Júní mánuður hefur farið rólega í gang hér í Neðstakaupstað. Sumarstarfsfólkið, þau Heiðrún, Snævar og Tryggvi hafa tekið til hendinni á ýmsum vígstöðum, frágangur, breytingar og tiltekt svo eitthvað sé nefnt.
Við hliðina á Smiðjunni hér í Neðsta hefur verið sett upp beitingaaðstaða sem sýnir hvernig hvernig handverknaður við beitingu hefur breyst í tímans rás - einhverskonar tímalína. Það er aldrei að vita að í sumar verði einhver á svæðinu og sýni handbrögðin.
Einhver starfsemi verður í smiðjunni hér í Neðsta. Fólki er velkomið að hafa samband og forvitnast um aðstöðuna þar.
Við Hafnarstræti 8 hefur verið unnið að því að setja upp smásýningu þar sem harmonikur úr safni Ásgeirs S. Sigurðssonar verða til sýnis. það er safninu bæði ljúft og skilt að heiðra minningu þeirra hjóna, Ásgeirs og Messíönu Marzellíusardóttur sem kvaddi þessa jarðvist á þessu ári. Í bland við fágæt eintök, má finna þar elstu harmonikuna í safninu og harmonikur sem eiga sér áhugaverðar sögur. Harmonikur sem enda á ruslahaugum og er "bjargað", nikkur sem hafa verið skildar eftir og aldrei vitjað bæði úr viðgerð og líkt í einu tilfelli ein sem gleymdist á skólaferðalagi. Tekið verður úr lás nú í dag, mánudaginn 15. júní og formleg opnun auglýst innan tíðar.
Breytingar á opnunartíma verða óhjákvæmilegar í kjölfar Covid tíma og breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Opnunartíminn verður 10:00 (í stað 9:00)-17:00 , þangað til annað verður ákveðið og verkefnin breytist í áttina við það sem þekkist frá sumarstarfsemi safnsins. Harmonikusýning og Smiðjan á Þingeyri eru opnar 13:00 - 17:00
Bestu kveðjur úr Neðsta