Haustið 1998 færði Vilmundur Reimarsson í Bolungarvík Byggðasafni Vestfjarða að gjöf eikarbátinn Sædísi ÍS 467. Safnið hefur síðan látið vinna að endurbótum á bátnum og verður varðveitur á floti.
Sædís var byggð á Ísafirði árið 1938. Þá var staða sjávarútvegs á Ísafirði að Samvinnufélag Ísfirðinga og h.f. Huginn voru aðsópsmestu útgerðarfélögin. Hitt félagið var Njörður, en Kaupfélag Ísfirðinga var þar stærsti hluthafinn. Fyrsti stjórnarformaður Njarðar var Guðmundur G. Hagalín en Ketill Guðmundsson, kaupfélagsstóri, varð fyrsti framkvæmdastjóri. Sædís varð fyrsti bátur félagsins, smíðuð árið 1938 eins og áður var nefnt. Ásdís var smíðuð sama ár, og árið 1940 höfðu þrjár „dísir“ bæst í flotann, Bryndís, Hjördís og Valdís. Allir voru þessir bátar teiknaðir og smíðaðir af Bárði G. Tómassyni, skipaverkfræðingi á Ísafirði. Enn síðar bættist raunar sjötta dísin við, Jódís. Dísirnar voru allar gerðar út fram yfir síðari heimsstyrjöld og stunduðu ýmist línu- dragnóta- eða reknetaveiðar.
Hönnuður og skipasmiður dísanna, Bárður G. Tómasson, fæddist að Hjöllum í Skötufirði í Norður-Ísafjarðarsýslu 1885 og andaðist á Ísafirði árið 1961. Hann fluttist barn að aldri með móður sinni að Kollafjarðarnesi í Strandasýslu og ólst þar upp hjá móðurbróður sínum, Guðmundi Bárðarsyni. Guðmundur var frábær bátasmiður og þar hófust kynni Bárðar af þeirri iðngrein. Hann fluttist 18 ára gamall til Ísafjarðar og réðst til Jóhanns Þorkelssonar skipasmiðs. Hjá honum vann Bárður einn vetur við þilskipaviðgerðir en haustið 1904 sigldi hann til Danmerkur til náms í skipasmíðum. Að því loknu hélt hann til framhaldsnáms og starfa í Bretlandi og varð fyrstur Íslendinga til að ljúka námi í skipaverkfræði. Árið 1916 sneri Bárður aftur til Ísafjarðar og gekkst fyrir því að stofnuð var skipasmíðastöð, sem hann svo rak allt til ársins 1944 þegar hann var ráðinn í embætti siglingamálastjóra.
Þegar Sædís var smíðuð var í henni June Munktel vél, 40 – 45 hestöfl sú vél er nú glötuð og var það töluverð þrautarganga að hafa uppi á annarri sambærilegri. Jón Jóhannesson frá Bíldudal gaf Þjóðminjasafn Íslands 37 hestafla vél af sömu tegund og árgerð árið 1985. Vélin er upphaflega úr 10 tonna fiskibáti, Skarphéðni RE 29, smíðaður 1930. Jón eignaðist bátinn um 1944 og notaði til rækjuveiða á Arnarfirði. Báturinn var rifinn 1950 og vélin þá sett í hús. Söfnin gerðu með sér samkomulag og fær Byggðasafn Vestfjarða vélina til afnota að lokinni viðgerð.
Með bátnum fylgja ýmis tæki og tól tilheyrandi dragnóta- og reknetaveiðum, sem og önnur tæki sem í honum voru í öndverðu.