Veturinn 1898-1899 dvaldist í Kaupmannahöfn Sigfús Bjarnason, kaupmaður og konsúll á Ísafirði. Um það leyti voru bátamótorar mjög að ryðja sér til rúms í Danmörku, og vélaverksmiðjum á borð við Dan, Alpha og Möllerup óx fiskur um hrygg. Sigfús hreyfst af þessari nýju tækni og gerði ráðstafanir til að fá vél til Íslands, auk þess sem hann lét flytja til Ísafjarðar efni í bát. En það urðu tafir á því að Sigfús fengi vélina afgreidda, og í millitíðinni voru fleiri farnir að hugsa sér til hreyfings. Þeirra á meðal voru þeir Árni Gíslason og Sophus J. Nielsen, sem saman áttu sexæringinn Stanley.
Svo háttaði til að bróðir Sophusar var verkstjóri hjá C. Möllerup mótorverksmiðjunum í Esbjerg í Danmörku. Skrifuðust þeir bræður oft á og bar bátavélar þá vitaskuld stundum á góma. Upp úr þessum bréfaskiptum varð það að samkomulagi að prófa að flytja inn litla bátavél til Íslands.
Vélin kom til Ísafjarðar með strandferðaskipinu Vestu þann 5. nóvember 1902. Hún var tveggja hestafla „ og eyðir 2 pd. steinolíu um klukkustundina og kostar því 20-30 aura um tímann. Hún hreyfir jafnt aptur á bak sem áfram, og það má láta hana hafa svo lítinn krapt sem vill og er því laf-hægt að lenda bátnum og stöðva hann hvenær sem er.“ Kostaði hún 900 kr. í sett.
Var nú tekið til við að gera nauðsynlegar breytingar á Stanley til að koma mætti vélinni fyrir. Nutu bátseigendur aðstoðar ungs Dana, Jens Hansen Jessen, sem Möllerup verksmiðjan hafði sent til Íslands til að aðstoða við ísetningu vélarinnar og kenna meðferð hennar.
Þegar vélinni hafði verið komið fyrir var hún reynd á landi og gekk vel. Þó hafði gleymst að senda koppafeiti með henni til landsins og var það ráð tekið að slátra hesti og nota makkafeiti stað koppafeiti. Þótti þetta ráð gefast ágætlega.
Fyrsta ferð Stanleys fyrir vélarafli var farin 25. nóvember 1902. Hún tókst í alla staði vel og gekk báturinn álíka hratt og sex menn gátu róið. Hóf Árni Gíslason þegar að halda bátnum til veiða. Fáum dögum síðar var fjallað um Stanley og vélina í blaðinu Vestra á Ísafirði:
„29. þ.m. fór Á. Gíslason á sjó til fiskiveiða og reyndist vjelin mjög þægileg. Hann hefir nú aðra olíu til brennslu en fyrst og gengur báturinn miklu betur með henni og hefur nú góðan gang. Vjer óskum eigendunum til hamingju með þetta nýja fyrirtæki þeirra, og eiga þeir þakkir skilið fyrir að hafa orðið fyrstir til að leggja út í áhættuna og reyna þessa nýung. Gefist þessi fyrsta hreyfivjel vel, sem vjer efustum ekki um, er óhætt að gera ráð fyrir að margar fleiri komi á eptir.“
Eftir að Jens Hansen Jessen hafði lokið við að koma vélinni fyrir í Stanley haustið 1902 sneri hann aftur til síns heima í Danmörku. Hann kom til Ísafjarðar á ný sumarið eftir til að sinna fleiri verkefnum og fór svo að hann settist að á staðnum. Eflaust hefur Jessen eygt góða atvinnumöguleika á Ísafirði, enda gekk vélvæðing flotans hratt fyrir sig og enginn vélfræðingur var í bænum, er gæti séð um að setja niður vélar eða annast viðhald á þeim. Vorið 1904 stofnsetti hann Vélaverkstæði J.H. Jessen, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi, og naut til þess stuðnings ýmissa útgerðarmanna á staðnum.
Jessen reyndist góður vélsmiður og lipurmenni og fékk því strax mikil viðskipti. Vélsmiðja hans bætti úr brýnni þörf á viðgerðarþjónustu fyrir vaxandi vélbátaútgerð, en hún var jafnframt og ekki síður upphaf innlendrar þekkingar í vélfræði. Fram til þess tíma var ekki um að ræða neina vélfræðimenntun hér á landi aðra en þá, sem hver og einn varð sér úti um sjálfur. Með stofnun Vélsmiðju J.H. Jessen var lagður gunnur að kennslu á þessu sviði og er alveg ljóst, að hún hefir haft ómæld áhrif á uppbyggingu þessarar atvinnugreinar hér á landi. Þar hófu starfsferil sinn margir, sem síðar gátu sér góðan orðstýr sem vélsmiðir og vélstjórar og virðist alveg einsýnt, að um Jessen hafi safnast einstaklega samstilltur og áhugasamur hópur ungra manna, víðsvegar að af landinu, til að tileinka sér þekkingu hans og reynslu á sviði vélfræði. Í þessum hópi voru menn, sem áttu eftir að standa fremstir í flokki við tækniuppbyggingu sjávarútvegsins, þegar vélaöldin hóf þar innreið sína.
Þessi hópur dreifðist síðan víða um land, eins og eðlilegt er. Margir þeirra fóru í Vélskóla Íslands, þegar hann tók til starfa, og urðu vélstjórar á fiski- og flutningaskipum. Tveir af nemendum Jessens, þeir Gísli Jónsson, síðar alþingismaður, og Hallgrímur Jónsson, síðar yfirvélstjóri hjá Eimskip, áttu einmitt drýgstan þátt í að Vélskólinn var stofnaður árið 1915. Settust þeir báðir í 2. bekk skólans og luku þaðan prófi vorið 1916, tveir af þremur fyrstu nemendum þeirrar nýju stofnunar. Hinir voru einnig margir, sem tóku að sér þjónustu við flotann og sáu um að halda honum gangandi í áraraðir. Þessara manna er óvíða getið í rituðum heimildum, þeir unnu störf sín í kyrrþey, en hlutur þeirra er stór í útgerðarsögunni og undantekningalaust virðast þeir hafa búið yfir ótrúlegri verkþekkingu.
Vélsmiðja J.H. Jessen er tvímælalaust eitt merkasta fyrirtækið sem stofnað var á Ísafirði á þessum árum. Hún var fyrsta vélsmiðjan á landinu og hlaut því að hafa veruleg áhrif á mótun hinnar nýju starfsgreinar og viðhorf manna til hennar.