Talsíminn í Neðsta
Talsíminn var fundinn upp árið 1876 og breiddist þessi nýja tækni hratt út um heiminn. Til Danmerkur barst síminn árið 1877 og þremur árum síðar var komið upp talsímakerfi í Kaupmannahöfn. Íslendingar erlendis komust vitaskuld í kynni við þetta undratæki, en þó varð dráttur á að menn gerðu tilraunir til að koma á talsímasambandi hér á landi.
Það er Ásgeir Ásgeirsson yngri, kaupmaður í Neðstakaupstað á Ísafirði, sem á heiðurinn af því að hafa fyrstur látið leggja síma á Íslandi. Ásgeir var einn af aðsópsmestu athafnamönnum landsins á sinni tíð og þótti bæði framsýnn og djarfhuga maður. Verslun hans og útgerð urðu risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða enda urðu þau undirstaða mikils og blómlegs atvinnulíf á Ísafirði. Ásgeir hafði jafnan vetursetu í Kaupmannahöfn og þar kynntist hann gildi talsímans. Vorið 1889 kom hann til Ísafjarðar frá Danmörku og hafði í farteski sínu símtæki og efni í símalínu. Að sjálfsögðu var enginn maður á Ísafirði sem kunni til verka við símalagningu, en Ásgeir fékk til verksins þekktan hagleiksmann, Guðmund Pálsson sem var beykir við verslunina. Lagði Guðmundur símalínu á milli Faktorshússins í Neðstakaupstað og verslunarhúss Ásgeirsverslunar við Aðalstræti (nú Aðalstræti 15), um 500 metra vegalengd. Varð Guðmundur þar með í raun fyrsti símamaðurinn á Íslandi. Síðan var önnur lína lögð frá Faktorshúsinu í vefnaðarvörudeild Ásgeirsverslunar, sem var þá í húsi því sem síðar var Aðalstræti 20 en hefur nú verið rifið.
Þessar fyrstu símalínur landsins voru í notkun þar til innanbæjarsímkerfi var tekið í notkun árið 1908. Í millitíðinni var lögð lína á milli Ísafjarðar og Hnífsdals og var hún tekin í notkun árið 1892.