Sýningar

Árið 2004 / Heimastjórn 1904-2004

Með stjórnarskránni 1874 var löggjafarvaldið fært í hendur Alþingis Íslendinga. En það voru ekki allir landsmenn sáttir við að framkvæmdavaldið væri enn í höndum danskra ráðamann. 

Fljótlega komu því fram hugmyndir um að færa það í hendur Íslendinga enda hafði gengið á ýmsu í samskiptum Alþingis og þess ráðherra sem fór með Íslandsmál. Skömmu fyrir aldamótin 1900 kom þíða í samskiptin og þá lagði ungur þingmaður, Valtýr Guðmundsson, fram hugmyndir sínar um að ráðherraembættinu gegndi íslenskur maður þó að staðsetning þess yrði áfram í Kaupmannahöfn. Ekki voru allir sammála þessu og skiptist Alþingi í tvær fylkingar, Valtýinga og andvaltýinga sem síðar kynntu sig sem heimastjórnarmenn. Þeir töldu það ekki nægja að ráðherrann væri íslenskur heldur yrði hann jafnframt að sitja á Íslandi en í Kaupmannahöfn sæti fulltrúi með ráðherratign við hlið konungs. Tekist var á um málið í kosningum árið 1900. Fór svo að frumvarp Valtýinga var samþykkt á Alþingi og í kjölfarið fór Valtýr til Kaupmannahafnar með þá von í brjósti að verða skipaður ráðherra Íslands. En heimastjórnarmenn voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og sendu sinn fulltrúa til hafnar – manninn sem hafði samið frumvarp þeirra um heimastjórn. Þessi fulltrúi var þingmaður og sýslumaður Ísfirðinga – Hannes Hafstein.

Árið 2004 var sett upp sýning í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn.

Veggspjöld frá sýningunni má nálgast hér.

Upp