Munur og mynd er sýning á völdum munum sem safnið setti upp haustið 2018. Sýningastjórn var í höndum Jóns Sigurpálssonar fyrrverandi forstöðumanns safnsins sem valdi nokkra muni úr safnkostinum sem er mikill og fjölbreyttur. Munirnir sem valdir voru eiga það sammerkt að eiga sér sína sögu og ekki síður sögu persónanna sem eru á bak við munina. Sýningin er hugsuð sem upphaf að sýningaröð í framtíðinni sem unnin verður með skráningarvinnu muna safnsins í átaki næstu ára.
Kistill
„Þegar skúffan var látin að opinu á kassanum seig hún sjálfkrafa niður með ofurlitlum súg“, skrifar Elín Sigríður Halldórsdóttir, ekkja Jóns Þorkels Ólafssonar, sem smíðaði kassann. Jón lærði trésmíðaiðnina á Ísafirði og skilaði sveinsstykki sínu, kassanum, í september 1900. Kassinn er mikil völundarsmíð og ber höfundinum fagurt vitni. Jón var bróðir Rögnvaldar Ólafssonar, oft nefndur fyrsti íslenski arkitektinn, höfundur að mörgum fegurstu byggingum 20. aldar á Íslandi. Jón Þorkell stundaði iðn sína á Ísafirði allan sinn starfsaldur. Ísfirðingar kvöddu 74 ára „sjaldgæfan sæmdarmann og virðulegan borgara“ í september 1953. Svo áfram sé vitnað í minningarorð um Jón í blaðinu Skutli þá kemur fram að „Yfir honum hvíldi óvenjuleg birta, - heiðríkja hins trúa og heiðarlega manns, sem aldrei mátti vamm sitt vita.“ Árið 1955 gaf Elín Sigríður vinkonu sinni Helgu Ingólfsdóttur kistilinn með bréfi því til staðfestingar. Svo líða árin. Helga færir systur sinni Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn og mági Kristjáni Eldjárn kistilinn að gjöf árið 1980 í tilefni að því að þau hjón fluttu að Staðarstað, Sóleyjargötu 1 í Reykjavík. Það virðulega hús var teiknað af Rögnvaldi, bróður Jóns. Í febrúar 2009 færðu Helga Ingólfsdóttir og börn Halldóru og Kristjáns Byggðasafni Vestfjarða kistilinn að gjöf.
Smásjá
„Nú er ég hættur að lækna mannfólk, þarf því ekki á þessum tólum að halda“. Með þessum orðum mun Vilmundur Jónsson, héraðslæknir og síðar landlæknir hafa afhent vini sínum og nágranna við Silfurgötu á Ísafirði, Helga Árnasyni smið, þegar hann afhenti honum smásjánna. Sjáin virðist hafa farið á milli manna í götunni því annar nágranni þeirra, hálf-norskur Sverre Hestnes, hreppti djásnið næst. Kynnum við nú til sögunnar Ágúst Níels Jónsson lækni. Þegar Ágúst er langt kominn í læknanáminu fær hann smásjánna að gjöf frá Sverre, sem hann kynntist í sínum uppvexti á Ísafirði. Frá Ágústi og fjölskyldu hans er smásjáin komin til safnsins en hann lést árið 2004. Vilmundur var settur héraðslæknir árið 1919, hann sinnti því þangað til hann varð landlæknir árið 1931. Hjónin Vilmundur og Kristín voru áberandi í bæjarlífinu á meðan fjölskyldan bjó á Ísafirði. Það má segja að fyrir áeggjan Vilmundar þá hafi verið ráðist í stórvirki þess tíma að reisa sjúkrahús og kúabú með lýðheilsu að leiðarljósi.
Borð og stóll.
Bárður G. Tómasson, skipaverkfræðingur er upphafsmaður að stofnun Byggðasafns Vestfjarða. Upphafið má rekja til ársins 1939 þegar hann hvetur, í blaðagrein, samborgara sína til að sameinast um að láta byggja sexæring með öllum fargögnum, sem yrði fyrsti vísir að héraðs- og sjóminjasafni byggðarlagsins. Sexæringurinn er til sýnis í Ósvör og er gripur safnsins númer eitt í aðfangabók. Bárður var fæddur að Hjöllum í Skötufirði árið 1885 og andaðist á Ísafirði árið 1961. Barnungur fluttist hann í Kollafjarðarnes í Strandasýslu með móður sinni og elst þar upp hjá móðurbróður sínum, Guðmundi Bárðarsyni. Guðmundur var frábær bátasmiður og þar kynntist Bárður fyrst þeirri iðngrein. Stórbrotnasti velgjörðarmaður safnsins í seinni tíð er án vafa Hjálmar Bárðarson, sem tók við keflinu af föður sínum. „Fegurðin í hinu smáa“ má segja um þessa fallegu hluti. Árið 1988 kom Hjálmar færandi hendi eins og svo oft áður og færði safninu þessa gullfallegu muni. Í fylgiskjölum kemur fram að Bárður hafi smíðað mublurnar, sem hér eru til sýnis, einungis 8 eða 9 ára gamall en það má gefa sér að Guðmundur frændi hans hafi komið þar eitthvað nærri.
Skjóðan.
Skjóða og skildingur eru meðal margra góðra gripa í eigu safnsins. Skjóðan er úr eltiskinni og skildingurinn er sænskur ríkisdalur frá 1790. Þessir gripir láta ef til vill ekki mikið yfir sér og ekki eru þeir frekir á plássið. Engu að síður tengjast þeir merkilegum þætti í sögu Ísafjarðar, og sjósóknarsögu landsins. Gripirnir tengjast nefnilega sjómannaskólanum sem starfræktur var á Ísafirði á árunum upp úr 1850 og er fyrsti vísir að sjómannafræðslu hér á landi.
Torfi Halldórsson er oft nefndur faðir Flateyrar. Torfi var fæddur að Arnarnesi við Dýrafjörð árið 1823. Hann kemur 34 ára til Flateyrar og kaupir, ári síðar, hinar svokölluðu Flateyrareignir. Hann rak umfangsmikla útgerð, verslun og búskap á Flateyri og lengi í samvinnu við félaga sinn Hjálmar Jónsson.
Þegar útgerð þilskipa hófst hér á landi snemma á 19. öld varð fljótt ljós þörfin á því að þeim stýrðu menn, sem hefðu lært a.m.k. grunnatriði í siglingafræði og öðru því sem að skipstjórn lýtur. Varð niðurstaðan sú að stofna skyldi sjómannaskóla á Íslandi. Í framhaldi af því stofnuðu þilskipaeigendur á Vestfjörðum með sér félag til styrktar skólanum og átti hver skipseigandi að leggja peninga til skólasjóðs í samræmi við afla skipanna. Viðbrögð í öðrum landsfjórðungum urðu aftur á móti lítil og fór svo að Vestfirðingar voru einir um að sinna þessu máli.
Það var ljóst að engrar aðstoðar væri að vænta frá hinu opinbera árið ákváðu þilskipaeigendur að senda Torfa Halldórsson til Danmerkur til vetursetu og nema siglingafræði. Farareyrinn geymdi hann í skjóðu úr eltiskinni og við lok námstímans hafði gengið svo á féð að hann átti ekki nema einn sænskan ríkisdal frá 1790 eftir. Hefur dalurinn æ síðan verið geymdur í skjóðunni.
Sjómannaskólinn á Ísafirði hóf starfsemi í október 1852. Þetta var fyrsti skólinn á Ísafirði og fyrsti starfsgreinaskólinn á Íslandi sem sinnti öðru en menntun embættismanna. Torfi Halldórsson var eini kennarinn við skólann og bar ásamt Ásgeiri Ásgeirssyni hitann og þungann af starfsemi hans alla tíð.
Sjómannaskólinn á Ísafirði starfaði aðeins í fjóra vetur. Árið 1857 flutti Torfi Halldórsson til Flateyrar og hóf kennslu þar, en við brottför hans féll sjómannakennsla á Ísafirði niður. Þrátt fyrir stuttan starfstíma var Sjómannaskólinn merkilegur fyrir margra hluta sakir. Hann var fyrsti skóli sinnar tegundar á Íslandi og eflaust hefur hann bætt úr brýnni þörf á lærðum þilskipaformönnum.
Brennivínspeli.
Glerpeli, líklega brennivínspeli, merktur A. Andresen, er einn af skemmtilegri gripum safnsins. Hann er sérkennilegur í laginu og getur t.d. ekki staðið uppréttur, sem kannski er táknrænt. Það er eins og tilvera hans miðist við að vera í jakkavasa. Pelinn er sagður hafa verið í eigu O.M. Andreassen, sem var skipstjóri á hinu merkilega skipi Ásgeirsverslunar, „Ásgeiri litla“.
Í tilefni af 50 ára afmæli íslenskra gufuskipa birtist grein í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1940, þar er lítillega greint frá „Ásgeiri litla“. Þar kemur m.a. fram að báturinn var aðeins 17 rúmlestir nettó að stærð og var nær eingöngu notaður til þess að flytja póst, fólk og varning um Ísafjarðardjúp. Í bátnum voru engin rúm fyrir farþega, en í káetu voru stoppaðir bekkir, sem 20 menn gátu setið á. — Ferðir sínar byrjaði báturinn venjulega í aprílmánuði og hélt þeim áfram fram í október, en þá var hann settur upp á kamp og geymdur þar yfir veturinn. „Ásgeir litli“ hélt þessum ferðum uppi allt þangað til 1920.
Að auki var Ásgeir litli í áætlunarferðum norður í Hornvík og víðar í þjónustu fyrir eigendur sína Ásgeirsverslun eins og fyrr segir.
Aftur að pelanum. Hver var þessi O.M. Andreassen eigandi pelans. Eftir stutta athugun kom í ljós að hann var norskur að uppruna frá Tunsbergi. Olaf Marinius var seglasaumari að mennt og starfaði hjá Ágeirsverslun. Andreassen tók við skipstjórninni á „Ásgeiri litla“ upp úr aldamótunum 1900. Í ársbyrjun 1916 er fráfall hans tilkynnt í blaðinu Vestra. „Andreassen var iðju og ráðvendnimaður og vann sér góðan þokka þeirra sem kyntust honum“. Eiginkona hans Anne Marie og sex börn þeirra fluttu til Reykjavíkur skömmu eftir andlát hans.
Betúel Betúelsson fæddist að Dynjanda í Grunnavíkurhreppi 1857. Kona hans var Anna Guðmundsdóttir. Þau hófu búskap norður í Höfn í Hornvík vorið 1895 og áttu þar heimili til ársins 1934, eða í nær 40 ár. Áður hafði Betúel búið í Þverdal í Aðalvík, Tungu í Fljóti og Hesteyri. Úr Hornvík flutti Betúel og Anna til tveggja barna sinna suður að Kaldá í Önundarfirði, þar lést Betúel árið 1952.
Sonur Betúels, Sölvi, afhenti safninu pelann að gjöf 1958 og lætur þess getið að O.M. Andreassen hafi gefið Betúel Betúelssyni bónda og verslunarstjóra Ásgeirsverslunar í Hornvík pelann í sinni síðustu ferð þá líklega um 1914.
Þetta er í grófum dráttum sagan á bakvið pelann. Ein spurning situr þó eftir. Pelinn er glerskorinn með ankeri í laufskrúði á annarri hliðinni. Á hinni hliðinni eru tveir fuglar fljúgandi yfir nafninu A. Andresen, sem hins vegar er ekki vitað hver var.
Roðskór.
Roðskór voru þeir skór kallaðir sem búnir voru til úr Steinbítsroði. Best þótti roð af stórum Steinbít til skógerðar. Best þótti roð af Úlfsteinbít, en svo kallast mjög stór steinbítur. Þessi steinbítur var eftirsóttur af vermönnum, og mun þar mest um hafa ráðið, að af þessum steinbít fékkst skæði í tvenna skó. Fremri hlutinn í fullstóra skó, aftari hlutinn í minni skó, þá venjulegu á krakka og unglinga.
Það var verk húsmæðranna að sjá um að hafa roð í skó tiltækt, er þess þurfti. Venjulega voru það vinnukonurnar, er sniðu og saumuðu roðskóna. Fyrir vana tók ekki langan tíma að gera hverja roðskóna. Roðskór entust illa, þurfti því að búa til mörg pör, daglega á sumum heimilum.
Það mun hafa þótt nauðsynlegt að vita, hvað roðskór entust vissar vegalengdir, því skólaus maður er vegalaus, þetta mun hafa verið ástæðan fyrir því, að vegalengdir voru mældar í roðskóaleiðum, talað var um tveggja, þriggja, fjögra, fimm og sex roðskóleiðir, var þá átt við þá leið er farin var fram og til baka. Látraheiði á Vestur-Barðaströnd er sex roðskóaleið, það er fjallvegurinn frá Hvallátrum bakatil við Látrabjarg að Keflavík. Alltaf voru hafðar með roðbætur til að leggja inn í skóna, ef þurfti.
Heyrst hefur að þegar roðskórnir voru orðnir gatslitnir, ónýtir sem skór, voru þeir kallaðir umvörp. Umvörp voru lögð í bleyti, síðan voru þau þvegin og skafin upp úr mörgum vötnum og svo soðin upp úr soði af hangikjöti og borðuð með hangifloti. Þannig var það, er harðæri og hungur steðja að okkur elskulega landi elds og ísa. Ekki voru aðrar tegundir af skóm hafðar til matar.
Barnsroðskórnir sem hér eru til sýnis eru gerðir af Magðalenu Össurardóttur frá Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði. Skórnir eru úr Steinbítsroði og eltiskinnsþvengjum með illeppum. María var frá KoIIsvík í Rauðasandshreppi. Hún var elst tólf alsystkina fædd 1893.
Forlögin höfðu víst ætlað Magðalenu að setjast að í Dýrafirði. 1929 giftist hún Kristjáni Davíðssyni í Neðri-Hjarðardal og fluttist þangað. Þar bjuggu þau í 41 ár, fyrst með bróður Kristjáns, Jóhannesi, og síðar auk þess með syni sínum, Bjarna, og hans fjölskyldu. Kristján og Magðalena eignuðust fjögur börn sem upp komust, hún lést á Þingeyri 1988 og var fulltrúi þeirra kynslóðar sem vann þjóðina upp úr aldagömlum vinnubrögðum og lífskjörum til nútímasamfélags vélvæðingar og neyslu.
Svipan.
Nokkuð er varðveitt af gömlum svipum og keyrum. Járngerður Eyjólfsdóttir frá Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði var eigandi svipunar sem hér er sýnd. Járngerður féll frá í blóma lífsins aðeins 43 ára árið 1924. Eftirlifandi maður hennar var Bernharður Guðmundsson, stýrimaður og bóndi á Kirkjubóli, hann lést tæplega níræður árið 1968.
Svipusmiðurinn var Guðmundur Jónsson frá Mosdal. Guðmundur var starfandi myndskeri og kennari á Ísafirði um langt árabil. Hann andaðist þar á 70. aldursári árið 1956. Guðmundur fæddist í Villingadal á Ingjaldssandi, hann missti föður sinn barnungur og ólst hjá nafna sínum og frænda í Mosdal. Guðmundur kom aldrei í barna- eða unglingaskóla. En snemma mun Guðmundur hafa lært á bók og lesið allt sem hann náði í, enda voru fáir honum auðugri að þekkingu á íslensk fræði, forn og ný. Á uppvaxtarárum, stundaði Guðmundur öll algeng störf í sveit og á sjó.
Snemma fór hann. að fást við smíðar og var ungur rómaður fyrir hagleik. Hann stundaði nám í myndskurði í Reykjavík árið 1916 sama ár og hann fluttist til Ísafjarðar þar sem hann bjó til æviloka.
Guðmundur dvaldist um hríð í Noregi og Danmörku og kynnti sér þar myndskurð. Árið 1929 gerðist Guðmundur fastur handavinnukennari við Barnaskólann á Ísafirði, og gegndi hann þeirri stöðu allan sinn starfsaldur. Árið 1944 lauk hann við að byggja hús sitt Sóltún á Ísafirði. Byggðasafn Vestfjarða var ein af þeim hugsjónum sem Guðmundur vann mikið fyrir og ánafnað byggðasafninu húseign sína Sóltún o.fl.. Guðmundur mun hafa ætlast til að safnið yrði haft í húsinu, en til þess var það þó ekki hentugt. Húsið var selt og andvirði þess notað í þágu safnsins. Má því með sanni segja, að framlag hans er undirstaða safnsins eins og það er í dag.
Teskeið.
Hvað er svona merkilegt við eina litla teskeið? Jú, hana átti heiðurskempan, Otúel Vagnsson. Otúel var borinn í þennan heim árið 1834. Í bernsku ólst hann upp hjá föður sínum að Dynjanda í Jökulfjörðum. Þegar hann stálpaðist var honum komið fyrir hjá hjónunum í Neðri-Arnardal við Skutulsfjörð. Hann fermdist í Ísafjarðarkirkju vorið 1849 og að því tilefni fær hann þann vitnisburðað hjá hinum merka klerki Hálfdáni Einarssyni að „vera læs og sæmilega vel að sér en hegðun í meðallagi“. Með þessum vitnisburði tengjum við skeiðina við klerkinn sem mynd er hér af.
Otúel varð samtíðarmönnum sínum einkar minnisstæður fyrir frábæra hæfni í grjótkasti og skotfimi, en ekki síður fyrir gort og skringilegt látbragð, einkum þegar hann var hreifur af víni, sem ósjaldan átti sér stað. Þar sem heiðurskempan sá ekki ástæðu til að sinna þeim hégóma að láta ljósmynda sig þá verðum við að sjá hann fyrir okkur eftir einni samtímalýsingu en þar er honum svo lýst að ytri sýn. Hann hafi verið „lágur maður vexti, en þrekinn og mikill um herðar, enda hraustmenni. Dökkur á hár og skegg en hærðist snemma. Dökkeygur og vel farinn í andliti. Snar og mjúkur með eindæmum, svo að því líkt var, sem skrokkurinn væri allur ein liðamót, ef svo mætti segja“. Gort Otúels og yfirlæti þótti oft taka út yfir allan þjófabálk, ásamt skringilegum tilburðum og framkomu. Hnippti hann þá óspart í menn, til áherslu orðum sínum og veifaði handleggjunum ótt og títt, með fettum og brettum, sem ávallt vöktu mikla kátínu þeirra sem á horfðu.
Metnaðarfullur var Otúel og virðingagjarn, sem kom meðal annars fram í því að hann var gjarn á að viðra sig upp við embættismenn og aðra þá, sem meiri háttar voru taldir í þjóðfélaginu. Skemmtileg lýsing er til af Otúel. - Bráðlyndur var Otúel og fljótur að skipta skapi, en manna sáttfúsastur og gleyminn á mótgjörðir, hver sem í hlut átti, greiðvikinn og hjálpfús við náunga sinn. Otúel var lítt eða ekki læs, að heitið gæti, en átti þó nokkuð að bókum og geymdi þeirra vel, enda snyrtimenni bæði í klæðaburði og allri umsýslu. Í bókaeigninni kom fram metnaður hans, þótt hann hefði hennar lítil not, eins og í hinu, að iðulega kærði hann sveitarútsvar sitt til hækkunar, þegar honum fannst það of lágt í samanburði við aðra, sem hann áleit sig standa jafnfætis eða meir. Trúlega myndi skattheimtumönnum þykja slíkur metnaður góður eiginleiki, nú á tímum.
Um eða innan við tvítugt hefur Otúel sennilega farið í vinnumennsku inn í Djúp. Þar kynntist hann konu sinni Dagmeyju, ættaðri úr Álftafirði þau Otúel og Dagmey giftu sig árið 1856. Engin meðalmaður hefur heiðurskempan verið á brúðkaupsdaginn því hann færði brúði sinni í morgungjöf 20 ríkisdali sem líklega hefur verið aleiga hans. „Hvað er ekki gerandi fyrir slíka heiðurs maddömu“, var haft eftir Otúel. Einn son eignuðust þau hjón sem lést ungur og var þeim eðlilega harmdauði.
Verðlaunabikar.
Safninu barst gjöf frá ættingjum Kristjáns Hjaltasonar í Danmörku árið 2016. Fyrir hönd þeirra kom Stella Hjaltason færandi hendi með verðlaunabikar og smokkfisköngul. Kristján forfaðir Stellu vann bikarinn fyrir frumkvöðlastarf við smokkfiskveiðar í Ísafjarðardjúpi árið 1876. Það voru sveitungar Kristjáns í Álftarfirði sem sameinuðust um að veita honum verðlaunin. Bikarinn var gerður af Ásbirni Jakobsen gullsmið í Danmörku en Ásbjörn var fæddur í Hafnarfirði 1813 og var sonur hins danska Jakobsen faktors og Ástu Ásbjörnsdóttur. Ásbjörn dó í Kaupmannahöfn 1879.
Smokkfiskur hefur lengi verið talinn kjörbeita eins og sagt er. Smokkurinn var einnig nefndur hala- eða blekfiskur. Um það leyti sem Kristján fær bikarinn eru umtalsverð þáttaskil í beituöflun, þá ekki síst á Vestfjörðum og norðanlands þegar áhaldið til að veiða þennan kjörfisk kemur upp í hendurnar á Vestfirðingum. Sú atburðarrás er rakin til þess að áhöfn á frönsku fiskiskipi gefur Jóni nokkrum Johnsen frá Tálknafirði smokkfisköngul. Jón reynir sig með öngulinn og verður nokkuð ágengt þannig að Einar Gíslason í Hringsdal í Arnarfirði heyrir af því og fær nokkra öngla hjá Jóni.
Víkur nú sögunni að Kristjáni Hjaltasyni. Kristján mun ekki hafa verið við eina fjölina felldur í áhugamálum sínum. Sumarið 1876 fór hann í rannsóknarferð suður á Rauðasand á Barðaströnd við forleifagröft en Kristján var mikil áhugamaður um þau fræði og var félagi í hinu íslenska fornleifafélagi. Á heimleiðinni kemur hann við hjá Einari í Hringsdal og kemur að þar sem Einar er að rogast með smokkfiskafla úr einum róðri þetta vekur áhuga Kristjáns sem fær öngul frá Einari sem hann kynnti fyrir sveitungum sínum og síðar Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið í Æðey sem hóf fjöldaframleiðslu á þeim og seldi fyrir 2 krónur stykkið.
Það má með sanni segja að örlagaþræðir mannsins eru margvíslegir. Kristján Hjaltason var fæddur í Nauteyrarhreppi við Djúp árið 1853 og var barn utan hjónabands. Kristján fluttist til Súðavíkur og sagður formaður í manntali 17 ára gamall 1870. Tíu árum seinna er Kristján titlaður skipstjóri búsettur í Neðstakaupstað á Ísafirði. Kristján hefur líklega verið skipstjóri á einu af fiskiskipum Saasverslunar undir stjórn Vilhelm Johans Holm faktors. Bygginganefnd Ísafjarðarkaupstaðar tekur fyrir erindi Kristjáns um byggingu íveru- og bræðsluhúss við Mjógötu sem svo er nefnd í dag. Ekki fékkst leyfi fyrir bræðsluhúsinu sem var valin annar staður. Hafist var handa við íbúðarbygginguna. Nú ber svo við að Hjalti, faðir Kristjáns kaupir og tekur við húsinu, stækkar og breytir því og var eftir það í daglegu tali nefnt Hjaltahús. Um þetta leyti hefur Kristján flust af landi brott og sest að í Noregi. Það fréttist af Kristjáni að hann hafi hlotið verðlaun fyrir saltfisk sinn á sýningu þar í landi um 1892 og svo var hann á sýningu í Björgvin og þá sagður búsettur í Gróttu á Hálogalandi og sýndi m.a. fiskilínu í kassa sem rakti sig sjálf og sýnishorn af hjalli til að þurrka saltfisk. Það er ljóst að Kristján hefur ekki slegið slöku við í uppfinningum og lést 63 ára gamall í Noregi 1916.
Hvað með þennan bikar og öngul. Fyrstu önglarnir reyndust ágætlega fyrir smáan smokk, en þeir þóttu ekki loða nógu vel vegna þess hversu léttir þeir voru. Sökkunni var því breytt og hún stækkuð og þyngd. Þar sem veiðarnar voru mestar eins og í Ísafjarðardjúpi, Steingrímsfirði og Arnarfirði voru veiðiaðferðirnar mjög svipaðar. Olíulugt með rauðmáluðu gleri var látin hanga utan á borðstokknum eða upp í mastri svo það lýsti út frá bátnum. Í tauminn voru settir minnst tíu önglar og sökkurnar hafðar í sterkum litum sem glysgjarn fiskurinn sótti í og þá helst í dimmingu kvöldsins eða um birtumótin á morgnana.