Í fyrrahaust eignaðist Byggðasafn Vestfjarða vélbátinn Magnús KE 46, áður Gunnar Sigurðsson ÍS 13. Það voru þeir Erling Brim Ingimundarson og Þórarinn Ingi Ingason sem gáfu bátinn til Byggðasafnsins. Báturinn er Bátalónsbátur, smíðaður árið 1974 úr furu og eik, og er 13 brl. Hann er jafnframt fyrsti bátur þessarar gerðar sem smíðaður var með álhúsi samkvæmt ósk kaupanda. Það var Rafn Oddson skipstjóri á Ísafirði sem lét smíða bátinn fyrirsig og stundaði hann á honum rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi um árabil eða allt til ársins 1998. Þá urðu eigendaskipti á bátnum og hefur hann borið ýmis nöfn síðan, s.s. Víkingur SH 86, Máni GK 557, Kofri ÍS 41 og síðast, Magnús KE 46, og var hann þá í Njarðvík.
Landhelgisgæslan flutti bátinn vestur í fyrrahaust og í vetur og sumar hafa staðið yfir miklar endurbætur á bátnum. Það var Magnús Alfreðsson sem hafði veg og vanda af því sem að smíðunum sneri, Vélsmiðjan Þrymur sá um vél, Póllinn um rafmagn og Vélsmiðja Ísafjarðar um að sjóða ballest á kjöl. Skipt var um saum í bátnum, vél tekin upp ásamt fleiru, og báturinn útbúinn í það að sigla með ferðamenn í stuttar veiðiferðir þar sem fiskað er upp á gamla mátann, þ.e. með handrúllum, og upplifa stemninguna sem því fylgir. Mun báturinn taka 8 farþega, auk 2 manna áhafnar.
Eftir að allt var tilbúið var haldin stutt athöfn þar sem Sigþrúður Gunnarsdóttir eiginkona Rafns Oddsonar endurskírði bátinn, og Sr.Fjölnir Ásbjörnsson blessaði hann. Farið var í nokkrar prufuferðir undir stjórn þeirra Þorsteins Jónínusonar og Jóns Þórs Þorleifssonar sem tóku að sér að prufukeyra útgerðina í sumar og næsta vor verður farið í þetta af fullum krafti.