Sýningin fjallar um og miðlar lífi verkafólks í landi, og þá sérstaklega þeirra sem unnu í fiskvinnslu. Sviðið er sett á tímabilið frá 1890 – 1941, árin eru uppgangstími í þéttbýlismyndun á norðanverðum Vestfjörðum.
Leiðsögumaður sýningarinnar er, Karítas Skarphéðinsdóttur. Hún segir eigin sögu en um leið sögu þess samfélags sem hún bjó í. Árin (1922-1938) sem Karitas bjó á Ísafirði voru hennar þróttmestu ár, þá barðist hún hart i verkalýðsmálum, fylgdi fyrst róttækari armi Alþýðuflokksins, en gekk i Kommúnistaflokkinn þegar hann var stofnaður.
Sýningin er tileinkuð þeim sem börðust fyrir mannlegra samfélagi og bættum lífskjörum almennings.
Karítas Skarphéðinsdóttir fæddist í Æðey við Ísafjarðadjúp þann 20 janúar árið 1890. Hún var dóttir hjónanna Petrínu Ásgeirsdóttur frá Látrum í Mjóafirði og Skarphéðins Elíasarsonar frá Garðstöðum í Ögursveit. Petrína móðirin lést úr lungabólgu nokkrum mánuðum eftir fæðingu hennar. Faðir Karítasar er skráður manntalinu 1890 sem tómthúsmaður á Laugabóli sem lifði af fiskveiðum.
Skarphéðinn kvæntist aftur 4 árum síðar Pálínu Árnadóttur, saman eignuðust þau fimm börn. Karítas ólst upp við svipaðan kost og alþýðufólk á fyrri alda gerði hér á landi, þó að tuttugasta öldin væri að hefjast. Einangrunin hefur verið mikil og utanaðkomandi breytingar höfðu ekki mikil áhrif á heimilisfólk. Karitas var mjög liðtæk til vinnu, þrátt fyrir ungan aldur og fíngerða vöxt. Barnafræðsla var ekki forgangsmál og sagðist hún sjálf hafa fengið tilsögn við lestur, skrift, reikning og kristinfræðslu í einn til tvo mánuði í kring um fermingu hjá prestinum.
Karítas var gefin Magnúsi Guðmundssyni aðeins sextán ára gömul, en Magnús byggði hús fyrir Skarphéðinn föður hennar að launum. Magnús var þrjátíu og sjö ára ekkjumaður sem átti 4 börn, hann þótti góður handverksmaður og vann ýmis störf fyrir eignafólk í sveitinni. Dag einn kom Magnús til hennar með hring og sagði: „Nú erum við trúlofuð, vina mín.“
Skarphéðinn faðir Karítasar, var himinlifandi með þennan ráðahag og taldi sig hafa tryggt framtíð hennar með þessu samkomulægi. Enda var Magnús bæði myndarlegur og traustur. En ljóst er að sýn Karítasar var önnur, enda lýsir hún þessu svona í viðtali sem tekið var við hana á efri árum; „hann var gamall maður og ég var óviti“.
Karítas og Magnús gengu í hjónaband 18 nóvember árið 1907. Baslið byrjaði strax en þó Magnús væri góður handverksmaður þá átti hann engar veraldlegar eigur. Þau eignuðust 10 börn, átta af þeim komust á legg.
Árin (1922-1938) sem Karitas bjó á Ísafirði voru hennar þróttmestu ár, þá barðist hún hart i verkalýðsmálum, fylgdi fyrst róttækari armi Alþýðuflokksins, en gekk i Kommúnistaflokkinn þegar hann var stofnaður. Sú alþýðumenntun sem Karítas hlaut, dugði henni vel síðar meir til að mæta bæði atvinnurekundum og stjórnmálamönnum þess tíma.
Alla tíð hafði setið í Karitas hvernig til þessa hjónabands var stofnað. Hún var aldrei spurð hvað hún vildi í þessum málum og var í henni beiskja sem að lokum leiddi til skilnaðar. Enginn sá hana nokkurn tíma rífast eða æsa sig. Þegar hún ákvað að skilja við Magnús árið 1936 fór hún hávaðalaust.
Tveimur árum eftir skilnaðinn árið 1938 missti hálfbróðir Karitasar sem bjó í Reykjavík, konu sína við barnsburð og bað Karitas að koma og aðstoða sig um stundarsakir. Þá flutti Karitas suður og var hjá honum um sumarið og flutti ekki til Ísafjarðar aftur.
Karítas var einn af stofnendum kommúnistadeildarinnar á Ísafirði og tók virkan þátt í pólitísku og fé- lagslegu starfi verkafólks. Eftir drjúgt dagsverk, þar sem hún ól tíu börn, vann úti og sinnti pólitík og réttindabaráttu.
Karítas lést á Hrafnistu árið 1972, lífstarf hennar skilaði árangri sem vert er að minnast, þráin eftir því að bæta og fegra samfélagið, þó ekki hafi henni alltaf verið þakkað fyrir.
Fjelagstíðindi við Djúp (sýningablað)
Sýningastjóratexti Helgu Þórsdóttur.
Í viðtali sem Margrét Sveinbjörnsdóttir tók við Sigurð Pétursson sagnfræðing í útvarpsþættinum Ég heiti Karitas Skarphéðinsdóttir var hann spurður hvort fólk á Vestfjörðum kannaðist almennt við Karítas og framlag hennar. Svar hans var einfaldlega: „Nei“ — almúgakonur frá fyrrihluta tuttugustu aldar eru ekki partur að hinni stóru söguklukkuskífu sem tikkar í rökréttu framhaldi, frá sekúndu, til mínútu og þaðan yfir í klukkutíma, eða frá Jóni Baldvinssyni til Jóns Baldvins Hannibalssonar.
Karítas er hér kynnt sem bæði táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma; hún er líkami konu sem ekki var ætlað að hafa sjálfsyfirráð yfir sjálfri sér. Þannig var skipt á henni og húsi þegar hún var aðeins 16 ára gömul. Femínistinn og heimspekingurinn Rosi Braidotti fjallaði í bók sinni Metamorphoses um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi, eins og fullyrða má um Karítas. Þar segir hún líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi. Þetta er sá kraftur sem hagnýtir sér líkama borgaranna til að keyra heimshagkerfið. Fjöldinn er háður valdi þessarra krafta og fer þannig, út frá túlkun Milans Kundera, með hlutverk innskotsins í hinu stóra samhengi valdsins. Kundera fjallar nánar um hugmyndina um innskotið í bók sinni Ódauðleikanum:
Innskotið er mikilvægt hugtak í verki Aristótelesar, Um skáldskaparlistina, Aristóteles er lítt hrifinn að innskotinu. Innskotstilburðir eru að hans dómi allra atburða verstir (ef litið er út frá skáldskaparlistinni). Þar sem innskotið er ekki nauðsynleg afleiðing þess sem undan er gengið og hefur engar afleiðingar í för með sér, stendur utan við þá atburðarás sem sagan er.
Ef við skoðum feril Karítasar í þessu samhengi, þá má velta því fyrir sér hvort hún hafi verið undirseld því hlutverki að vera innskot. Það er ljóst að hún tók á ferli sínum meðvitaða afstöðu til eigin lífs og aðstæðna og hún ákvað að leggja sjálfa sig undir sem farveg breytinga. Þetta átti bæði við um persónulegt líf hennar og þau átök sem hún átti í við utanaðkomandi öfl, í átökum hennar gegn valdboði og stofnunum valdsins. Halldór Ólafsson minnist hennar í grein í Þjóðviljanum með þessum orðum:
Karitas mun hafa talist kona i meðaliagi að vexti, grannvaxin og létt i hreyfingum. Hún hélt sig vel i klæðaburði, og fékk fyrir það glósur frá búrakörlum og öðrum, sem töldu að almúgafólk hefði engan rétt til að ganga sómasamlega til fara. Hún var ein af þeim, sem ekki lét baslið smækka sig. Hún kunni vel að koma fyrir sig orði og flutti mál sitt af einurð og festu.
Karítas Skarphéðinsdóttur sem persóna hefur greinilega ekki haft áhuga á því hlutverki sem innskotið býður upp á. Samtal hennar og virkni í umhverfinu hefði út frá því átt að skila henni meiru, eða varanlegum ódauðleika, umsvifalaust og áður en hold hennar náði að hrörna. Hún átti skilinn varanlegan stað á Íslandssöguklukkuskífunni.
Kundera gengur út frá forsendum Aristótelesar, en bætir síðan við þessu: „Ekkert innskot er fyrirfram dæmt til að vera innskot til eilífðarnóns, því hver atburður, jafnvel sá allra ómerkilegasti, býr yfir þeim möguleika að geta seinna orðið orsök annarra atburða, og breytast á þann hátt í sögu, ævintýri.
Ekki geri ég ráð fyrir að Karítas hafi ætlað að skilja eftir sig ævintýri, en sögu skildi hún eftir, sögu sem við hjá Byggðasafni Vestfjarða leggjum okkur fram við að segja í nýrri grunnsýningu safnsins. Hér reynum við að koma til skila samtali hennar við ráðandi öfl, samtali sem skilaði árangri til skemmri og lengri tíma í formi bættra lífskjara fyrir hönd vinnandi stétta. Söguklukkuvísinum er hér beint að konu sem átti ekki að vera neitt nema innskot — sem „hefur engar afleiðingar í för með sér, stendur utan við þá atburðarás sem sagan er — en tók í staðinn frumkvæði í viðleitni sinni til að stjórna eigin lífi. Með þessu átti hún þátt í að skapa rekjanlega atburðarás — ævintýri sem tikkar í rökréttu framhaldi frá Karítas Skarphéðinsdóttur til Bjarkar Guðmundsdóttur.