Sýningar

Árið 2002 / Verslan Á. Ásgeirssonar 1852 - 2002

Árið 2002 voru liðin 150 ár frá því að Ásgeirsverslun var stofnuð á Ísafirði og hlutu Byggðasafn Vestfjarða og Héraðsskjalasafnið á Ísafirði styrk úr Menningarborgarsjóði til að minnast þeirra tímamóta með nokkrum uppákomum.

 Hátíðin hófst í júní þegar opnuð var sögusýning um Ásgeirsverslun í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði, en það hús var í eigu verslunarinnar á sínum tíma. Var sýningin opin í allt sumarið og raunar allt til 30. nóvember. Áætlað er að á þriðja þúsund manns hafi komið í húsið sérstaklega til að skoða sýninguna, en umferð um húsið var mun meiri enda er þar rekið vinsælt kaffihús á sumrin.

 Þann 28. júní var haldin saltfiskveisla í Tjöruhúsinu. Ásgeirsverslun var á sínum tíma lang umsvifamesti útflytjandi saltfisks frá Íslandi og þótti því við hæfi að heiðra minningu fyrirtækisins á þann hátt. Það var boðið upp á hlaðborð saltfiskrétta sem flestir voru ættaðir frá helstu markaðslöndum Ásgeirsverslunar við Miðjarðarhaf. Hráefnið í réttina var sólþurrkaður saltfiskur sem breiddur hafði verið út og þurrkaður á fiskreit safnsins framan við Turnhúsið í Neðstakaupstað.  Tónlistarflutningur þetta kvöld var í höndum þeirra Vilbergs Vilbergssonar (Villa Valla), Páls Torfa Önundarsonar, Tómasar R. Einarssonar og Jóhönnu V. Þórhallsdóttur. Lögin voru ýmist íslensk eða suður-evrópsk. Að auki voru flutt erindi um Ásgeir Ásgeirsson og sögu verslunarinnar. Húsfyllir var þetta kvöld og gott betur, því stækka þurfti húsplássið með því að tjalda stóru samkomutjaldi framan við Tjöruhúsið. Komust þó færri að en vildu, en setja þurfti mörkin við tæplega 100 gesti.

 Þann 11. ágúst var kvölddagskrá í Tjöruhúsinu tileinkuð versluninni, þó einkum þekktasta verslunarstjóra hennar á Ísafirði, Árna Jónssyni faktor. Jóna Símonía Bjarnadóttir sagnfræðingur flutti erindi og tónlist var leikin. Þessi uppákoma var hluti af árlegri röð menningar- og skemmtiviðburða í Neðstakaupstað, „Sumarkvöld í Neðsta“ og var húsfyllir áheyrenda.

 Dagskrá þessa minningarárs lauk svo formlega þann 30. nóvember með samkomu í Tjöruhúsinu. Þennan dag árið 1918 var Ásgeirsverslun formlega lögð niður, daginn áður en Ísland fékk fullveldi. Af því tilefni var Jón Þ. Þór sagnfræðingur fenginn til að ræða um tengsl Ásgeirsverslunar við Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna. Á þriðja tug gesta var viðstaddur þessa dagskrá.

 Um leið og minningarárinu var formlega slitið voru tekin til sýningar símtól Ásgeirsverslunar, en fyrirtækið lét leggja fyrstu símalínu á Íslandi árið 1889. Annað tólið er í Faktorshúsi og hitt var sett upp í Tjöruhúsinu og voru þau tengd með loftlínu á staurum svo að hægt var að tala á milli þeirra.

 Hér er slóð á sýningarspjöld:

Upp