublusmiður og skipasmiður síðan, skipasmiður í 30 ár. - Ég byrjaði til sjós árið 1898 og var á sjónum til 1905. Ég byrjaði á gömlu  ljótu skipi, sem hét Ægir frá Bíldudal og var með kúttersretningu, og eitt sumar var ég á kútternum Haganesi, sem þetta líkan er smíðað eftir. -Fyrir um 10 árum var ég beðinn að smíða líkön fyrir Byggðasafnið hér á Ísafirði af skonnortu og kútter. Þetta eru eintrjánungar, um metri á lengd. En þessi líkön, sem eru miklu stærri, gat ég ekki lagt í fyrr en ég var hættur að vinna fyrir um 2 ½  ári. -Ég er búinn að vera nákvæmlega 12 mánuði með skonnortuna. Jú, þetta er ó- hemju mikil vinna. Seglin á hvorri skútunni eru sex vikna vinna. Ég var 7 mánuði að vinna við skrokkinn á skonnortunni, en 5 mánuði með reiðann, hann er svona mikil vinna. -Ég hefi eiginlega alltaf unnið fullan vinnudag við þetta og stundum upp í 14-16 tíma, þegar ég hef verið að vinna hér heima á rúminu við ýmsa smáhluti. -Annars hefi ég ekkert getað unnið við þetta í haust, ég ætlaði að hafa jullur á þeim, en ég veit ekki hvort ég endist til að klára það, ég hefi verið svo slappur í haust. Hvernig stóð á því að þú lagðir út í þetta verk? -Ástæðan fyrir því, að skúturnar eru orðnar til er sú, að eftir að ég hafði smíðað þessi líkön fyrir Byggðasafnið, fór ég suður og kom á Þjóðminjasafnið. Ég var viss um að þetta hlyti að vera til betra fyrir sunnan. Mér brá í brún þegar ég kom í Þjóðminjasafnið og sá það, sem þeir kalla kútter þar. Það er hreinasta forsmán, það skip er bæði ljótt, illa smíðað og ekkert rétt við það, það er ekkert í líkingu við það, sem það á að vera og gefur alls ekki rétta hugmynd af þessum skipum. Gamli maðurinn hefur talað í sig hita og það er auðheyrt, að þetta er hans hjartans mál. -En ég sá þar líka tvö listaverk, módel af Gauksstaðaskipinu og áttæringi með sunnlenzku lagi, hann er alveg listavel smíðaður. -Að ég kom í Þjóðminjasafnið varð mér hvatning til að smíða þessi skip, án þeirrar heimsóknar hefðu þau ekki orðið til, því að mér hafði ekki til hugar komið, að einhver hefði ekki verið búinn að smíða svona skip áður. -Ég vildi að til væru líkön af þessum skipum, þar sem allt er sýnt rétt, og ég þori að ábyrgjast, að á mínum líkönum er allt rétt sýnt, þó úr huganum sé. Skipin voru okkur strákunum það sama og þeim eru bílarnir núna og okkur þótti vænt um þessi skip. Allri þjóðinni þótti vænt um þessi skip, enda voru þau fyrsti vísir allra framkvæmda. Ég skal lofa þér að heyra vísur, sem ég hefi ort. Gamli maðurinn hallar sér aftur í sætinu, augun sindra á meðan hann flytur kvæðið og svipurinn verður glaðlegur. Hann rær sér og hrynjandi ljóðsins fylgir handasláttur. Minningarnar um liðna tið, um skútuöldina, taka hann föstum tökum og hugurinn leitar aftur um borð í gamla kútterinn.

 

Földum skautar fagra gnoðin

fyrsti vísir þess, sem er

 fyrsti Íslands frelsisboðinn

farmanns hreysti vitni ber.

 

 Vonir bjartar, hugur heitur

horfði af nýjum sjónarhól,

þegar þessar fögru fleytur

fyrst hér greiddu ský frá sól.

 

Þegar byljir byrgja strendur

brotna stengur, rifnar voð,

skipstjórinn við stýrið stendur

stundum sólarhringa tvo.

 

Brotsjóar um borðin renndu

þar boðar risu straumanna,

en hjartað trútt og hraustar hendur

héldu um stýristaumana.

 

Og hvað verður nú um þessi líkön þín, Hálfdán? — Það veit ég ekki. Sjálfur hefi ég helzt hug á því, að koma þeim á Þjóðminjasafnið, svo framarlega sem ekki verður stofnað Sjóminjasafn. Ég vil að skipin verði varðveitt, það er mín heitasta ósk.

Björn Baldursson

Björn Baldursson Björn Baldursson | mánudagurinn 1. febrúar 2016

Hvalreki

Mynd úr rekabálki Jónsbókar.
Mynd úr rekabálki Jónsbókar.
1 af 4

Hér fyrr á tíð þótti hvalreki sérstakt happ og í ísaárum bjargaði hann oft heilu sveitunum frá bjargarskorti og hungursneyð, sem tvímælalaust hefði oft orðið. Má eiginlega segja að hvalrekarnir hafi verið lífsbjörg þjóðarinnar fyrr á öldum þegar sultur og seyra sóttu að.  

Oft spunnust miklar deilur um hvalrekann, og jafnvel gekk það svo langt stundum að stórfelld mannvíg urðu vegna hans fyrr á öldum, þegar menn greindi á um eignarhald rekans.

Mesti hvalreki sem vitað er um á Íslandi var á Syðri Ánastöðum í Húnavatnssýslu vorið 1882. Þá fylltust allar víkur og vogar  af hafís, og urðu þá innlyksa á stað sem Sandvík heitir, 32 hvalir sem allir voru síðan drepnir og skornir af bændum þar í sveitinni.

Ef hval rak þar á fjöru sem almenningur var, mátti hver hirða af honum sem hann vildi, en ef hvalinn rak að  landi þar sem bóndi hafði eignarhald á var honum skipt eftir ýmsum reglum. Þeim sem fyrstur kom að rekanum  bar skylda til þess að festa hvalinn tryggilega þannig að hann tæki ekki út aftur og láta aðra síðan vita um fundinn svo fljótt sem verða mátti, ella verða beittur þungum sektum.

Ef skutlaðan hval rak á land með merktum skutli í,  fékk sá er fann hvalinn hluta af skotmannshlutnum. Sem dæmi var skotmannshlutur Arnfirðinga  hnefaalin útfrá blástursholu og inn í bein, jafnstórt stykki útfrá gotu og svo sporðblaðkan sjálf.

Hvalspikið var brætt og notað sem ljósmeti, einnig var það stundum saltað . Oft var hvallýsi blandað í smjör til að drýgja smjörið.  Sporðurinn og bægslin voru soðin og brytjuð niður og sett í súr. Hvalkjötið var borðað nýtt og einnig saltað, reykt eða súrsað. Hvaltennur og hvalskíði voru mjög eftirsótt smíðaefni, sérstaklega tennur úr búrhvölum  og náhvölum, og úr þeim mátti smíða ýmsa fagra muni. Hvalbein voru einnig  oft notuð sem burðarviðir í byggingum, enda beinin sum hver gríðarstór. Hvalleður var mikið notað til skógerðar og þóttu hvalskórnir mjög endingargóðir, væru þeir vel hirtir. Sjóskór sjómanna  voru stundum hafðir úr hvalleðri.

Hvalbeinsduft í vatni eða víni var talið flýta fyrir fæðingu hjá konum í barnsburði, og mulin hvalkvörn var talin góð lækning við þvagteppu. Við doða í kúm þótti gott ráð að láta hvalkvörn liggja í vatni um tíma og láta svo doðakúna drekka seyðið af kvörninni.

Kirkjan átti mikil ítök víða um land, og átti t.d. Vatnsfjarðarkirkja 15 hvalrekaítök á Hornströndum.  Eru þess mörg dæmi að umtalsverðar tekjur hafi komið í hlut kirkjunnar við hvalreka, og staðið undir viðgerðum og viðhaldi á þeim.​

 

Björn Baldursson Björn Baldursson | miđvikudagurinn 20. janúar 2016

Frostaveturinn 1918

Í Dokkunni 1918
Í Dokkunni 1918
1 af 2

Eins og öllum er kunnugt þá var veturinn 1917-1918 mörgum þungur í skauti sökum gríðarlegs kulda og hafíss sem lagðist að í byrjun árs 1918. Bátar voru frosnir inni mánuðum saman og þessar myndir sem teknar eru af ljósmyndaranum M.Simson, sýna vel hversu bjargarlaus mannskepnan er þegar náttúruöflin taka völdin. Önnur myndin er tekin í Dokkunni en hin er tekin af Pollinum þar sem vélbátafloti Ísfirðinga er frosinn inni og kemst hvorki lönd né strönd. Samkvæmt Eggert B. Lárussyni skipasmíðameistara eru bátarnir þessir talið frá vinstri:(Nafn,skráningarnúmer,stærð,smíðastaður,smíðaár og nafn skipstjóra ef þekkt er).
Freyja, ÍS 364, 34 brl, Svíþjóð 1913, Guðmundur í Tungu.
Frigg, ÍS 399, 27 brl, Danmörk 1916, Benedikt Jónsson.
Gylfi, ÍS 357, 26 brl, Frederikshavn 1913, Halldór Sigurðsson.
Sjöfn, ÍS 414, 31 brl, Frederikshavn 1917, Jón Barðason.
Kári, Ís 387, 28 brl, Noregur 1915, Magnús Vagnsson.
Kári, ÍS 417, 34 brl, Frederikssund 1917, (skipstjóri ókunnur)
Kveldúlfur, ÍS 397, 24 brl, Fredferikssund 1916, Guðmundur Magnússon.
Sóley, ÍS 389, 20 brl, Hardanger 1913, Guðmundur Júní.
Sverrir, ÍS 385, 26 brl, Noregur 1915, Stefán Bjarnason.
Bifröst, ÍS 386, 28 brl, Noregur 1915, (skipstjóri ókunnur)
Snarfari, ÍS 384, 27 brl, Noregur 1915, Guðjón í Bakkaseli.
Sæfari, ÍS 360, 27 brl, Frederikshavn 1913, (skipstjóri ókunnur).
Eggert Ólafsson, ÍS 408, 30 brl, England 1915, (skipstjóri ókunnur).
Ísleifur, ÍS 390, 30 brl, Reykjavík 1916, Guðmundur Þorlákur.
Harpa, RE 177, 29 brl, Noregur, Halldór Benediktsson.

Björn Baldursson Björn Baldursson | fimmtudagurinn 14. janúar 2016

Hrefnu Láki

Mynd: Timarit.is
Mynd: Timarit.is
1 af 3

Flestir Vestfirðingar sem komnir eru af léttasta skeiði kannast við að hafa heyrt talað um Hrefnu Láka, eða Þorlák Guðmundsson, f.7.desember 1877, d.17 nóvember 1950, sem bjó að Saurum í Álftafirði við Djúp. Þorlákur var brautryðjandi í hrefnuveiðum við Ísland og setti hann niður hrefnubyssu í bát sinn, Möggu, sem var 4 brl. trilla, sumarið 1913, en fyrstu hrefnuna skaut hann árið 1914. Stundaði hann svo hrefnuveiðar á Möggu í Ísafjarðardjúpi um áratuga skeið. Þorlákur var mikill veiðimaður og ekki var hann einungis góð hrefnuskytta heldur líka grenjaskytta mikil. Læt hér fylgja með tengil á grein á timarit.is um þennan mikla veiðimann. Athugið að fyrri greinin er í blaðinu í 1.tbl, 10 janúar 1943, bls.1 og svo er framhald í 2.tbl., 17 janúar 1943 á bls. 13. Afar fróðleg og skemmtileg grein.

 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3274930

Björn Baldursson Björn Baldursson | miđvikudagurinn 6. janúar 2016

Hákarlalegur á Gretti 1897 og 1898.

Grettir, skip Ásgeirsverslunar.
Grettir, skip Ásgeirsverslunar.

Hákarlaveiðar voru mikið stundaðar á Vestfjörðum hér fyrr á tíð og allt framyfir aldamótin 1900. Fyrst og fremst var það lifrin sem var hirt og brædd. Hákarlalýsi þótti alveg sértaklega gott ljósmeti og var hákarlalýsi ein af aðal útflutningsafurðum Íslendinga lengi vel og lýsti upp stræti og torg erlendra borga. Hákarlaveiðiskipin voru ekki alltaf stór né vel búin og oft hefur aðbúnaður sjómanna verið slæmur, og gilti það einnig um annan veiðiskap. Þessi grein eftir Halldór Kristjánsson sem birtist í jólablaði Ísfirðings í desember árið 1958 gefur okkur smá innsýn í heim hákarlaveiðimannsins, og þá sér maður hvernig aðstæður sjómanna hafa verið á þessum tíma.  

 

Jólablað Ísfirðings, 8.árgangur, 15.12.1958

 

Halldór Kristjánsson

 

Á Gretti gamla fyrir 60 árum.

 

Enda þótt treglega myndi ganga nú að manna skútur á hákarlaveiðar eins og þær gerðust og að þeim var búið fyrir 60-70 árum, kynni vel að vera að einhverjum þætti gaman að rekja feril einnar hákarlaskútu á þeirri tíð í fáeina daga og fylgjast nokkuð með hvernig gekk. Þeir, sem það vilja, geta þá skyggnzt með mér í dagbækur Grettis gamla frá þeim árum.

Dagbækur skipsins eru stuttorðar og segja ekki nema fátt eitt um lífið og starfið um borð. En þær eru samtímaheimild og greina frá ferðum skipsins, veðráttu og aflabrögðum. Og þær eru ómetanleg heimild til samanburðar við munnlegar frásagnir.

Grettir var skonnorta, 26,23 tonn og talinn hið traustasta skip. Þau ár, sem hér er um að ræða var Páll Rósinkransson skipstjóri á honum.

Fyrst skulum við þá rekja einn túr vorið 1897 samkvæmt því einu, sem Páll skipstjóri Rósinkransson hefur skráð í dagbókina. Föstudaginn 16. apríl, kl. 2 að nóttu, er létt á Flateyrarhöfn og siglt út. Vindur er þá suðaustan og austan þegar út kemur. Siglt frá þar til kl. 5 síðdegis. Þá er lagzt á 120 faðma dýpi með Barðann í suðri. Þarna er svo legið næsta dag í þoku og hægviðri og veiðast 34 hákarlar yfir sólarhringinn. Aðfaranótt sunnudags er enn þoka og 15 hákarlar veiðast. Klukkan 7 á sunnudagsmorgunn er veiðum hætt, því að þetta er sjálfur páskadagur. Með morgninum gerir bjartviðri. Klukkan 8 um kvöldið er byrjað að fiska og veiðast 11 hákarlar fyrir lágnætti. Það veiðast 5 hákarlar fyrir kl. 4 um nóttina en þá er létt og siglt í vestur 3 ½ mílu. Þar er lagzt á 90 faðma dýpi með Sléttanes í austurhöllu suðri. Þarna er svo legið allan þriðjudaginn en aflinn er heldur tregur. Aðfaranótt miðvikudags er svo létt og siglt austur. Undir hádegi er lagzt norður af Straumnesi á áttræðu dýpi. Þá er regn og þokuloft og óðum að hvessa vestan. Ekki gefur að renna. Um kvöldið er kominn stormur „búið að stikka út 200 föðmum af pertlínunni. Sami stormur, þungavindur og hvass alla nóttina. Eftir hádegi er létt og siglt austur. Þá gerir hæglætisveður suðvestan og seint um kvöldið er lagzt á hundrað faðma dýpi norður af Hornbjargi. Þarna veiðast 5 hákarlar um nóttina og morguninn en um hádegi er létt og siglt vestur. Þá er lagzt norður af Kögrinum á 150 föðmum. Þar veiðist einn hákarl um nóttina. Kl. 10,30 á laugardagsmorgun, „létt frá ísnum og siglt vestur“. Um kvöldið er lagzt norður af Bjarnarnúp. Þá er þungavindur sunnan og regn. Klukkan 4 um morguninn er létt og siglt vestur. Lagzt eftir hádegið norður af Gelti en létt undir lágnættið og siglt vestur um stund og lagzt svo á 150 föðmum með Barðann í suður. Þar nást svo 12 hákarlar yfir mánudaginn. Um nóttina bregzt veiðin alveg og með morgninum er létt og siglt vestur. Eftir nónið er lagzt norður-norðvestur af Skagahlíðum. Þar fást 24 hákarlar næsta sólarhring, 31 þann næsta og 56 föstudaginn 30. apríl. Veiðin glæddist yfirleitt ef að friður var til að liggja. Menn trúðu því að hákarlinn sækti þar að sem félagar hans voru „skornir niður“, en það var aðeins lifrin sem yfirleitt var hirt. Þessa dagana var hæglát vestanátt og gerði snjóbleytu og síðan kafald á föstudag.

 

Síðan er frásögn dagbókarinnar á þessa leið:

 

1-4. Hæglátur SA. Mikið dimmt snjóveður. Fengum 16 hákarla.

5-8. Fengum 5 hákarla. Kl. 7 ½  kafaldsbylur. Kl. 8 rok. Kl. 7 fer á drift. Farið að létta. Komnir undir segl kl. 8.

9-12.. Stormur ONO. Kafaldsbylur. Heist þrírifað stórsegl, einrifuð fokka og stormkýfur.

1-4. Sami stormur og kafaldsbylur. Stýrt SSO. Kl. 4 brotnar stykki úr skjólborðinu.

5-8. Sama veður. Kl. 7 heist tvírifað stórsegl. Pumpan lens.

9-12. Sama veður. Kl. 9 ¼ 14 peilast Kópurinn SO ½  (mílu) undan. Fyrr sást ekki land.

 

Sunnudag 2. maí.

1-4. Rok stormur ONO. Kafaldsbylur. Lagt til og frá undir Skandahlíðum.

5-8. Kl. 4 ½  farið að sigla inn á Patreksfjörð. Lagst á Patreksfirði kl. 7 fyrir bakborðskeðju, 35 faðmar úti.

1-4. Nokkuð hægri. Sami kafaldsbylur.

5-8. Birtir nokkuð.

9-12 Hæglátur NO. Sama snjóveðrið.

Mánudag 3. maí.

1-4. Hæglátur NO. Kafald. Létt kl. 2 ½  og siglt út.

5-8. Bjart veður. Skýjað loft. Kl. 5 heistur lognkýfur og gaffaltoppsegl. Komnir að Tálkna kl. 7 ½ .

9-12. Sama.

1-4. Sama.

5-8. SO. Stundum logn. Heiðbirta. Kl. 6 komnir að Kóp.

9-12. Hvass SO. Kafald. Tekið gaffalsegl og lognkýfur, einrifað stórsegl.

 

Þriðjudagur 4. maí.

1-4. Hvass O. Kafald og frost. Kl. 4 komnir að Barðaskerjum.

5-8. Sama veður. Krussað inn Önundarfjörð.

9-12. Sama.

1-4. Lagzt á Flateyrarhöfn kl. 2 ½ , 30 faðmar úti af bakborðskeðju.

 

Ekki var lengi haldið kyrru fyrir á Flateyri. Þó var ekki byrjað að skipa lifrinni upp fyrr en kl. 5 á miðvikudagsmorgunn. Því var lokið kl. 3 ½  um daginn og reyndist aflinn úr túrnum vera 60 tunnur. Þá var sótt vatn um kvöldið. Kl. 6 á fimmtudagsmorgun var byrjað að taka kol og beitu. Kl. 10 farið að taka kost (mánaðar). Síðan var „gjört við tóverk og ýmislegt, sett stykki í skjólborðið og fleira“. En kl. 9½ um kvöldið var létt og siglt út.

Hákarlamenn munu almennt hafa trúað því að veiðin gengi einna bezt í grennd við hafísinn því að hákarlinn kynni þar vel við sig. Hinsvegar vissu allir að hafísinn var viðsjárverður og stórhættulegur. Ekki mun þó Páll Rósinkransson hafa óttast ísinn meira en sjó og vind. Þriðjudaginn 6. júlí 1897 lá Páll á Gretti á 120 faðma dýpi norður af Önundarfirði. Þann sólarhring veiddu þeir 86 hákarla en um hádegið bókar Páll þetta: „Hart frost. Allur reiðinn er svellaður". Undanfarna daga er þessa getið:

 

28. júní. „Létt frá ísnum."

 

29. júní. „Krussað vestur með ísnum.“ Þá legst hann á fimmtugu vatni norður af Sauðanesi.

 

1. júlí. „Létt kl. 4. Siglt frá. Lagzt á 70. Ísinn rétt fyrir neðan. Ísinn að reka vestur allt í kring“.

 

2. júlí. „Ísinn að reka hér í kring.“

 

3. júlí. „Ísinn hér rétt fyrir neðan.“

 

Sjöunda júlí veiddust 84 hákarlar og 8. júlí 80, 9. júlí 81 og til hádegis hinn 10. júlí 53 hákarlar. Þá var létt og haldið heim með 130 tunnur lifrar.

Þessar tilvitnanir sýna hvílíkur fróðleikur er geymdur í þessum gömlu bókum og mætti vera meira til af slíkum en er. Þeim var ekki ætlað annað hlutverk en hið réttarlega meðan á útgerð skipsins stæði. Meðferð og geymsla var svo eftir því. Þess var ekki gætt að þarna væru sögulegar heimildir fyrir seinni tíma. Það liggur við að segja megi sem svo, að fyrir vangá hafi gleymst eða farið í undandrætti að eyða þessum bókum og því sé nú hægt að rekja slóð þessa eina skips að 60 árum liðnum.

En úr því farið er að fjalla um þessar bækur ætla ég þó að bæta við tveimur sögum frá árinu 1898. Þar hef ég fyrir mér frásögn tveggja manna, sem það ár voru hásetar á Gretti með Páli Rósinkranssyni. Annar þeirra er Guðmundur Bjarnason frá Mosvöllum, sem enn er á lífi, nú í Reykjavík. Hinn er Guðmundur Kr. Guðmundsson á Tannanesi, sem nú er látinn fyrir fáum árum.

Guðmundur Bjarnason hafði sagt mér einstaka sögur frá veru sinni á Gretti með Páli. Þegar ég sá dagbækur Grettis fyrst fyrir nálega 15 árum, þótti mér bera vel í veiði að hafa þær til samanburðar. Þá innti ég líka Guðmund heitinn á Tannanesi eftir atvikum. Fannst mér, að af þessu öllu mætti fá glögga og örugga sögu. Það var 17. marz 1898 sem Páll Rósinkransson byrjaði vertíðina. Þá var talsverður ís á Flateyrarhöfn og varð að brjóta hann frá til að komast í gegn. Þegar út úr firðinum kom var hvass austanvindur, moldkafald og frost. Var legið til drifs meðan dimmast var um nóttina en „heist og siglt frá“ þegar dagaði. Var siglt austur að Djúpál og lagst þar. Gerði gott veður og aflaðist ágætlega, t. d. 128 hákarlar einn sólarhringinn. Hinn 27. marz „verður að létta frá ísnum. Þá var lagzt á Flateyrarhöfn um kvöldið kl. 9 ½  .

Klukkan 4 ½  um nóttina var „sótt lifrarskipið og farið að skipa upp.“ Kl. 9 ½  um kvöldið „búið að skipa upp lifrinni 114 tunnum.“ Daginn eftir, 29. marz, kl. 3 á nóni, var létt og siglt út. Úti var hvass og „dimmur með kafald.“ Var þá siglt frá. Undir hádegi var „komið út að ísnum á 50. Krussað vestur.“ Síðdegis er „siglt hjá Sigríði. Hún liggur við ísinn. Kl. 5 lagzt á 80 f.“ Ekki varð sú lega löng, því að þó að lagzt væri í logni var kominn hvass austanvindur kl. 9. Kafald og ákaflega mikið frost. „Kl. 9 farið að létta, búið kl. 10. Sigríður er sigld upp. Siglt upp.“

Hinn 31. er siglt upp í kafaldi, frosti og hvössum austan. Um hádegi birtir. „Höluð niður forseglin og farið að fiska. Fengum 30 þorska.“ Síðdegis er svo siglt frá og lagzt norður af Sléttanesi. Þá er hæglátt veður og farið að renna. Veiðast 8 hákarlar um kvöldið og 76 næsta sólarhring en þá er komið austan hvassviðri með frosti og kafaldi um kvöldið. Samt hafast þarna 25 hákarlar í bylnum til hádegis 2. apríl en þá er kominn stormur og „farið að létta kl. 1. Búið að létta kl. 3. Siglt upp beitivind.“ Kl. 2 um nóttina er „lagt yfir hálfa mílu undan Kópnum, Krussað austur og komið að Skagatöngum undir lágnætti.

4. apríl. „Krussað austur. Verður að hita sjó til að þýða kringum stýrið. Siglt inn á Önundarfjörð. Lagzt á Flateyrarhöfn kl. 11 ½ . Verið að brjóta klaka af skipinu utan og innan borðs til kl. 6.“ Morguninn eftir bjart veður og hæglátt en þó var verið að „gjöra við ýmislegt um borð“ fyrir hádegi. Kl. 2 ½  létt og siglt út. Þá var komið að ísnum 2 mílur út af Súgandafirði.

Miðvikudaginn fyrir skírdag, 6. apríl og fram á laugardag var verið að veiðum við tregan afla í misjöfnu veðri út af Dýrafirði. Á laugardag var siglt upp og komið í Önundarfjörð kl. 8 á páskadagsmorgun og lagzt á Flateyrarhöfn eftir hádegi. „30 faðmar úti af bakborðskeðju“. Kl. 5—6 rok. „Látið falla stjórnborðsakker. 50 faðmar úti af b.b.k. 30—40 af st.b.- keðju“. Það var ekki fyrr en á þriðja dag páska sem farið var að sækja vatn, kol og beitu. Þá var tekinn tveggja vikna kostur og síðan siglt út. Komið var að ísnum á fimmtugu út af Súgandafirði og siglt vestur með í þungavindi austan með kafaldséljum. Norður af Arnarfirði var lagzt til veiða. En strax næsta dag varð að létta frá ísnum. Þá var aftur lagzt norður af Blakknesi um hádegisbil, dregnir 6 hákarlar en „létt frá ísnum“ um kvöldið og siglt vestur. Undir morgun á föstudag var „lagzt á 120 SO t S á Látrabjarg".Þar veiddust svo 32 hákarlar það sem eftir var sólarhringsins. Á laugardaginn hvessti með kafaldsfjúki og var kominn stormur um kvöldið. Straumur var svo harður, að ekki hafðist botn þegar harðast var fallið. „Pertlínunni stikkað á enda.“

Sunnudaginn 17. apríl var stormur, kafald og frost en þó höfðust 16 hákarlar fram að nóni en upp úr því var „hætt að hafa úti línu. Ekki mögulegt að eiga við hákarl.“ En Páll var búinn að fá nóg af því síðustu vikurnar að hrekjast úr einum stað í annan. Hann ætlaði sér að „liggja af sér garðinn“ og halda veiðunum áfram þegar lægði. Hásetum Páls sumum þótti þetta tiltæki ofdirfska, einkum vegna þess, að þeir vissu ísinn nærri, enda urðu þeir varir við ísjaka á reki framhjá með kvöldinu. Grettir lá með þrírifað stórsegl og legustrenginn allan úti. Þá var það um kvöldið að þeir skipverjar sáu ísjaka mikinn stefna beint á skipið. Sá jaki var svo stór, að þeim virtist hann ná upp í mitt mastur. Sáu þeir skjótt hvers vænta mætti ef sá jaki héldi stefnu sinni og skipið biði kyrrt. Einn hásetanna, Páll Jósúason úr Skálavík, mundaði haka og bjó sig til að halda skipi og jaka í sundur með honum. Páll Rósinkransson vildi ekki bíða átekta og lét draga upp fokkuna og tókst honum þá að víkja skipi sínu til, svo að jakinn mikli skreið aftur með borðinu. Í dagbók sína hefur hann svo skrifað. „Kl. 10 sézt ísjaki fara hjá. Farið að létta.“ Skipverjum Páls þótti það ekki of snemmt að byrjað væri að létta en það var ekkert áhlaupaverk í því veðri og sjógangi, sem þá var. í dagbók skipsins er veðri svo lýst að verið hafi rokstormur austan, kafald og ákaflega mikið frost. Stóðu menn í léttingunni lengi nætur. Meðan á þessu stóð sáust af og til ísjakar á reki. Einn köggull sást beint framundan og bar að stefninu. Þá sagði Guðmundur Bjarnason: „Skyldi hann ekki fara nógu nærri þessi?“ Páll skipstjóri bað hann hugsa um sitt verk. En þegar þennan jaka bar að stefninu og undir bugspjótið, hjó skipið í báru og kvað við brestur mikill. Vissu menn ógjörla hvað brast svo hátt. Kallaði einhver háseta litlu síðar að sjór væri kominn í hásetaklefa og héldu sumir að hann óttaðist að skipið hefði meiðst til skaða. Svo var þó ekki, að neinar skemmdir væru á skrokknum á Gretti gamla. Dagbókin segir svo frá:

„í léttingunni kom ísjaki undir spruðið og á stefnið og brotnaði spruðið en hangir þó saman. Búið að létta nema 40 föðmum af pertlínunni, sem látið er drífa fyrir.“ Síðar er þess svo getið að hafi verið „beygður drekinn, sem allur var uppréttur þegar létt var.“ Það var ekki fyrr en á fimmtudag sem „brotnar spruðið.“ Þá var haldið heim á leið og daginn eftir „farið að útbúa spruð úr ár. Heistur klýfur.“ Á laugardagskvöld var svo lagzt á Flateyrarhöfn. Aflinn eftir 26 daga var þá aðeins 47 ½  tunna.

Að kvöldi dags 10. ágúst 1898 sigldi Grettir út Önundarfjörð. Gekk á ýmsu með veður næstu daga en þó var legið á hákarli út af Hornströndum og Húnaflóa. Laugardaginn 20. ágúst var lagzt á níræðu og „Hornbjarg í V t S.“ Þar veiddust 38 hákarlar á sunnudaginn og 13 aðfaranótt mánudags. Þá er „kominn þungavindur austan“ en samt veiðast 6 hákarlar framan af deginum. „Kl. 11 springur forhlauparinn, dreginn inn pertlínan. Heist tvírifað stórsegl, stormklýfur og fokka og siglt í vestur.“ Veðri er svo lýst að um miðjan dag hafi verið þokuloft og regn, síðan stormur og var þá stórseglið þrírifað en með kvöldinu gerði rokstorm og gekk í norðaustur og fylgdi því veðri kafaldsbleyta. Helgi Andrésson skipstjóri lá nærri Gretti á Sigríði þenan dag og sigldi upp um líkt leyti og þeir Grettismenn. Sigldi hann viðstöðulaust vestur fyrir Rit og inn í Ísafjarðardjúp. Hann á að hafa sagt þegar Grettir setti upp og sigldi af stað: „Hvað skal nú Páll ætla?“ í dagbók Grettis þetta kvöld segir svo: „Kl. 9 peilast Kögurinn S t O ½  míla frá landi. Hann sást ekki fyrr.“ Þegar ég sagði Guðmundi á Tannanesi frá þessari bókun sagði hann: „Það var nú enginn að peila þá. Það var nú ekki lengra upp í fjöruna en þarna að móhlaðanum.“ Mér virtist fjarlægðin að móhlaðanum vera innan við 100 metra. Það mun og vera rétt að fjarlægðin frá Iandi hafi verið ákveðin af sjónhendingu þegar Kögurinn birtist og hvítur brimskaflinn reis í rökkrinu fram undan skipinu. Páll var sjálfur undir stýri og lagði þegar yfir enda segir dagbók hans nú: „Siglt í NV. Kl. 10 lagt til drifs hérumbil 1 ½  mílu út af Straumnesinu. Kl. 11 ½  kom brotbára sem kantraði skipinu, jullan fór út og pertlína og forhlaupari og margt fleira og segl sem voru í lestinni skemmdust af grút, svo þau munu vera ónýt.“ Guðmundur Bjarnason var í rekkju sinni þegar skipið fékk þetta áfall. Vaknaði hann við þegar skipið kastaðist til og sjórinn fossaði niður. Kom honum þá fyrst í hug hvort þeir myndu vera komnir upp í fjöru og snaraðist upp á þiljur. Þar var þá óglæsilegt um að lítast. Skipið lá á hlið með lunningu í kafi, en skipsbáturinn fullur af sjó rambaði á lunningunni. Guðmundur á Tannanesi sagði mér svo frá að nafni sinn hefði stungið sér til sunds niður í lúkarinn hálffullan af sjó og kafað þar eftir kokksöxinni, komið upp með hana og höggvið julluna frá þeim hið skjótasta. Sjálfur vildi Guðmundur Bjarnason ekki heyra að hann hefði þurft að grípa til sunds eða kafa en hitt kannaðist hann við, að hann hefði sótt öxina og losað bátinn. Hitt er ekki ólíklegt að þeim félögum hans sumum hafi hrosið hugur við að sjá hann hverfa niður í myrkrið í hálffullan klefann. Þess má geta hér, að þegar þetta var, hafði Guðmundur Bjarnason lært sund í Reykjanesi hjá Ásgeiri Ásgeirssyni frá Arngerðareyri, sem síðan var lengi prestur í Hvammi í Dölum. Sagðist Guðmundur hafa orðið óragari við sjó og vatn eftir veru sína þar. Man ég, að hann tók einhverntíma til orða á þessa leið: „Ég var um tíma ekki mikið sjóhræddur“. Þá lét hann líka orð falla á þá leið, að horfur yrðu varla tvísýnni en í Straumnesröst á Gretti í þetta sinn. Þegar Grettir losnaði við skipsbátinn réttist hann við. En framhald dagbókarinnar eftir að getið er áfallsins er svo: „Pumpað var í klukkutíma þar til pumpan var lens. Það allra fyrsta sem hægt var, var lagt yfir með fokkunni og svo gjört við í lestinni sem aflaga fór og svo heist rifuð stagfokka og stormklýfur og siglt í V t N til kl. 6 ½ . Til kl. 7 ½  siglt í suður. Kl. 7 ½   siglt í suður. Kl. 7 ½  sést Sléttanes í SO hér um bil ½  míla undan landi. Siglt inn Arnarfjörð.“

 Þar er nú skemmst frá að segja að ferðinni var ekki létt fyrr en lagzt var á Bíldudalsvogi. Var fenginn skipsbátur að láni og maður keyptur til að fara vestur á Patreksfjörð með bréf til sýslumanns, þar sem hann var beðinn að skipa menn til að meta skemmdir á skipinu. Sendimaður kom um hæl með bréf frá sýslumanni, þar sem hann skipaði matsmennina, Þorkel Magnússon, skipstjóra og Kristján smið Kristjánsson. Þeir virtu skemmdir og skaða á skipinu 2100 krónur.

 

Hér verður nú staðar numið. Þessi brot sem hér er gripið í, sanna það að minni hyggju, að gamlar bækur eins og þessar siglingabækur, eru örugg og margfróð heimildarrit í látleysi sínu og ísköldum búning. Þær fylla þá mynd sem við eigum fyrir af hetjum skútualdarinnar, mönnum þeim, sem hrundu einna örast fram á leið efnahagsþróun þjóðarinnar, því að vafasamt er að nokkurntíma hafi þar munað örar og meira hlutfallslega en á skútuöldinni. Það voru mennirnir, sem stóðu skýlislausir við stýri, hjuggu klakann af skipi sínu, „láu af sér garðinn“ og strituðu lengi nætur við að létta, sem nytjuðu Íslandsmið og fluttu björg í bú. Okkur er skylt að varðveita sem gleggsta og sannasta mynd af þessum þætti íslenzkrar atvinnusögu. Allar þær heimildir, sem stuðla að því að svo geti orðið, hljóta að vera okkur kærar.

Fyrri síđa
1
2345Nćsta síđa
Síđa 1 af 5
« 2017 »
« Nóvember »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    
Vefumsjón