var smíðuð árið 1929, í Bolungarvík, af Fali Jakobssyni, bátasmið frá Kvíum. Jóhanna var smíðuð fyrir (Einar) Ágúst Einarsson frá Dynjanda, og hefur hún alltaf verið kennd við þann stað.
Hún er talin vera skv. mælibréfi, 2.72 rúmlestir og lengd hennar stafna á milli, eins og fram kemur á s.st., 24 fet, eða rúmir 7 metrar. Jóhanna er smíðuð úr eik og furu.
Gunnlaugur Á. Finnbogason, síðasti eigandi Jóhönnu, afhenti Byggðasafni Vestfjarða hana til varðveislu árið 1991.
Ágúst Einarsson var fæddur að Dynjanda árið 1903, hann var því aðeins 26 ára að aldri þegar hann fékk Fal til að smíða bátinn. Fyrst um sinn stundaði hann útgerð frá Dynjanda eða til ársins 1932 að hann flutti að Sæbóli í Aðalvík og síðar að Hesteyri. Hann dvaldi norðan Djúps allt til ársins 1947, þá flutti hann til Ísafjarðar. Ágúst var alla tíð formaður á eigin bát og réri til fiskjar. Sjóróðra stundaði hann til æviloka, síðustu árin með tengdasyni sínum Helga Hjartarsyni. Ágúst lést árið 1990.
Falur Jakobsson var fæddur í Þaralátursfirði á Hornströndum árið 1872. Falur bjó búi sínu í Barðsvík og var þar við smíðar allt til ársins 1906 þegar hann missir konu sína af barnsförum að hann flytur að Horni og ári síðar til Bolungarvíkur við Ísafjarðardjúp. Fyrstu ár sín í Bolungarvík rak Falur smíðaverkstæði í félagi við Jóhann Bjarnason bátasmið og fyrrum formann. Árið 1912 hóf Falur rekstur á eigin verkstæði og leið ekki á löngu að synir hans, Jakob og Sigmundur komu inní reksturinn en allir voru þeir einstakir völundar og eljumenn. Falur lést árið 1936.
Jóhanna er gott dæmi um trillu af minni gerðinni fyrir aðstæður í Ísafjarðardjúpi. „Falsbátarnir“ þóttu afbragðs sjóskip og einstaklega fallegir. Þeir voru léttbyggðir en verulega styrktir í smíðinni með mun þéttari, en grennri böndum, en almennt tíðkaðist. Lögun og gerð bátanna miðaðist við að hægt væri að taka þá á þurrt eftir hvern róður, var þetta nauðsynlegt þar sem hafnleysur voru. Burðarmagn þeirra var furðumikið og var eftir því tekið. „Þessir léttbyggðu og botnmiklu súgbyrðingar skoppuðu ofan á, á hverju sem gekk“, segir í Einars sögu Guðfinnssonar í Bolungarvík. Gunnlaugur Finnbogason útgerðarmaður á Ísafirði færði safninu bátinn að gjöf.
Magnús Alfreðsson smiður á Ísafirði sá alfarið um viðgerð á Jóhönnu.