Gamla sjúkrahúsið á Ísafirði er tvímælalaust ein fallegasta bygging á Vestfjörðum. Það er byggt árið 1925 og er teiknað af Guðjóni Samúelssyni þáverandi húsameistara ríkisins, og var á þeim tíma glæsilegasta hús sinnar tegundar hér á landi. Þjónaði það hlutverki sjúkrahúss til ársins 1989 þegar nýtt sjúkrahús var tekið í notkun. Hafði þá verið ákveðið að húsið skyldi nýtt undir starfsemi bóka- skjala og listasafn og árið 2003 fluttu söfnin í húsið eftir nauðsynlegar viðgerðir og endurbætur.