Neðstikaupstaður

Tjöruhúsið

Tjöruhúsið var reist árið 1781 sem vörugeymsluhús, gert úr stokkum á tímum Konungsverslunarinnar síðari. Byggingaraðferðin er eins og Turnhúss þótt þau séu misstór. Veggirnir eru hlaðnir úr þykkum, láréttum stokkum á hæð. Gróp eða nót er á samliggjandi hliðum plankanna og laus fjöður þar í sem skorðar þá saman. Á hornum eru trén felld saman hálft í hálft og ná endar þeirra út fyrir veggfletina.

Að nokkru leyti minnir þessi húsagerð á hefðbundin stokkahús eins og þau tíðkuðust í Skandinavíu. Þó hafa þau augljós sérkenni sem talin eru benda til þess að þau séu hugsuð og smíðuð af dönskum smiðum.

Timburgólf var í þessum húsum frá upphafi. Inni í húsunum var sléttað með möl og gólfborðin lögð beint á hana án nokkurra gólfbita. Gólfbitar efra gólfsins náðu þvert yfir húsið milli langveggjanna og hvíldu á langbita í miðju húsi. Langbitinn er borinn uppi af nokkrum stoðum og í Turnhúsinu eru skástífur milli stoðanna og bitanna. Skammbitar eru milli sperra og í Turnhúsinu er manngengt loft yfir þeim.

Svo virðist sem Konungsverslunin síðari hafi „framleitt" hús sem þessi í umtalsverðum mæli. Vitað er með vissu um hús sömu gerðar á Grænlandi og frá sama tíma. Salthúsið á Þingeyri og pakkhúsið á Hofsósi eru einnig sömu gerðar og frá sama tíma.

Upp