Faktorshúsið
Faktorshúsið var reist árið 1765 og er af svokallaðri bolhúsagerð. Bolhúsagerðin telja menn að sé upprunnin frá eikarskógasvæðum Suðurskandinavíu, þar sem ekki var völ á löngum, beinvöxnum trjábolum til húsagerðar. Segja má að bolhús séu gerð úr gisinni grind sem fyllt er í með láréttum plönkum. Almenna verslunarfélagið tók við einokunarverslun á Íslandi árið 1764 og lét félagið strax reisa vönduð íbúðarhús á allmörgum verslunarstöðum sínum. Þau voru líklega öll svipaðrar gerðar, þ.e. bolhús, en um tvær stærðir a.m.k. var þó að ræða. Slík hús voru reist í Stykkishólmi, Akureyri, Vestmannaeyjum og Eyrarbakka auk Ísafjarðar. Aðeins Húsið á Eyrarbakka stendur enn auk Faktorshússins á Ísafirði.
Um miðja 19. öldina, þegar Faktorshúsið á Ísafirði var um aldargamalt, var það endurbætt mikið og því breytt. Það var klætt að nýju bæði að utan og innan og fékk á sig svipmót annars byggingarstíls. Um aldamótin seinustu var húsið klætt bárujárni og fljótlega eftir það var einnig byggður skúr framan við aðaldyrnar.
Árið 1977 var byrjað að endurbæta Faktorshúsið og hefur viðgerðin í aðalatriðum tekið mið af þeim svip sem húsið fékk eftir endurbygginguna um miðja 19. öld.
Herbergjaskipan í Faktorshúsinu var með hefðbundnum hætti sem tíðkaðist fram um miðja 19. öldina. Inngangur var á miðri framhlið. Langveggur var aftan við miðju hússins og tveir þverveggir sinn hvoru megin við innganginn. Við framhliðina voru þannig tvær stofur sem gengið var í úr forstofu. Í forstofunni var stigi til loftsins. Aftan til í húsinu var kames, eldhús og búr. Í eldhúsinu, í miðju húsinu, var stórt eldstæði og yfir því reykháfur sem náði upp úr þakinu.
Stofurnar voru hitaðar með bíleggjaraofnum, kassalaga járnofnum sem opnuðust inn í eldstæðið og voru mataðir þaðan.
Að innan voru herbergin klædd lóðréttum, nótuðum borðum sem náðu milli gólfs og lofts. Þau voru dökkgræn á lit og með einfaldri skrautmálningu uppi við loftið.
Faktorshúsið var tjargað frá grunni og upp á mæni. Aðeins gluggar og hurðir hafa verið máluð. Um miðja seinustu öld var húsið allt klætt að utan með svokallaðri listasúð sem var máluð. Þá fékk húsið einnig nýja glugga og var allt klætt að innan með spjaldsúð. Þar með fékk húsið yfirbragðs nýs tíma og nýs stíls.