Útgefið efni

Veislurnar í Neðsta – saltfiskuppskriftir matgæðinga eldhússins heima

Byggðasafn Vestfjarða hefur frá árinu 2002 blásið til árlegrar saltfiskveislu á Ísafirði þar sem hráefnið er sólþurrkaður þorskur sem breiddur hefur verið út og þurrkaður á fiskreit safnsins. Leitað var til valinkunnra saltfiskunnenda sem rómaðir eru af afrekum í eldhúsum heimila sinna og þeir göldruðu fram fjölbreytilegar og girnilegar uppskriftir á þessu magnaða hráefni sem telja má merkasta framlag Íslendinga til matargerðarlistarinnar.

Í bókinni Veislurnar í Neðsta – saltfiskuppskriftir matgæðinga eldhússins heima er að finna drjúgan hluta þessara veislurétta en jafnframt margvíslegan fróðleik í máli og fjölmörgum myndum um sögu saltfiskvinnslunnar vestra og þær framfarir sem þar urðu. Einnig er að finna í bókinni ábendingar um þau drykkjarföng sem best hæfa þessu lostæti.

Geisladiskurinn Ball í Tjöruhúsinu með tónlist Saltfisksveitar Villa Valla fylgir bókinni. Þar má finna veisluglauminn í dúnmjúkum enskum valsi, rúmbu, cha cha cha, sömbu og jive. Söngkonan Jóhanna V. Þórhallsdóttir stendur í stafni og að baki henni Vilberg Vilbergsson, Páll Torfi Önundarson, Tómas R. Einarsson og Matthías MD Hemstock. Tónlist þeirra er kryddið sem ratar í alla réttina. 

Bókin er samstarfsverkefni Byggðasafns Vestfjarða og Bókaútgáfunnar Opnu. Ýmsir höfundar eiga efni í bókinni, en Jón Sigurpálsson ritstýrði verkinu. Anna Björnsdóttir hannaði kápu og Prentsmiðjan Oddi annaðist prentvinnslu.

Upp