Fiskætasálmur Hallgríms Péturssonar flokkast víst ekki undir hefðbunda sálma, heldur er hann þarna að lofa og prísa það sem almættið færir honum af sjávarfangi. Má af þessu sjá og lesa í neysluvenjur Íslendinga á sautjándu öldinni.

 

Afbragðsmatur er ýsan feit, 

ef hún er bæði fersk og heit, 

soðin í sjóarblandi. 

Líka prísa ég lúðuraf. 

Lax og silungur ber þó af 

hverskyns fisk hér á landi.

Langan svangan 

magann seður, 

soltinn gleður. 

Satt ég greini. 

Úldin skata er iðra reynir.  

 

Morkinn hákarl, sem matar hníf,

margra gerir að krenkja líf. 

Ríkismenn oft það reyna. 

Um háfinn hugsa húskar meir. 

Hann í eldinum steikja þeir. 

Brjósk er í staðinn beina. 

Hlýrinn rýri, 

halda menn 

af honum renni

hræðileg feiti. 

En rauðmagi er besti rétturinn heiti.  

 

Karfinn feitur ber fínan smekk. 

Fáum er spáný keilan þekk. 

Upsinn er alls á milli. 

Þorskurinn, sem í þaranum þrífst, 

þrefaldur út úr roðinu rífst. 

Frá ég hann margan fylli. 

Þorskinn, roskinn, 

rifinn, harðan, 

rétt óbarðan 

ráð er besta 

að bleyta í sýru á borð fyrir presta.