Saltfiskveislan
Það var árið 2002 sem Byggðasafn Vestfjarða stóð fyrir fyrstu saltfiskveislunni en þá voru liðin 150 ár frá því að Ásgeirsverslun var stofnuð á Ísafirði og voru höfuðstöðvar hennar lengst af í Neðstakaupstað. Verslunin var á sínum tíma umsvifamesti útflytjandi saltfisks frá Íslandi og þótti því við hæfi að heiðra minningu fyrirtækisins á þennan hátt. Var boðið upp á hlaðborð saltfiskrétta sem flestir voru ættaðir frá helstu markaðslöndum Ásgeirsverslunar við Miðjarðarhaf. Hráefnið í réttina var sólþurrkaður saltfiskur sem breiddur hafði verið út og þurrkaður á fiskreit safnsins framan við Turnhúsið í Neðstakaupstað. Tónlistarflutningur þetta kvöld var í höndum þeirra Vilbergs Vilbergssonar (Villa Valla), Páls Torfa Önundarsonar, Tómasar R. Einarssonar og Jóhönnu V. Þórhallsdóttur og voru lögin ýmist Íslensk eða suður- evrópsk. Húsfyllir var þetta kvöld og gott betur, því stækka þurfti húsplássið með því að tjalda stóru samkomutjaldi framan við Tjöruhúsið.
Það var ljóst í upphafi að hér yrði ekki staðar numið og hafa veislurnar verið árviss viðburður síðan og var þeim fljótlega fjölgað í fjórar á sumri. Sami hljómsveitarkjarni hefur fylgt fyrstu veislu hvers sumars og hefur safnið leitað til leikmanna, - valinkunnra saltfiskunnenda og fengið þá til að koma með sinn uppáhalds eða áhugaverðasta rétt. Hingað til hefur verið mælst til þess að eldað sé úr sólþurrkuðum fiski safnsins. Safnmenn hafa lagt sitt af mörkunum í matargerðinni, borið á borð heiðarlega og soðningu með vestfirsku mörfloti. Fiskurinn hefur verið útvatnaður í a.m.k. 4 daga og er skipt um vatn á hverjum degi þannig að allt salt er farið úr honum. Í matargerðinni er saltað til baka, ef svo má að orði komast, því vinnslusaltið er allt of groddalegt fyrir svona fínt hráefni.